fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Margeir var hjólandi á Laugaveginum og var keyrður niður af bíl – „Þetta var ekkert annað en líkamsárás“

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 6. júní 2022 13:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarmaðurinn Margeir Steinar Ingólfsson, sem flestir þekkja sem DJ Margeir, varð fyrir fólskulegri líkamsárás á Laugaveginum í gærkvöldi. Margeir var hjólandi milli tveggja bíla þegar hann varð var við að ökumaður aftari bílsins fór að þenja bílinn í augljósum pirringi.

„Ég var á ágætis hraða og var ekki að tefja hann með neinum hætti. Fyrir framan mig var auk þess annar bíll þannig að hann hafði ekki komist leiðar sinnar þó að ég hefði vikið,“ segir Margeir.

Fyrirvaralaust keyrði síðan ökumaðurinn aftan á hjól Margeirs þannig að hann hentist af hjólinu og í götuna. „Mér brá náttúrulega verulega en náði svo áttum, stóð upp og gekk að bílnum til að ræða við ökumanninn og hvað honum hefði gengið til,“ segir Margeir.

Ökumaðurinn gaf þá í og keyrði yfir hjól Margeirs til að komast leiðar sinnar. Þar sem allir vegir voru honum lokaðir keyrði hann inn göngugötuna á Laugaveginum til að komast undan.

Blessunarlega slasaðist Margeir lítið í árásina og hann var ánægður með viðbrögð gangandi vegfarenda. „Ég er aðeins aumur í úlnliðnum en að öðru leyti slapp ég vel. Ég náði númerinu á bílnum og strax eftir atvikið hópaðist að mér fólk sem bauð sig fram sem vitni í málinu,“ segir Margeir.

Meðal annars ræddi Morgunblaðið við sjónarvott sem sagði að um augljóst viljaverk hefði verið að ræða.

Hann segist hafa heyrt í lögreglunni vegna málsins og verið sagt að hann verði boðaður í skýrslutöku fljótlega. „Þeir voru ekki búnir að ná manninum síðast þegar ég vissi en það hlýtur að vera tímaspursmál. Það þarf að taka hart á þessu,“ segir Margeir en hann birti mynd af hjólinu sínu sem er verulega tjónað eftir árásina.

Málið hefur verið til talsverðrar umræðu á Twitter í dag og eru margir á þeirri skoðun að óþolinmæði og pirringur bílstjóra gagnvart hjólreiðafólki sé að færast í vöxt. Margeir tekur undir það. „Já, mér finnst það. Ökumenn eru að keyra fram hjá hjólreiðafólki á alltof miklum hraða og annað í þeim dúr,“ segir tónlistarmaðurinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Grunur um manndráp á Akureyri

Grunur um manndráp á Akureyri