fbpx
Mánudagur 04.júlí 2022
Fréttir

Mörgum spurningum ósvarað í Óshlíðarmálinu – „Þessi bíll hefur aldrei oltið“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 17. júní 2022 14:30

Kristinn Haukur Jóhannesson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 27. maí síðastliðinn voru líkamsleifar Kristins Hauks Jóhannessonar grafnar upp úr kirkjugarði á Vestfjörðum af hálfu Lögreglunnar á Vestfjörðum vegna ákvörðunar um að rannsaka betur andlát hans sem varð í bílslysi í september árið 1973. Slysið varð er leigubíll Höskuldar Guðmundssonar fór út af Óshlíðarvegi og niður hlíðina.

Mikið var fjallað um málið í fjölmiðlum fyrr í vor en Stundin hefur nú birt fréttaskýringu um það. Vinna blaðamenn Stundarinnar að heimildarmynd um málið í samvinnu við hálfbróður og son Kristins heitins.

Ljóst er að mörgum spurningum er ósvarað í málinu. Er slysið var tilkynnt til lögreglu fyrst, snemma morguns, var eingöngu sagt frá því að karl og kona væru í húsi í Hnífsdal eftir bílveltu í Óshlíðinni. Ekki var minnst á þriðja manninn í bílnum, Kristinn. Kom svo í ljós að konan og maðurinn höfðu ekki fundið Kristinn í myrkrinu en sjálf gengu þau ómeidd frá vettvangnum. Kristinn fannst síðan nokkur síðar í hlíðinni, látinn.

Höskuldur, bílstjórinn, gaf ekki skýrslu í málinu fyrr en tveimur mánuðum síðar. Ósamræmi var í þeirri skýrslugjöf og þeim framburði sem Höskuldur gaf lögreglu strax eftir slysið. Í fyrra sinnið sagði hann að slysið hafi orðið vegna þess að vinstra framhjól bílsins hefði festst. Í skýrslugjöfinni sagði hann hins vegar að vinstra afturhjólið hefði festst. Í fyrri framburði sagðist hann hafa ekið 60 km/klst. á þessum vegi, en í seinni framburðinum sagðist hann hafa verið á 40 km/klst. hraða, sem var löglegur hámarkshraði á þessum vegi.

Skoðunarmenn fundu engin merki um þá bilun í hjólabúnaði bílnum sem hefði getað valdið því að hjól festist.

Athygli vekur að Höskuldur og konan sem var farþegi í bílnum frammi í voru ómeidd eftir slysið en Kristinn var látinn og með mikla áverka á höfði. Fram kemur í grein Stundarinnar að bein Kristins eru núna til rannsóknar í Svíþjóð þar sem reynt er að fá úr því skorið hvort áverkarnir samræmast lýsingu á slysinu eða hvort þeir hafa getað komið til af öðrum ástæðum en bílveltu.

Myndir af bílnum vekja tortryggni

Hálfbróðir Kristins heitins, Þórólfur Hilbert Jóhannesson, og sonur Kristins, sem var eins árs er hann lést, Þorkell Kristinsson, hafa rannsakað málið í eitt og hálft ár. Ríkissaksóknari féllst á beiðni þeirra um endurupptöku rannsóknarinnar og það leiddi til þess að líkamsleifar Kristins voru grafnar upp í vor.

Meðal þess sem vakti tortryggni Þórólfs voru ljósmyndir af bílnum úr slysinu en honum þótti ástand bílsins ekki bera saman við veltur niður Óshlíðina. Hann bar myndirnar undir sérfræðing í bílaviðgerðum. „Þegar við opnuðum viðhengið með tölvupóstinum og skoðuðum myndirnar leið ekki löng stund þar til hann sagði: Þessi bíll hefur aldrei oltið,“ segir Þórólfur við Stundina.

Þakið á bílnum virtist nær heilt og óskemmt og bílrúður bílstjóramegin óbrotnar, hliðarspegillinn bílstjóramegin og ljóskastari sem var áfastur við gluggapóst framrúðunnar bílstjóramegin, allt var þetta óbrotið. Skottlokið virðist sömuleiðis ekki bera merki þess að bíllinn hafi oltið.

„Það bara þyrmdi yfir mig að sjá þetta,“ segir Þórólfur við Stundina.

Bílsmiðir og aðrir fagmenn hafa dregið í efa að lýsingar í skýrslu, þess efnis að bíllinn hafi oltið á vinstri hliðina efst í hlíðinni og haldið áfram að velta niður í fjöru, séu réttar, þær stemmi ekki við ástand bílsins. Frekar bendi skemmdirnar til þess að bíllinn hafi farið alla leið niður í fjöru á hjólunum.

Hver var fjórða manneskjan?

Samkvæmt skýrslugjöf á sínum tíma ók Höskuldur með þrjá farþega í bílnum til Bolungarvíkur og þegar þangað kom kvaddi ein stúlka. Hann ók síðan til baka frá Bolungarvík áleiðis til Ísafjarðar með stúlku sem sat frammi í og Kristin heitinn sem lá sofandi í aftursætinu.

Í fréttaskýringu Stundarinnar segir að ekki hafi tekist að hafa upp á stúlkunni sem Höskuldur á að hafa keyrt til Bolungarvíkur. Þegar rætt hafi verið við þá konu sem þar er nefnd til sögunnar kannast hún ekki við að hafa verið í bílnum. Ekki var vitað til þess að Kristinn heitinn né konan sem sat í framsætinu hafi átt erindi til Bolungarvíkur. Því vekur þetta spurningar um hvers vegna sú ferð var yfirleitt farin.

Konan sem sat í framsætinu er núna um sjötugt og býr í Kópavogi. Hún hefur ekki viljað ræða við fjölmiðla um málið. Bílstjórinn Höskuldur Guðmundsson er 86 ára og býr á Ísafirði. Honum gremst mjög rannsókn málsins og segir að verið sé að klína á sig manndrápi. Lögregla hefur ekki yfirheyrt Höskuld eða konuna sem sat frammi í og enginn er með stöðu sakbornings í málinu, enn sem komið er.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Héðinn og Sveinn segja mannréttindabrot framin á stofnunum landsins „nær daglega“

Héðinn og Sveinn segja mannréttindabrot framin á stofnunum landsins „nær daglega“
Fréttir
Í gær

Þorsteinn um ósæmilega hegðun foreldra á knattspyrnumótum: „Þetta er toppurinn á ísjakanum“

Þorsteinn um ósæmilega hegðun foreldra á knattspyrnumótum: „Þetta er toppurinn á ísjakanum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir handteknir grunaðir um líkamsárás

Tveir handteknir grunaðir um líkamsárás
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakfelldur fyrir hrottalegt ofbeldi gegn sambýliskonu sinni – Setti kodda fyrir vit hennar og barði hana með kertastjaka

Sakfelldur fyrir hrottalegt ofbeldi gegn sambýliskonu sinni – Setti kodda fyrir vit hennar og barði hana með kertastjaka
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Lögmaður föður drengsins sem var fjarlægður af Barnaspítalanum – „Þeir feðgar glaðir að fá að verja loks tíma saman“

Lögmaður föður drengsins sem var fjarlægður af Barnaspítalanum – „Þeir feðgar glaðir að fá að verja loks tíma saman“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Húsfélagsformaður óttast um milljónir eftir pöntun hjá Gluggasmiðjunni – Sölumanni sagt að mæta ekki í vinnuna

Húsfélagsformaður óttast um milljónir eftir pöntun hjá Gluggasmiðjunni – Sölumanni sagt að mæta ekki í vinnuna