fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Skemmdarverkin á gasleiðslunum í Eystrasalti – Voru Rússar að verki?

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 28. september 2022 07:03

Gasið streymdi upp til yfirborðsins frá Nord Stream gasleiðslunni. Mynd:Danski flugherinn/EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær kom í ljós að skemmdarverk höfðu verið unnin á Nord Stream 1 og 2 gasleiðslunum í Eystrasalti, skammt frá Borgundarhólmi sem er dönsk eyja rétt undan strönd Svíþjóðar. Leiðslurnar liggja frá Rússlandi til Þýskalands. Sprengjum hafði verið komið fyrir á gasleiðslunum og þær sprengdar. Böndin berast óneitanlega að Rússum en ekki er hægt að útilokað að einhverjir aðrir hafi verið að verki.

Það sem þykir benda til að Rússar hafi verið að verki er að um flókna framkvæmd er að ræða við að sprengja gat á leiðslurnar. Þær eru á 70-90 metra dýpi og steyptur hólkur er utan um þær. Það þarf því fagmenn, kafara sem kunna að fara með sprengiefni, til að kafa niður að leiðslunum og koma sprengiefninu fyrir. Í því sambandi koma liðsmenn úrvalssveita einhvers hers óneitanlega upp í hugann.

Sprengingarnar voru svo öflugar að þær komu fram á jarðskjálftamælum.

Það er síðan kannski engin tilviljun að málið kom upp í gær því þá var ný gasleiðsla, sem liggur úr Norðursjó í gegnum Danmörku og yfir Eystrasalt til Póllands, vígð. Skemmdarverkin á Nord Stream leiðslunum gætu verið einhverskonar skilaboð frá þeim sem stóðu þar að baki um að þeir séu færir um að skemma nýju gasleiðsluna. Ekki er hægt að fullyrða að þeir hafi í hyggju að gera það eins og staðan er núna, hugsanlega er verið að reyna að hræða Evrópuríki með þessu.

Málið allt hefur alla burði til að verða stórpólitískt mál á alþjóðlegan mælikvarða. Bandarísk stjórnvöld fylgjast með málinu og segja að líklega hafi verið um skemmdarverk að ræða, það er rætt innan NATO og Danir hafa sent tvö herskip að Borgundarhólmi vegna málsins.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði til fréttamannafundar í gærkvöldi þar sem hún fór yfir málið og sagði engan vafa leika á að um skemmdarverk hafi verið að ræða. Hún sagði að ekkert hafi komið fram, enn sem komið er, sem veiti upplýsingar um hver var að verki. Hún sagði að dönsk stjórnvöld taki málið mjög alvarlega og séu í nánu samráði við alþjóðlega bandamenn sína um það.

En málið hófst eiginlega á mánudaginn þegar danski flugherinn staðfesti að gasleki væri komin upp suðaustan við Borgundarhólm við Nord Stream 2. Í gærmorgun kom síðan í ljós að leki var komin að Nord Stream 1 á tveimur stöðum norðaustan við Borgundarhólm.

Gas streymir upp á yfirborðið úr leiðslunum og mun gera næstu daga því mikið gas er í þeim. Íbúum á Borgundarhólmi stafar ekki hætta af lekanum en það getur verið hættulegt að sigla yfir svæðið þar sem gasið leitar upp á yfirborðið.

Í kjölfar frétta af málinu hækkuðu dönsk yfirvöld viðbúnaðarstig sitt og orkufyrirtækjum var gert að auka öryggisráðstafanir við orkuver og aðra mikilvæga innviði á þeirra vegum.

Voru Rússar að verki?

Mette Skak, sérfræðingur í rússneskum málefnum og prófessor við Árósaháskóla, sagði í samtali við Jótlandspóstinn að böndin beinist vissulega að Rússum en ekki megi útiloka að einhverjir aðrir geti hafað verið að verki. Hún sagðist ekki vilja vísa þeirri kenningu á bug að Rússar hafi verið að verki en á tímum eins og nú eru geti alveg hugsast að einkaaðilar, glæpamenn, hafi yfir köfurum að ráða og hafi verið að verki. Það verði því að stíga varlega til jarðar í að fullyrða að Rússar hafi verið að verki.

Anders Puck Nielsen, hernaðarsérfræðingur hjá danska varnarmálaskólanum, sagði í samtali við Ekstra Bladet að ef Rússar hafi verið að verki geti rök þeirra fyrir því verið að þeir hafi viljað loka algjörlega fyrir gasstreymi í gegnum leiðslurnar. Þeir reyni að nota gasið sem vopn í stríðinu.

Peter Viggo Jakobsen, lektor við danska varnarmálaskólann, dró enga dul á að honum hafi dottið í hug að Rússar hafi verið að verki en sagðist hins vegar eiga erfitt með að sjá hver ávinningurinn af þessu sé fyrir Rússa. Einnig sagðist hann efast um getu þeirra til að fremja skemmdarverk af þessu tagi í ljósi þess hversu mikinn mannafla og tækjabúnað þeir eru með í Úkraínu.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, var ekki að skafa utan af hlutunum þegar hann ræddi málið snemma í gær og sagði að um skemmdarverk væri að ræða.

Dmitry Peskov, talsmaður Vladímír Pútíns, sagði í gær að ekki væri hægt að útiloka að um skemmdarverk hafi verið að ræða.

Sænska lögreglan tilkynnti í gær að málið verði rannsakað sem skemmdarverk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Í gær

Sérfræðingar telja að enn sé tími til að stökkva á Bitcoin-vagninn

Sérfræðingar telja að enn sé tími til að stökkva á Bitcoin-vagninn
Fréttir
Í gær

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“
Fréttir
Í gær

Mangione sagður hafa „misst vitið“ eftir sársaukafulla aðgerð

Mangione sagður hafa „misst vitið“ eftir sársaukafulla aðgerð