Í gegnum söguna hefur stríðum yfirleitt lokið með að annar aðilinn ber sigur úr býtum á vígvellinum og neyðir hinn aðilann til að ganga að kröfum sínum og skilyrðum. Þetta þýðir einfaldlega að sigurvegarinn tekur allt það sem hann vill fá og gerir það sem hann vill.
Besta dæmið um þetta er ósigur Þýskalands nasista í síðari heimsstyrjöldinni 1945. Þjóðverjar gáfust skilyrðislaust upp, landið var hernumið af hersveitum Bandamanna og æðstu menn Þriðja ríkisins voru teknir af lífi. Þriðja ríkið beið því algjöran ósigur og sigurvegararnir meðhöndluðu það í samræmi við það.
En þannig endar stríðið í Úkraínu varla að því er segir í umfjöllun Jótlandspóstsins um málið. Bent er á aðeins ein sviðsmynd opni á slíkan möguleika, hún er að Rússar sigri og leggi landið undir sig og Úkraínumenn neyðist því til að gefast upp. Það er eitthvað sem hernaðarsérfræðingar sjá ekki fyrir sér að gerist.
Hið gagnstæða þykir heldur ekki líklegt, það er að Rússar snauti heim og hætti stríðsrekstrinum.
Niels Bo Poulsen, sérfræðingur í hernaðarsögu og yfirmaður hernaðar- og hersögudeildar danska varnarmálaskólans, sagði að líklega muni stríðinu ekki ljúka á formlegan hátt með því að stríðsaðilar setjist niður við samningaborðið og semji. Frekar muni þetta enda eins og í stríðinu á milli Norður- og Suður-Kóreu. Því stríði lauk með vopnahléi meðfram 38. breiddargráðu en ríkin hafa aldrei samið um frið.
Margir sérfræðingar telja líklegast að þannig endi stríðið í Úkraínu. Þegar stríði lýkur með því að bardagar hætta bara og engin friðarsamningur er gerður kallast það „frozen conflict“. Þetta frost getur síðan verið á mismunandi stigum að sögn Poulsen.
Hann sagði að báðir aðilar geti verið örmagna og geti ekki meira. Einnig geti verið að Rússar muni bara bíða eftir að geta látið til skara skríða á nýjan leik, til dæmis ef mikil breyting verður í næstu forsetakosningum í Bandaríkjunum. Eða þá að Rússar muni bara safna kröftum til að geta hafið stríðið aftur á einhverjum tímapunkti.
Einnig gæti það gerst að stríð hefjist aldrei aftur á milli ríkjanna, eins og raunin hefur verið á Kóreuskaga fram að þessu. En slík staða myndi hafa þau áhrif að Úkraínumenn yrðu alltaf að vera undir stríð búnir og það gæti haft mikil áhrif á landið og þróun mála þar. Það myndi neyða Úkraínumenn til að eyða gríðarlegum fjárhæðum í að vera undir stríð búnir.
Rússar og Úkraínumenn standa andspænis hver öðrum og hvorugur aðilinn vill gefa neitt eftir. Zelenskyy, forseti Úkraínu, segir að ekki verði hægt að setjast við samningaborðið fyrr en Rússar hafa dregið allar hersveitir sínar frá Úkraínu, bæði austurhlutanum og Krím. Pútín, Rússlandsforseti, hefur margoft sagt að Úkraína eigi engan tilverurétt sem sjálfstætt ríki.
Það er auðvitað ekki hægt að sameina þessi tvö sjónarmið og því verður að finna aðra lausn á stríðinu og telja sérfræðingar því langlíklegast að það endi sem „frozen conflict“.