fbpx
Mánudagur 27.september 2021
Fréttir

„When will you be back to China?“ – Kínversk kona í vandræðum eftir að Útlendingastofnun synjaði henni um vegabréfsáritun

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 9. september 2021 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2018 var kínverskri konu neitað um vegabréfsáritun til Íslands á þeim forsendum að hætta væri á því að hún ætlaði að sækja um hæli sem flóttamaður á Íslandi, nokkuð sem konan kannast engan veginn við.

Erindi konunnar var að heimsækja íslenskan unnusta sinn sem hafði boðið henni til Íslands. Ætlaði konan að dveljast í einn mánuð á landinu og keypti hún sér flugmiða báðar leiðir. Er konan lagði inn umsókn um vegabréfsáritun í íslenska sendiráðinu í Beijing var umsóknin metin í fullkomnu lagi og var talið að vegabréfsáritunin yrði afgreidd innan tíðar.

Það dróst hins vegar að fá áritunina og þegar parið tók að lengja eftir henni hafði unnustinn samband við sendiráðið. Var honum þá tjáð að upplýsingar sem konan hefði gefið í síma við starfsmann sendiráðsins hefðu leitt til þess að ákveðið var að senda umsóknina til meðferðar hjá Útlendingastofnun á Íslandi.

Útlendingastofnun hafnaði umsókninni og kærunefnd útlendingamála staðfesti þann úrskurð. Helsta tilgreinda ástæðan fyrir þessu var sú að konan var sögð hafa sagt í símtali við starfsmanninn aðspurð að hún vissi ekki hvað hún hyggðist dveljast lengi á Íslandi. Var það síðan metið sem svo að hætta væri á því að hún ætlaði að gerast flóttamaður hér á landi.

Liggur þó fyrir að konan sagðist ætla að vera nákvæmlega einn mánuð á Íslandi og hafði hún framvísað farseðli heimferðar með umsókninni.

Vinur konunnar, Bergur Ísleifsson, sem býr í Kína, rekur þessa sögu í Facebook-hópnum Lögfræðinördar og birtir hana einnig á eigin Facebook-síðu. Frásögnin er eftirfarandi:

„Komiði sæl.

Mig langar til að leggja hér inn þrjár fyrirspurnir (sjá neðst) til lögfræðinga sem hér eru með von um svör, en verð að byrja á að útskýra forsendur:

 Íslenskur karlmaður kynntist kínverskri konu í ferð sinni til Kína árið 2014. Góð kynni tókust með þeim og svo fór að á næstu árum heimsótti hann hana nokkrum sinnum, kynntist fjölskyldu hennar og ferðaðist með henni um Kína og víðar um Asíu.

 Í byrjun árs 2018 ákvað maðurinn að bjóða þessari unnustu sinni, eins og hann þá sagði hana réttilega vera, að heimsækja sig til Íslands. Til að hafa vaðið fyrir neðan sig hafði hann samband við Íslenska sendiráðið í Beijing i marsmánuði sama ár, útskýrði samband sitt við konuna og spurðist fyrir um hvort einhverjir meinbugir gætu orðið á því að hún fengi útgefið Schengen-visa til að heimsækja sig. Hann fékk þau svör m.a. að svo framarlega sem umsóknin og allir pappírar með henni væru í lagi ætti útgáfa á visanu ekki að vera vandamál.

 Einum og hálfum mánuði síðar, þann 14. maí 2018, lagði konan svo inn umsóknina um visað og var umsóknin metin 100% í lagi. Á meðal fylgiskjala voru flugmiðar sem sýndu flug til Íslands 15. júlí og aftur til baka 15. ágúst. Í kjölfarið sendi maðurinn sendiráðinu tölvupóst og fékk staðfestingu á að umsóknin hefði borist Íslenska sendiráðinu og yrði afgreidd öðru hvoru megin við næstu helgi.

 Leið nú og beið og þegar ekkert hafði bólað á afgreiðslu umsóknarinnar þremur vikum síðar, eða þann 5. júní, sendi maðurinn fyrirspurn á sendiráðið. Fékk hann þá þau svör til baka að í kjölfar umsóknarinnar hefði starfsmaður sendiráðsins hringt í konuna og að það sem hún hefði tjáð honum í því símaviðtali hefði leitt til þess að umsóknin hefði verið send Útlendingastofnun til ákvörðunar. Lét sá sem svaraði fyrir sendiráðið að því liggja með skýrum hætti í svari sínu til mannsins að eitthvað sem konan átti að hafa sagt í þessu viðtali myndi sennilega koma í veg fyrir að hún fengi útgefið umbeðið Schengen-visa. Sagðist sendiráðsmaðurinn ekki geta sagt manninum hvað konan á að hafa sagt sem hafði þessi áhrif þar sem hann væri bundinn trúnaði.

 Gestgjafinn, sem kom auðvitað af fjöllum, hafði að sjálfsögðu strax samband við unnustu sína sem kom jafnmikið af fjöllum og hann. Vissulega hafði kínverskur maður hringt í hana eftir að hún hafði lagt inn umsóknina og spurt hana nokkurra spurninga en hún sagðist ekki hafa nokkra hugmynd um hvað það væri mögulega sem hún á að hafa sagt sem hefði átt að gjörbreyta forsendum umsóknarinnar á þennan hátt.

 Í framhaldinu hafði maðurinn samband við Útlendingastofnun og spurðist fyrir um málið. Í svarbréfi frá Útlendingastofnun var staðfest að umsókn konunnar væri þar til meðferðar og væri niðurstöðu að vænta fljótlega. Maðurinn óskaði eftir að fá að vita hvert vandamálið væri eiginlega og bauð fram útskýringar enda hlyti einhver misskilningur að vera á ferðinni. Í svari frá Útlendingastofnun kom fram að leitað yrði til hans ef útskýringa væri þörf.

Útlendingastofnun leitaði engra nánari útskýringa og þann 26. júní barst konunni skriflegur dómur tveggja lögfræðinga Útlendingastofnunar um að umsókn hennar hefði verið synjað.

 Og þá erum við komin að aðalatriði þessa innleggs:

 Í niðurstöðu Útlendingastofnunar stendur að konan sé grunuð um að hafa ætlað að gerast flóttamaður á Íslandi og í röksemdum fyrir því stendur orðrétt:

 “The applicant stated in a telephone interview with the embassy staff that she has not decided if she will leave Iceland or not.” (Sjá mynd).

 Þarna voru sem sagt komin þau orð sem breyttu öllu. Hins vegar vissi unnustinn strax að þetta gæti bara ekki verið. Í fyrsta lagi var unnusta hans með flugmiðana sem sýndu vel komu og brottfarardag og vissi það auðvitað fullvel að um mánaðarheimsókn væri að ræða og í öðru lagi taldi maðurinn það af og frá að hún gæti hafa sagt þetta í viðtalinu. Unnustan staðfesti það og aftók með öllu að hafa sagt þetta í viðtalinu við kínverska sendiráðsmanninn.

 Unnustinn fór þá fram á það við Útlendingastofnun að fá að heyra þetta viðtal með kínverskum túlki en var tjáð að samtalið hefði ekki verið hljóðritað. Enn fremur kom í ljós að skrifleg útskrift samtalsins, sem Útlendingastofnun hafði fengið frá sendiráðinu og byggði niðurstöðu sína á, hafði ekki verið borin undir unnustuna til staðfestingar. Unnustinn fór þá fram á að fá að sjá þessa útskrift en var neitað á þeim forsendum að hann ætti ekki aðild að málinu og að um væri að ræða trúnaðarskjal sem hann gæti ekki fengið í hendur nema hafa til þess skriflegt umboð unnustunnar í frumriti.

 Það tók rúmlega hálfan mánuð fyrir unnustann að fá það umboð í hendur og í krafti þess lagði hann svo inn formlega beiðni hjá Útlendingastofnun um að fá útskrift samtalsins afhenta. Hálfum mánuði síðar barst honum útskriftin.

 Þá kom í ljós að hvergi nokkurs staðar í útskriftinni stóð að unnustan hefði sagt það sem Útlendingastofnun sagðist í sínum úrskurði hafa haft orðrétt eftir henni. Þvert á móti. Útskriftin samanstendur af þrettán spurningum og spurning númer sjö er svona (sjá mynd):

 „When will you be back in China?“

 Svar unnustunnar: „August 15. We will leave on July 15 and stay for a month.“

 Það sem hún segir þarna gæti því ekki verið í meiri mótsögn við það sem lögfræðingar Útlendingastofnunar segja hana hafa sagt. Það er því alveg ljóst, og kristalskýrara getur það ekki orðið, að lögfræðingar Útlendingastofnunar hreinlega skálduðu það upp í niðurstöðu sinni að hún hefði „stated in a telephone interview with the embassy staff that she has not decided if she will leave Iceland or not.“ Hún sagði þetta hvergi í viðtalinu. Samt er þetta þungamiðja þess að umsókn hennar var synjað á þeim forsendum að hún væri grunuð um að hafa ætlað að gerast flóttamaður.

 Og þá eru það fyrirspurnirnar sem ég vona að lögfræðingar hér geti svarað.

  1. Á þetta augljósa fals þeirra tveggja lögfræðinga sem úrskurðuðu í málinu ekki erindi til félags lögfræðinga?
  2. Mér sem þetta skrifa finnst það nokkuð augljóst að lögfræðingar Útlendingastofnunar brutu þarna almenn hegningarlög nr. 130, enda byggðist synjun þeirra á þeirra eigin falsi:

 „Ef handhafi dómsvalds eða annars opinbers úrskurðarvalds um lögskipti gerist sekur um ranglæti við úrlausn máls eða meðferð þess í því skyni, að niðurstaðan verði ranglát, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum.“

 Eru lögfræðingar hér sammála mér um þetta?

  1. Hefur einhver lögfræðingur hér áhuga á að skoða þetta mál nánar (öll málskjöl og samskipti liggja fyrir) og jafnvel taka að sér að ná fram réttlæti fyrir hönd konunnar?

Tvennt til skýringar:

  1. Unnusti konunnar kærði synjun Útlendingastofnunar til Kærunefndar fyrir hennar hönd en þar sem honum var meinað að sjá útskrift samtalsins áður en kærufrestur (15 dagar) var liðinn gat hann ekki vísað orðrétt í hana, einungis sagt í kærunni að konan mótmælti því harðlega að hafa sagt þetta í viðtalinu. Kærunefndin, sem var með útskriftina og hefði auðveldlega getað séð hið sanna, kaus hins vegar að hundsa þennan lið kærunnar, minntist ekki orði á hann í sinni niðurstöðu heldur dúkkaði upp með allt aðrar ástæður fyrir því að staðfesta synjunina, ástæður sem voru hvergi í úrskurði Útlendingastofnunar og byggðust því á allt öðrum forsendum. En það er önnur saga.
  1. Málið er gríðarlega íþyngjandi fyrir konuna. Með þennan úrskurð á bakinu er hún rauðmerkt í Schengen-kerfinu sem þýðir að henni er að óbreyttu ævilangt meinað að ferðast til Evrópu enda alsaklaus grunuð um að hafa ætlað að gerast flóttamaður á Schengen-svæðinu, grun sem byggist alfarið á skáldskap lögfræðinga Útlendingaeftirlitsins. Auk þess olli þessi synjun henni miklum kostnaði og gríðarlegum sársauka og miska.

 

Sagði brottför vera 15. ágúst

DV hefur undir höndum úrskurð Útlendingastofnunar í málinu sem og útskrift af samtali konunnar við starfsmann sendiráðsins. Þar kemur skýrt fram að konan svarar spurningu starfsmannsins þess efnis hvað lengi hún ætli að dveljast á landinu þannig að hún ætli að vera í einn mánuð, og tilgreinir hún dagsetningar. Símtalið var ekki hljóðritað en endurritið virðist hafa verið unnið upp úr minnispunktum starfsmannsins.

 

Skjáskot af spurningum og svarinu fylgir hér, sem og af hluta tilgreindrar ástæðu Útlendingastofnunar fyrir því að konunni var synjað um vegabréfsáritun. Eins og kemur fram í frásögn Bergs hér að ofan hefur þessi úrskurður valdið konunni miklu meiri vandræðum en sem nemur því að hún hafi ekki fengið að koma til Íslands og hitta unnusta sinn hér, því úrskurðurinn veldur því að henni er að óbreyttu meinað að ferðast innan Schengen-svæðisins um ókomna framtíð, enda grunuð um að hafa ætlað að gerast flóttamaður á Íslandi, nokkuð sem aldrei mun hafa hvarflað að henni, að sögn Bergs Ísleifssonar.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Starfsemi gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu gæti stöðvast í allt að heilt ár

Starfsemi gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu gæti stöðvast í allt að heilt ár
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurður G. tjáir sig um kærurnar – „Kannski vill lögreglan gera húsleit“

Sigurður G. tjáir sig um kærurnar – „Kannski vill lögreglan gera húsleit“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

14 ára sögu Harmageddon á Xinu 97.7 lýkur í dag

14 ára sögu Harmageddon á Xinu 97.7 lýkur í dag
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Er hugsanlegt að múta einhverjum?“ – Samherjamenn töluðu frjálslega um mútugreiðslur

„Er hugsanlegt að múta einhverjum?“ – Samherjamenn töluðu frjálslega um mútugreiðslur
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Edda svarar fyrir sig eftir að Sigurður kallaði hana lygasjúka – „Galið að krefja fólk um einhver bull svör einungis til þess að þagga niður í fólki“

Edda svarar fyrir sig eftir að Sigurður kallaði hana lygasjúka – „Galið að krefja fólk um einhver bull svör einungis til þess að þagga niður í fólki“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Innhringjandinn sá að sér og baðst afsökunar – „Við höfðum öll einhverntímann gert mistök“

Innhringjandinn sá að sér og baðst afsökunar – „Við höfðum öll einhverntímann gert mistök“