fbpx
Föstudagur 11.júní 2021
Fréttir

Framkvæmdastjóri Júdósambands Íslands sakfelldur fyrir líkamsárás – Lögmaður segir hann hafa verið þolanda í málinu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 6. maí 2021 14:00

Þormóður Árni Jónsson. Mynd: Anton Brink.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þormóður Árni Jónsson, framkvæmdastjóri Júdósambands Íslands, var þann 26. apríl síðastliðinn sakfelldur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir líkamsárás.

Um er að ræða atvik er átti sér stað á aðfaranótt 23. desember árið 2018. Þormóði var þá vísað út af Kalda Bar sem er á Klapparstíg, rétt fyrir ofan Laugaveg. Rekstrarstjóri Kalda Bars elti Þormóð út á götu og urðu hörð orðaskipti milli þeirra fyrir utan Lebowski Bar á Laugavegi. Þormóður er sagður hafa rifið í rekstrarstjórann og skellt honum upp við vegg. Þustu þá að dyraverðir frá bæði Kalda Bar og Lebowski Bar, tóku Þormóð föstum tökum og sneru hann niður í götuna. Þeir héldu honum niðri í götunni þar til lögregla kom á vettvang, setti Þormóð í járn og fór með hann burtu. Hann sat í fangaklefa fram á næsta dag, sem var Þorláksmessa, og var síðan látinn laus eftir skýrslutöku.

Einn af dyravörðunum kærði Þormóð fyrir að hafa kýlt sig með krepptum hnefa í andlitið á meðan mennirnir voru að ná tökum á honum. Fyrir rétti neitaði Þormóður þessu, hann sagðist hafa sveiflað hendinni í viðleitni til að slíta sig lausan, enda hefði maðurinn verið með handlegg hans í armlás, sem sé mjög sársaukafullt og ósjálfráð viðbrögð séu að slíta sig lausan úr slíkum tökum.

DV var viðstatt aðalmeðferð málsin þann 9. mars

Verjandi Þormóðs, Jón Egilsson, taldi ákæruna vera fráleita þar sem um hafi verið að ræða ósjálfráða handarhreyfingu sem átti sér stað þegar margir menn tóku Þormóð fangbrögðum og keyrðu hann niður.

Héraðsdómur féllst ekki á þetta og taldi árás Þormóðs hættulega þar sem hún hefði beinst að höfði manns. Segir jafnframt í dómnum að aðfarir Þormóðs hafi verið mun harkalegri en tilefni var til og er ekki fallist á að hann hafi verið að verjast árás.

Við ákvörðun refsingar var tekið tillit til þess að Þormóður er með hreinan sakaferil. Var refsing ákveðin 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Þormóður þarf jafnframt að greiða 20.000 krónur í málskostnað.

Formaðurinn neitar að tjá sig

DV hafði samband við Jóhann Másson, formann Júdósambandsins, til að leita viðbragða hjá honum við þessum fréttum. DV lék meðal annars forvitni á að vita hvort Þormóður gegni áfram stöðu framkvæmdastjóra sambandsins þrátt fyrir að vera með sakadóm á bakinu.

Jóhann neitaði hins vegar með öllu að tjá sig um málið og er því óvíst með afstöðu sambandsins til þess.

Dóm Héraðsdóms má lesa hér

Lögmaðurinn ósáttur og málinu verður áfrýjað

Lögmaður Þormóðs, Jón Egilsson, er afar óánægður með niðurstöðu dómsins og verður dómnum áfrýjað til Landsréttar. Jón segir að Þormóður hafi brugðist við í þessum aðstæðum á sama hátt og allir aðrir hefðu gert. Hann hafi í raun verið dæmdur fyrir að vera stór og sterkur, en ef hann hefði í raun beitt sér í þessum átökum hefði atburðarásin orðið allt önnur. Viðbragð hans með hendinni hefði verið ósjálfrátt sársaukaviðbragð.

Þá segir Jón í áfrýjunartilkynningu sinni til Héraðsdóms Reykjavíkur:

„Þessi dómur er klárlega rangur. Ákærði Þormóður beitti sér ekkert á vettvangi og myndbandið sýnir aðeins að hann var ósáttur við eiganda Kalda sem taldi við hæfi að elta Þormóð til að rífast við hann. Þormóður hafði ekki beitt ofbeldi þessa nótt og var á heimleið.“

Jón segir ennfremur um átökin og framgöngu brotaþolans sem tók þátt í að yfirbuga Þormóð, að UFC bardagamaður, sem er ekki einu sinni dyravörður, hafi ráðist aftan að Þormóði og beitt hann fantataki sem hafi valdið miklum sársauka.  „Það er mjög erfitt að losna úr svona axlarlás en skjót og ósjálfráð viðbrögð Þormóðs við sársaukanum náðu að losna og henda brotaþola frá sér. Þetta eru ósjálfráð viðbrögð og má ekki meta sem líkamsárás að losna úr lás sem tekinn er tilefnislaust aftan frá af ókunnugum manni.“

Þormóður segir að Jón hafi ekkert gert af sér annað en að losna úr skyndilegum sársauka en þá hafi tugur dyravarða ráðist á hann og keyrt hann niður í götuna án þess að hann hafi tekið á móti.

Jón krefst þess að dómurinn verði ómerktur fyrir Landsrétti.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maðurinn sem ók Angjelin segist ekki hafa vitað að hann ætlaði að myrða Armando – Geymdi tösku sem innihélt byssuna

Maðurinn sem ók Angjelin segist ekki hafa vitað að hann ætlaði að myrða Armando – Geymdi tösku sem innihélt byssuna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins gagnrýndur fyrir ummæli sín um drengi og athyglisbrest – „Ekki hundsvit á hvaða ADHD gengur út á“

Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins gagnrýndur fyrir ummæli sín um drengi og athyglisbrest – „Ekki hundsvit á hvaða ADHD gengur út á“