Ekið var á gangandi vegfaranda í miðborginni í gærkvöld. Var ökumaður bílsins handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna. Sá sem varð fyrir bílnum slasaðist lítillega og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að maður var handtekinn vegna líkamsárásar og hótana í hverfi 105. Beit maðurinn lögreglumann þegar afskipti voru höfð af honum. Var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Farið var í eftirlitsferði á veitingastaði í miðborginni. Má einn staður eiga von á kæru vegna réttindaleysis dyravarðar.
Tilkynnt var um mann sem var sofandi í stigagangi í fjölbýlishúsi í hverfi 110. Var hann vakinn og hélt sína leið.
Skráningarmerki voru tekin af nokkrum bílum vegna vanrækslu á aðalskoðun. Ennfremur voru nokkrir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur og reyndust tveir vera sviptir ökuréttindum.