fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Þórólfur bað ríkisstjórnina að íhuga víðtækar lokanir í samfélaginu í 10 daga

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 14. janúar 2022 14:54

Þórólfur Guðnason.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og greint var frá fyrr í dag taka gildi nýjar reglur um samkomutakmarkanir á miðnætti. Almennar samkomutakmarkanir fara úr tuttugu manna hámarki og niður í tíu. Skemmtistöðum verður lokað og ekki verður lengur hægt að nýta hraðpróf til að fara á viðburði. Skólar starfa áfram samkvæmt reglugerð, og sundstaðir sem og líkamsræktarstöðvar fá að taka við 50% af leyfilegum hámarksfjölda.

Á vef Stjórnráðsins var í kjölfarið birt minnisblað sem Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, lagði fyrir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Þar fór Þórólfur í stuttu máli yfir stöðu faraldursins og fór meðal annars yfir spálíkan HÍ um hvað sé í vændum. Samkvæmt líklegri spá líkansins kemur fram að miðað við óbreytt ástand verði 70 manns inniliggjandi á Landspítalanum vegna Covid-19 og 20 á gjörgæsludeild í lok mánaðarins.

Samkvæmt bjartsýnustu spá mætti gera ráð fyrir 60 einstaklingum inniliggjandi en 10 á gjörgæsludeild. Til samanburðar er staðan sú í dag að 43 eru inniliggjandi og átta á gjörgæsludeild.

Í minnisblaðinu kemur fram að þróun faraldursins hafi iðulega verið í takt við bjartsýnustu spá en að álagið á heilbrigðiskerfið væri gríðarlegt og „að með vaxandi fjölda innlagna COVID-19 sjúklinga þá mun frekari neyð geta skapast í heilbrigðiskerfinu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

Þrír valkostir í boði

Þórólfur fór síðan yfir þá þrjá valkosti sem væru í stöðunni. Í fyrsta lagi væri það að viðhalda óbreyttu ástandi en sá kostur væri ekki vænlegur.

„Að mínu mati munu óbreyttar sóttvarnaaðgerðir því í besta falli viðhalda því ástandi sem nú ríkir í heilbrigðiskerfinu. Það ástand gæti varað í einhverja vikur a.m.k. en einnig verður að gera ráð fyrir að ástandið í samfélaginu gæti versnað vegna útbreiddra veikinda og skorts á lykilstarfsmönnum. Þá er rökstudd hætta á að langvarandi álag, geti stuðlað að brottfalli heilbrigðisstarfsmanna vegna kulnunar og veikinda,“ skrifaði Þórólfur.

Í öðru lagi væri sá valkostur að herða aðgerðir, meðal annars með 10 manna samkomutakmörkunum og 2ja metra reglunni.

„Árangurinn nú af slíkum aðgerðum kann hins vegar að verða minni og taka lengri tíma en áður vegna meiri smithæfni ómíkron afbrigðisins og einnig vegna þess að faraldurinn nú er orðinn útbreiddari en við höfum áður séð. Fyllsta ástæða er hins vegar til að ætla, að hertar aðgerðir muni fækka samfélagslegum smitum. Annað sem þá kann að gerast, eins og sást í fyrstu bylgju, er að það hægir á samfélaginu sem einnig getur minnkað álag á heilbrigðiskerfið,“ skrifaði Þórólfur um þann valkost sem ríkisstjórnin ákvað svo að fara að mestu leyti eftir.

Þriðji valkosturinn var sá að skella bara nánast öllu í lás næstu tíu daga.

„Með því að beita víðtækum lokunum í samfélaginu bæði í fyrirtækjum, stofnunum og skólum t.d. í 10 daga væri hægt að ná samfélagslegum smitum hratt niður í viðráðanlegan fjölda. Í kjölfarið væri síðan hægt að aflétta í skrefum. Ókostir slíkra aðgerða yrðu hinsvegar sú mikla
röskun í samfélaginu sem að þeim myndu stafa en á móti myndi fyrr sjást ásættanleg fækkun smita. Ef þessi leið yrði valin þyrfti að skilgreina hvaða starfsemi yrði undanþegin lokunum en til að ná viðunandi árangri yrðu lokanir að ná til sem flestra,“ sagði sóttvarnarlæknir um þann valkost.

Hér er hægt að kynna sér minnisblað Þórólfs

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat