Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann nauman sigur gegn Þýskalandi í æfingaleik í Bremen, 29-30, í vægast sagt köflóttum leik. Leikurinn er undirbúningur fyrir HM í Svíþjóð og Póllandi sem hefst á miðvikudag en fyrsti leikur Íslands er á fimmtudag.
Ísland komst í 3-0 í upphafi leiks og virtist ætla að stinga þýska liðið af. Þjóðverjar unnu sig þó hægt og bítandi inn í leikinn og náðu undirtökunum. Þýskaland var yfir í hálfleik 18:14 og komst í sex marka forystu snemma í síðari hálfleik, útlitið dökkt.
En íslensku strákarnir sýndu karakter og söxuðu jafnt og þétt á forskotið uns þeir náðu aftur forystunni á lokamínútum leiksins.
Óðinn Þór Ríkharðsson átti stórleik fyrir íslenska liðið og skoraði 8 mörk. Aron Pálmarsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu fimm mörk hvor.
Álitsgjafar RÚV, þeir Ólafur Stefánsson og Logi Geirsson, voru ekki ýkja hrifnir af leik liðsins í heild. „Þetta var illa útfærður leikur í vörn og sókn í dag, það er margt sem við þurfum að laga,“ sagði Logi.
Ólafur Stefánsson benti hins vegar á að það væri gott að eiga slakan leik og vinna. Logi var sammála því og benti á að liðinu hefði tekist að snúa við blaðinu með innáskiptingum og það væri frábært að gera það á útivelli gegn Þjóðverjum fyrir framan 11 þúsund manns.
„Takk, Bjöggi“ sagði Óli og benti á þá staðreynd að Björgvin Páll kom í markið eftir að Viktor Gísli fann sig ekki og átti mjög góðan leik. Logi sagði að Björgvin Páll hefði snúið leiknum við.
Liðin mætast aftur á morgun og spái Logi stærri sigri Íslands þá, 5-6 marka sigri.