„Á tíunda tímanum í gærkvöld var tilkynnt um mann með stunguáverka í íbúð í Mosfellsbæ. Lögregla og sjúkralið brugðust við þessu og maðurinn var fluttur með hraði, þar sem lögreglutæki voru notuð til að greiða fyrir ferð sjúkrabílsins, á spítala. Einnig á vettvangi var handtekinn karlmaður sem er í haldi lögreglu,“ sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er DV falaðist eftir upplýsingum um alvarlega stunguárás í Mosfellsbær í gær.
RÚV greinir fyrst frá málinu.
Ásgeir gat ekki tjáð sig um líðan brotaþolans en samkvæmt heimildum DV er hann á lífi. Ekki er vitað meira um líðan hans.
Málið er á borði miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar. Þar fengust þau svör að rannsókn málsins væri í fullum gangi og hafi farið strax af stað eftir að lögregla kom á vettvang.. „Við erum að skoða þetta og ná utan um þetta,“ svaraði fulltrúi sem vildi ekki láta nafns síns getið og sagðist ekki geta tjáð sig frekar um málið.