fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Dularfullur dauðdagi rússnesks ofursta – „Framdi maðurinn minn virkilega sjálfsvíg með fimm skotum?“

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 30. nóvember 2022 07:06

Vadim og Julia. Mynd:VK/Julia Boyko

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir hálfum mánuði lést Vadim Boyko, 44 ára ofursti í rússneska hernum. Hann bar ábyrgð á herkvaðningunni í austurhluta Rússlands. Starfsstöð hans var í skóla flotans í Vladivostok. Að sögn yfirmanna þar er enginn vafi á hvernig hann lést og segja þeir að hann hafi skotið sjálfan sig.

„Hann settist í stól yfirmannsins og skaut sig, að því er virðist, fimm skotum,“ segir Julia Boyko, ekkja hans.

Vadim var næstráðandi í skólanum. Þar fannst hann látinn í einni af skrifstofum hans þann 16. nóvember. „Í morgun skaut Vadim Boyko, ofursti, sig. Hann kom til vinnu og skaut sig í gagnaugað,“ skrifaði staðardagblaðið Dalnevostochnij Vedomosti klukkan 09.28 þennan sama dag.

Eins og fyrr sagði þá bar Vadim ábyrgð á herkvaðningunni á þessu svæði. Víða um landið hefur herkvaðningin verið gagnrýnd harðlega. Hún var sögð óskipulögð og að hún skilaði ekki tilætluðum árangri. Það er því kannski engin furða að fljótlega eftir að skýrt var frá andláti Vadim hafi miklar vangaveltur hafist á samfélagsmiðlum um hvort hann hefði í raun tekið eigið líf.

Það ýtir undir kenningar og vangaveltur af þessu tagi að á síðustu árum hafa margir látið lífið á vægast sagt dularfullan hátt í Rússlandi. Oft fólk sem hefur gagnrýnt yfirvöld eða verið fallið í ónáð hjá Vladímír Pútín, forseta.

Þegar rússneski miðillinn Baza, sem er þekktur fyrir að hafa góð sambönd innan lögreglunnar, skýrði frá því að kringumstæðurnar við andlát Vadim þörfnuðust frekari rannsóknar var það til þess fallið að ýta enn frekar undir vangaveltur og efasemdir margra um sannleiksgildi þess sem yfirstjórn hersins sagði.

Baza sagðist hafa heimildir fyrir að vakthafandi yfirmaður í skólanum hafi heyrt skot frá skrifstofu Vadim skömmu eftir að hann kom til vinnu þennan morgun. Hann hljóp þá inn á skrifstofuna og fann Vadim sitjandi í stól. Var hann með mörg skotsár á bringunni.

„Á vettvangi fann lögreglan fimm skothylki og fjórar Makarov-skammbyssur. Staðarmiðlar segja að um sjálfsvíg hafi verið að ræða en þá hefur ofurstinn þurft að skjóta sig fimm sinnum í bringuna,“ skrifaði Baza sem segir að hann hafi ekki skilið eftir kveðjubréf til eiginkonu sinnar og tveggja barna.

Vadim Boyko. Mynd:Rússneski herinn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það vakti að vonum athygli margra að Vadim hafi átt að geta framið sjálfsvíg með því að skjóta sig fimm sinnum í bringuna og Julia er vægast sagt ósátt við það sem yfirstjórn hersins segir um dauða eiginmanns hennar.

Hún skrifaði því opið bréf til Pútíns þar sem hún kvartaði undan málinu. Bréfið hefur verið birt í ýmsum rússneskum fjölmiðlum.  Hún skrifar meðal annars að hún vilji segja honum sannleikann því háttsettir herforingjar hafi ekki sagt honum sannleikann um dauða eiginmanns hennar.

Baza ræddi við Julia sem staðfesti að hún hafi skrifað bréfið. Í því segist hún vilja að Pútín sjái persónulega um rannsókn á dauða Vadim því ekki hafi verið um sjálfsvíg að ræða.

Hún segir einnig frá því sem hún telur að hafi átt sér stað í skólanum. Hún segir að Vadim hafi verið falið það nær ómögulega verkefni að sjá um herkvaðninguna á svæðinu. Hann átti að taka á móti herkvöddum mönnum og sjá um að þeir fengju viðeigandi búnað, húsnæði og væru síðan sendir áfram.

Vadim og Julia með börnin sín. Mynd:VK/Julia Boyko

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Julia segir í bréfinu að strax í upphafi hafi verið ljóst að um erfitt verkefni væri að ræða. Langt sé síðan gripið hafi verið til herkvaðningar og margir eigi erfitt með að sætta sig við nýjan raunveruleika og að fylgja agareglum. Slagsmál og misnotkun áfengis hafi því ekki verið óalgeng vandamál.

Hún segir einnig að þetta hafi haft mikil áhrif á Vadim persónulegar. Hann hafi varla komið heim en hafi ekki kvartað undan verkefninu. Hann hafi gert allt sem hann gat til að leysa það. Hún segir að hann hafi ekki fengið neinn stuðning frá yfirmönnum sínum og einnig tekur hún fram að hann hafi verið ættjarðarvinur sem gerði allt sem í hans valdi stóð til að styðja hernaðinn gegn Úkraínu.

Hún segir að yfirmenn Vadim hafi ekki viljað viðurkenna vandann og Vadim hafi smám saman áttað sig á að þeir hafi hægt og rólega verið farnir að varpa sökinni á hann, að hann bæri ábyrgð á öllum þeim mistökum sem væru gerð í tengslum við herkvaðninguna.

Honum var síðan falið að sjá um útbúnaðinn sem átti að senda til Úkraínu. Segir Julia að ekki hafi verið hægt að fara í stríð með þennan útbúnað, hann hafi verið svo lélegur.

Þá segir hún að yfirmaður hans, Oleg Zhuravlev, hafi beitt sér gegn honum og skyndilega hafi rannsókn hafist á hvernig Vadim hafi tekist upp við herkvaðninguna.  Hafi rannsakendur sagt Vadim að hann gæti átt kröfu upp á 100 milljónir rúbla, sem svarar til um 220 milljóna íslenskra króna) yfir höfði sér vegna tjóns á eignum ríkisins og að hugsanlega yrði um sakamál að ræða þar sem hann yrði dreginn til ábyrgðar.

Vadim hafi heldur ekki dáið inni á skrifstofunni sinni, heldur inni á skrifstofu Zhuravlev. „Já, hann gekk inn á skrifstofu yfirmannsins, ekki sína eigin. Hann settist í stól yfirmannsins og skaut sjálfan sig fimm skotum með skammbyssunni sinni. Hann miðaði ekki á höfuðið, og hann reyndi ekki að ljúka þessu eins hratt og hægt var,“ skrifar hún.

Að lokum segist hún eiga erfitt með að trúa að Vadim hafi framið sjálfsvíg á þennan hátt í stóli yfirmannsins. „Ef þetta hörmulega andlát var afleiðing þess sem Vadim gerði sjálfur, sem sönnur hafa ekki enn verið færðar á í rannsókninni, þá er þetta líklega fyrsta málið þessarar tegundar í Rússlandi. „Aftaka á sjálfum sér,“ skrifar hún.

Hún telur að Vadim hafi orðið fórnarlamb samsæris því hann hafi reynt að gera yfirvöldum viðvart um að vandamál væru uppi sem þyrfti að takast á við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“