fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Framkvæmdastjóri Júdósambandsins ákærður fyrir líkamsárás – Sagður hafa slegið mann á meðan átta manns héldu honum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 9. mars 2021 13:09

Þormóður Árni Jónsson. Mynd: Anton Brink.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalmeðferð var í fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun í máli gegn Þormóði Árna Jónssyni, framkvæmdastjóra Júdósambands Íslands, vegna atviks sem átti sér stað á Laugavegi á aðfaranótt Þorláksmessu árið 2018. Málið er nokkuð sérstakt en Þormóður er ákærður að hafa kýlt mann með krepptum hnefa sem var með hann í armlás og  keyrði hann niður í götuna í félagi við sjö aðra menn.

Þormóður var ráðinn framkvæmdastjóri Júdósambands Íslands vorið 2019, eða tæplega hálfu ári eftir atburðinn. Hann hafði þá ekki verið ákærður en kæra lá fyrir í málinu.

Þormóður hefur stundað júdó frá sex ára aldri og er einn þekktasti afreksmaður landsins í íþróttinni. Hann er margfaldur Íslandsmeistari og hefur keppt fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum.

Verjanda Þormóðs, Jóni Egilssyni lögmanni, var nokkuð heitt í hamsi í aðdraganda þinghaldsins í morgun og skaut hann föstum skotum að Kristmundi Stefáni Einarssyni aðstoðarsaksóknara sem sótti málið fyrir hönd Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Sagði hann málatilbúnaðinn fráleitan, sakaði Kristmund um fullkominn skort á sáttavilja og sagði að það væri ekki hægt að rökræða við hann. Það væri fáránlegt að maður væri ákærður fyrir líkamsárás fyrir að hafa sveiflað hendi á meðan honum var haldið í fangbrögðum af átta manns og engir áverkar á þolandanum.

Sem fyrr segir átti atvikið sér stað um nótt þann 23. desember árið 2018. Þormóði var þá vísað út af Kalda Bar sem er á Klapparstíg, rétt fyrir ofan Laugaveg. Rekstrarstjóri Kalda Bars elti Þormóð út á götu og urðu hörð orðaskipti milli þeirra fyrir utan Lebowski Bar á Laugavegi. Þormóður er sagður hafa rifið í rekstrarstjórann og skellt honum upp við vegg. Þustu þá að dyraverðir frá bæði Kalda Bar og Lebowski Bar, tóku Þormóð föstum tökum og sneru hann niður í götuna. Þeir héldu honum niðri í götunni þar til lögregla kom á vettvang, setti Þormóð í járn og fór með hann burtu. Hann sat í fangaklefa fram á næsta dag, sem var Þorláksmessa, og var síðan látinn laus eftir skýrslutöku.

Einn af dyravörðunum kærði Þormóð fyrir að hafa kýlt sig með krepptum hnefa í andlitið á meðan mennirnir voru að ná tökum á honum. Fyrir rétti neitaði Þormóður þessu, hann sagðist hafa sveiflað hendinni í viðleitni til að slíta sig lausan, enda hefði maðurinn verið með handlegg hans í armlás, sem sé mjög sársaukafullt og ósjálfráð viðbrögð séu að slíta sig lausan úr slíkum tökum.

Verjandi Þormóðs, Jón Egilsson, sagði að skjólstæðingur sinn væri fyrir rétti vegna vindhöggs.

Sýnd var upptaka úr eftirlitsmyndavél í upphafi aðalmeðferðar sem sýnir Þormóð eiga í óljósum samskiptum við mann fyrir utan Lebowski Bar, nokkrir menn koma þar aðvífandi, ráðast á Þormóð og keyra hann niður í götuna. Í þeim atgangi sést Þormóður sveifla hendi en ómögulegt er að sjá á upptökunni hvort hönd hans lendir á einhverjum.

Rekstrarstjóri Kalda Bars sakaði hann um vanþakklæti

Þormóður lýsti atburðarásinni frá sínum sjónarhóli. Honum hefði sinnast við fólk inni á Kalda Bar og dyraverðir hefðu ákveðið að taka afstöðu með þeim sem hann var að deila við. Mun rifrildið hafa snúist um notkun á lausum stólum. Þeir hefðu því vísað honum út. Þormóður var þá spurður hvort hann hefði sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun inni á Kalda Bar og neitaði hann því:

„Ég var auðvitað ósáttur við að mér væri hent út en ég fór samt. Ég gekk með vini mínum frá Kalda Bar en rekstrarstjóri staðarins eltir mig út og kallar á eftir mér. Ég hef ekki talað við hann áður. Hann sagðist hafa verið að tríta okkur félaga en hann hafði ekkert verið að tríta mig eða mína vini heldur einhverja vini vina minna. Það kom mér ekkert við. Hann sagði ég væri vanþakklátur. Við vorum bara ósáttur hvor við annan, svo bara spinnst þetta upp í rifrildi og við rífumst kröftuglega.“

Þormóður lýsti því síðan hvernig hópur dyravarða, meðal annars maðurinn sem kærði hann fyrir líkamsárás, en sá er dyravörður á Lebowski Bar, hefðu komið að, mennirnir tekið hann hengingartaki og þvingað handleggi hans fyrir aftan bak, í svokölluðum armlási, og keyrt hann niður í götuna.

„Ég beitti mér ekki neitt fyrir utan það að reyna að losa mig úr taki. Það er spurning hvort hópur fólks megi ráðast á mann þó að maður sé að rífast við einhvern úti á götu.“

Í vitnaleiðslum bæði yfir Þormóði og öðrum var leitt í ljós að hann hefði verið undir áhrifum áfengis en ekki dauðadrukkinn. „Ég var búinn að drekka nokkra drykki,“ sagði hann aðspurður.

Saksóknari spurði Þormóð hvers vegna hann hefði farið úr jakkanum inni á Kalda Bar en Þormóður var á skyrtunni þegar til ákakanna kom úti á Laugavegi. „Varstu að búa þig undir átök?“ spurði saksóknarinn. Þormóður sagði svo ekki vera, honum hafi verið heitt, það hefði verið spenna í loftinu og hann í nýjum jakkafötum.

Meintur þolandi leggur stund á blandaðar bardagaíþróttir

Dyravörðurinn sem kærði Þormóð fyrir líkamsárás í þessum átökum leggur stund á blandaðar bardagaíþróttir. Jón Egilsson, verjandi Þormóðs, fékk leyfi til að spila myndband sem sýnir þolandann við æfingar og keppni. Þar sjást átök þar sem menn sparka hver í aðra og kýla í andlit.

„Er þetta leyfilegt?“ spurði verjandinn, Jón, hneykslaður, á meðan sýningu myndbandsins stóð yfir.

Þolandinn bar vitni og sagði hann Þormóð hafa kýlt sig með krepptum hnefa í andlitið á meðan átökunum stóð. Aðspurður sagðist hann ekki hafa fengið áverka af högginu sem lenti á kjálka, en hann hafi verið aumur í andliti daginn eftir.  Verjandinn spurði hann hvort hann hefði beitt þekkingu sem hann hefði lært í sinni keppnisgrein er hann setti Þormóð í armlás. Neitaði hann því og sagði að þessi tök hefði hann lært á dyravarðanámskeiði.

Það kom fram í vitnaleiðslum að sjálfur hefði Þormóður á engan hátt beitt þekkingu sinni á júdó til að verjast mönnunum. Vildi verjandinn meina að hefði hann notað þá þekkingu hefði honum reynst auðvelt að snúa mennina af sér. Hinn meinti þolandi var ekki sammála því en viðurkenndi að Þormóður hefði ekki beitt júdóbrögðum. Verjandinn sagði að skjólstæðingur sinn hefði verið til fyrirmyndar hvað þetta snerti.

Þolandinn meinti lýsti því sem gerðist í aðdraganda átakanna. Hann hefði séð Þormóð deila við rekstrarstjóra Kalda Bars og keyra manninn síðan upp að vegg. Þormóður sagði sjálfur að hann hefði ýtt honum frá sér. Þolandinn meinti sagði að Þormóður hefði virst mjög ógnandi og það hefði verið hárrétt ákvörðun dyravarðanna að ráðast að honum og yfirbuga hann.

Mótsagnir í framburði vitna

Blaðamaður hlýddi á vitnisburð tveggja vitna sem einnig eru dyraverðir og voru á vettvangi. Hvorugur þeirra var þátttakandi í átökunum gegn Þormóði. Verjandinn benti á ósamræmi í framburði þeirra annars vegar fyrir rétti og í skýrslugjöf hjá lögreglu. Annar þeirra sagði Þormóð ekki hafa tekið rökum, hann hafi virst ætla að beita afli og því hafi verið full ástæða til að yfirbuga hann. Hann sagðist ekki vera viss um hvort hann hefði séð hendi Þormóðs smella í andliti þolandans. Verjandinn benti hins vegar á að í skýrslutöku hjá lögreglu hefði hann fullyrt að henn hefði séð Þormóð kýla manninn. Viðurkenndi hann að sá framburður hefði að hluta verið byggður á sögusögnum á vettvangi.

Annar dyravörður, erlendur maður, var einnig vitni á vettvangi en tók ekki þátt í átökunum. „Lítill maður eins og ég,“ svaraði hann hlæjandi, aðspurður um þetta. Hann sagði að langt væri um liðið frá atburðinum, um tvö og hálft ár, og hann gæti ekki munað hvort Þormóður hefði kýlt manninn í andlitið eða ekki. Verjandinn benti honum þá á að í lögregluskýrslu hefði hann sagt að Þormóður hefði slegið til mannsins en ekki hitt hann. Styður sá framburður þann málflutning verjandans að verið sé að ákæra Þormóð fyrir vindhögg.

Dómur verður kveðinn upp í málinu innan fjögurra vikna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi