fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Sigurjón Kjartans segist engu hafa logið: „Stenst enga skoðun og því ekki á neinn hátt sannleikanum samkvæmt“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 15. janúar 2023 11:06

Sigurjón Kjartansson. Mynd/Stefán Karlsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér er brigslað um að segja ósatt frá í grein sem hinn nýji miðill Heimildin setti frá sér í gær. Það tek ég nærri mér og vil þessvegna leyfa ykkur að fá smá innsýn í þetta mál.“

Svona hefst færsla sem kvikmyndagerðarmaðurinn Sigurjón Kjartansson skrifar og birti á Facebook-síðu sinni í gær. Í færslunni fer hann yfir frétt Heimildarinnar þar sem farið var yfir erfiðleika bak við tjöldin varðandi framleiðslu Áramótaskaupsins.

Í frétt Heimildarinnar er meðal annars  fullyrt að „þrýstingur um að taka Skaupið upp í nýja miðbænum á Selfossi, duldar auglýsingar og falin fjárhagsáætlun hafi orðið til þess að upp úr sauð.“

RÚV gerði samning við framleiðslufyrirtækið S800 ehf. sem er meðal annars í eigu Sigurjóns en einnig útgerðarmannsins og stofnanda Samherja, Kristjáns Vilhelmssonar. Kristján á hlut í framleiðslufyrirtækinu í gegnum fasteignaþróunarfélagið Sigtún sem er á bak við uppbyggingu nýjar miðbæjarins á Selfossi. Þær upplýsingar komu fram í frétt Stundarinnar í í lok nóvember og uppljóstranirnar urðu til þess að leikstjóri Skaupsins, Dóra Jóhannsdóttir, fór að spyrja krefjandi spurninga varðandi þann áhuga á framleiðenda á að taka upp atriði á Selfossi.

„Selfoss-pressan“ var til umfjöllunar í áðurnefndri frétt Heimildarinnar og þar var meðal annars rifjað upp að Sigurjón hefði fullyrt í viðtali að ekki hafi neitt efni verið tekið upp utandyra á Selfossi. Í Heimildinni kemur fram að það sé ekki rétt en í einni senu Skaupsins má sjá Ölfusárbrúna í bakgrunninum.

Sigurjón segir að í samtali sínu við Stundina hafi hann vissulega sagt að engar útitökur hafi verið á Selfossi. „Með því lauk símtalinu og við kvöddumst. Nokkrum dögum síðar var mér sagt að ég hefði „logið að blaðamanni Stundarinnar“ og þá var ég minntur á þetta eina skot sem tekið var upp fyrir utan rútu – á Selfossi – úti,“ segir hann og kemur svo með útskýringu á þessu.

„Þessu hafði ég bara alveg gleymt og gekkst að sjálfsögðu strax við því. Sú aðgerð leikstjóra Skaupsins að reyna að afmá Ölfusárbrúnna útúr þessu eina skoti – á einhvern hátt útaf minni gleymsku – var hinsvegar ekki í mínum höndum og gerði ég ekki veður útaf því enda bar ég fullt traust til hennar.“

„Þessi erfiðu samskipti þar á milli byrjuðu löngu áður“

Annað sem Sigurjón vill koma inn á eru fullyrðingar um að framlag sitt til Skaupsins hafi verið lítið. Hann mætti verr en aðrir meðlimir handritsteymisins á vinnufundi og var talsvert erlendis þegar verkefnið var í vinnslu.

„Þegar ég segi að ég „geti ekki sagt að ég hafi lagt eitthvað minna af mörkum en aðrir“, þá á ég við að ég var einn af teyminu og sem slíkur átti ég þátt í að leggja línurnar undir sterkri handleiðslu yfirhandritshöfundar og leikstjóra,“ segir hann í færslunni.

„Hópvinna í höfundaherbergi er dálítið eins og að vera í hljómsveit og í þessari hljómsveit mætti ég ekki á allar æfingarnar og var meira utanáliggjandi heldur en hinir, enda hafði ég gefið það út við alla strax frá upphafi þegar ég var beðinn um að vera líka partur af handritsteyminu. Ég vil því ekki að þetta misskiljist sem ósanngirni við félaga mína í handritsteyminu sem svo sannarlega skiluðu meira af skrifuðu efni heldur en ég. En teymisvinna snýst um fleira.“

Þá skýtur Sigurjón á Dóru fyrir að tala um hvað hópurinn í Skaupinu hafi verið frábær en að framleiðslan hafi valdið vonbrigðum „Þegar leikstjóri Skaupsins talar um að hún hafi starfað með frábæru „crewi“ en framleiðslan hafi valdið henni vonbrigðum þá felst í því mikil mótsögn – og þó ég hefði nefnt þetta við hana sérstaklega, þá virðist hún ekki gera sér grein fyrir að þetta frábæra „crew“ sem hún vann með var hluti af þessari „ómögulegu“ framleiðslu,“ segir hann.

„Og þó að tveir af framleiðendunum hafi hætt beinum samskiptum við hana þá hættu þeir ekki sem framleiðendur og þó hún hafi ekki séð þá, þá voru þeir samt að vinna hörðum höndum að því að klára þetta Skaup. Þetta vissi leikstjórinn. Ég vil líka taka fram að þessir tveir tilteknu framleiðendur hafa samtals 50 ára reynslu af kvikmyndagerð og aldrei hafa þeir áður séð ástæðu til að slíta samskiptum við leikstjóra. Þessi erfiðu samskipti þar á milli byrjuðu löngu áður en þessi frétt um eignarhald framleiðslufyrirtækisins birtist, þvert á það sem leikstjóri heldur fram í greininni.“

„Ekki á neinn hátt sannleikanum samkvæmt“

Sigurjón segir svo að önnur fullyrðing í grein Heimildarinnar hafi ekki verið sannleikanum samkvæm, það að leikstjórinn hafi verið ráðinn af RÚV. „Þannig var það ekki. RÚV réð S800 til að framleiða Skaupið. Áður hafði þó átt sér stað samtal milli leikstjórans og dagskrárstjóra RÚV um að hún tæki að sér að leikstýra þessu skaupi, en það var engu að síður sameiginleg ákvörðun milli aðila (S800 og RÚV) að S800 réði téðan leikstjóra til verksins,“ segir hann.

„Það virðist því sem eini heimildarmaður þessarar staðhæfingar sé leikstjórinn sjálf sem hefur haldið þessum misskilningi fram áður.“

Að lokum segir Sigurjón að Áramótaskaupið hafi ekki verið í hættu, þrátt fyrir að það komi fram í fyrirsögninni á umræddri frétt Heimildarinnar.

„Sú fullyrðing í fyrirsögnum um að Áramótaskaupið hafi á einhverjum tímapunkti verið í hættu stenst enga skoðun og því ekki á neinn hátt sannleikanum samkvæmt. Ekki nema að það teljist hættulegt að fara á Selfoss.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi