Fjölmiðlar víða um heim skýra frá því nú í morgun að hinn skrautlegi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, hafi látist á sjúkrahúsi í Mílanó, 86 ára að aldri.
Í frétt CNN kemur fram að hann hafi eitt sinn lýst sjálfum sér sem Jesú Kristi stjórnmálanna.
Berlusconi hafði glímt við vanheilsu undanfarin misseri og var nýlega greindur með hvítblæði. Hann hafði áður þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna öndunarerfiðleika.
Hann þótti litríkasti stjórnmálamaður Ítalíu og vakti mikla athygli á alþjóðavettvangi. Berlusconi gegndi embætti forsætisráðherra alls þrisvar fyrst frá 1994-1995 síðan frá 2001-2006 og síðast frá 2008-2011.
Berlusconi gegndi embættinu í samtals níu ár, lengur en nokkur annar síðan að leiðtogi fasista Benito Mussolini var og hét.
Berlusconi vakti fyrst þjóðarathygli á Ítalíu sem kaupsýslumaður. Hann rak m.a. fjölmiðlafyrirtæki og festi kaup á knattspyrnuliðinu AC Milan. Liðið naut mikillar velgengni á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Hann nýtti sér sigursæld liðsins til að ryðja veginn fyrir stjórnmálaferil sinn.
Hann var sakaður um margháttaða spillingu á meðan hann gegndi embætti og var margsinnis ákærður en aðeins dæmdur einu sinni en það var árið 2012 fyrir skattsvik.
Berlusconi varð þekktur m.a. fyrir miklar og skrautlegar svallveislur sem vöktu hneykslan víða.
Hann var einnig þekktur fyrir að segja allt sem honum datt í hug og oft á tíðum þóttu ummæli hans vart sæma forsætisráðherra.
Í fréttum BBC kemur fram að varnarmálaráðherra Ítalíu, Guido Crosetto, hafi lýst því yfir á Twitter að dauði Berlusconi skildi eftir sig mikið tómarúm. Sagði ráðherrann að ákveðnu tímabili væri lokið.
„Vertu sæll Silvio,“ sagði ráðherrann.