fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Snjallir Úkraínumenn blekkja Rússa með snjöllum brellum og eftirlíkingum

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 2. desember 2022 06:13

Himars-kerfið frá Bandaríkjunum í notkun í Úkraínu. Mynd:Twitter/Oleksii Reznikov

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úr lofti líktist þetta eyðilagðri herstöð með ónýtum rússneskum herflugvélum og sundurskotnum flugskýlum. Á öðrum stað sáu rússneskir drónar vestrænt flugskeytakerfi, eitt af þeim sem Rússar óttast allra mest. En ekki var allt sem sýndist.

Þetta voru blekkingar sem Úkraínumenn beittu Rússa og eru þær víðs fjarri því að vera þær einu sem þeir hafa beitt Rússa í stríðinu í Úkraínu. Þessar blekkingar og aðferðir Úkraínumanna hafa fengið Rússa til að skjóta dýrmætum flugskeytum á fölsk skotmörk en einnig hafa Rússum yfirsést hernaðarlegar ógnir vegna vel útfærðra blekkinga Úkraínumanna.

Í nýrri greiningu frá bresku hugveitunni Royal United Services Institute (RUSI) kemur fram að Úkraínumönnum hafi margoft tekist að blekkja rússnesku hersveitirnar. Á sama tíma hafi Rússarnir stuðst við úrelt kort og úr sér gengna lista yfir hernaðarleg skotmörk.

Fram kemur að Úkraínumenn hafi til dæmis tekið ljósmyndir af flugskýlum sem Rússar höfðu sprengt. Þær prentuðu þeir út á stór blöð og lögðu yfir orustuþotur til að leyna því að flugvellirnir væru enn nothæfir og að þar væru orustuþotur. Með þessu komu þeir í veg fyrir að Rússar gætu áttað sig á hvernig stóð á því að úkraínskar herþotur voru enn starfhæfar. Þetta leiddi til vangaveltna hjá Rússum um hvort Úkraínumenn væru með herstöðvar neðanjarðar. Segja skýrsluhöfundar að þessar blekkingar og fleiri hafi gert Rússum erfitt fyrir við að meta tjón Úkraínumanna og hafi sett þá í enn viðkvæmari stöðu varðandi blekkingar Úkraínumanna.

Úkraínumenn hafa einnig lokkað Rússa til að ráðast á og skjóta dýrmætum flugskeytum á eftirlíkingar af vopnum. Til dæmis hafa þeir smíðað eftirlíkingar úr timbri af bandaríska HIMARS-flugskeytakerfinu og fengið Rússa til að ráðast á þær. Þetta vopnakerfi er talið hafa skipt sköpum varðandi góðan árangur Úkraínumanna á vígvellinum.

Í skýrslunni kemur fram að endurteknar árásir á gerviloftvarnarstöðvar Úkraínumanna hafi kostað Rússa mikið af skotfærum. Að auki hafa úkraínskar hersveitir tilkynnt í talstöðvum að ákveðnar stöðvar þeirra hafi verið eyðilagðar, þrátt fyrir að svo hafi ekki verið, sem varð til þess að rússneskir flugmenn hunsuðu loftvarnarkerfin þegar þeir skipulögðu árásir sínar.

Eitt af stærstu vandamálum Rússa hefur að sögn skýrsluhöfunda verið „friendly fire“ en þar er átt við að hermenn skjóta á félaga sína eða flugvélar eða önnur tæki úr eigin her. Ástæðan fyrir þessu eru léleg samskipti rússnesku hersveitanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt