fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Rýmingaráætlanir settar í forgang – Telur mögulegt að rýma Reykjanes á einum degi

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 3. mars 2021 07:55

Séð yfir Reykjanesbæ.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðeins er búið að gera rýmingaráætlun fyrir Grindavík en vinna er ekki hafin við aðrar áætlanir fyrir Reykjanes. Það er til skoðunar hjá almannavörnum að nota öflugar sjó- og vatnsdælur ef til þess kemur að eldgos ógni byggð eða mikilvægum mannvirkjum. Fram hefur komið að undanförnu að jarðvísindamenn telja ekki að hraunflæði úr hugsanlegu gosi á Reykjanesi nú muni ógna byggð en almannavarnir funda um hvernig sé hægt að verja samgöngumannvirki, veitur, rafmagn og fjarskipti.

Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Sjódælur hafa verið notaðar áður í tengslum við eldgos hér á landi og björguðu þær höfninni í Vestmannaeyjum í gosinu 1973. Þær geta hægt á hraunflæði og bægt því af leið. „Ef til dæmis háspennulínurnar væru í hættu myndum við skoða hvernig væri hægt að stýra hraunstraumnum fram hjá þeim,“ hefur blaðið eftir Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra.

Hann sagði að ekki sé mikið til af slíkum búnaði hér á landi en Ísland taki þátt í alþjóðlegu samstarfi og geti því kallað eftir stórvirkum dælum erlendis frá, dælum sem eru aðallega notaðar til að dæla flóðavatni á brott. Hann sagði að þetta væri þó ekki einfalt mál og þar skipti til dæmis orkunotkun máli auk fleiri þátta. „Það væri hægt að koma slíkum búnaði til landsins á einum eða tveimur dögum með stórum flutningavélum,“ sagði hann.

Eins og fram hefur komið telja jarðvísindamenn að óróinn á Reykjanesskaga, sem hófst í árslok 2019, geti verið upphafið að löngu eldvirkniskeiði á skaganum og eru þar að horfa nokkur hundruð ár fram í tímann.

Ekki eru til rýmingaráætlanir fyrir Reykjanes nema hvað ný áætlun er til fyrir Grindavík. Fréttablaðið hefur eftir Víði að ekki hafi verið talin þörf fyrir áætlanir annars staðar en í Grindavík en kvikuinnskot varð við bæinn fyrir nokkrum mánuðum. Það sé á döfinni að gera áætlanir fyrir aðra þéttbýliskjarna. „Rýmingaráætlanir verða klárlega gerðar á næstunni. Hingað til hefur þetta ekki verið í forgangi því við erum með mjög takmarkaðan mannskap,“ sagði hann og bætti við að mörg þúsund vinnustundir liggi að baki hverri og einni rýmingaráætlun og því sé ekki hægt að segja til hvenær þær verði tilbúnar. Það þurfi fjárframlög og aðkomu fjölda sérfræðinga. „Ég á ekki von á öðru en að þetta verði skipulega sett upp og áætlanir verði gerðar fyrir bæjarfélögin á tiltölulega stuttum tíma,“ sagði hann.

Í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Vogum og Grindavíkurbæ búa um 28.000 manns, þar af tæplega 20.000 í Reykjanesbæ. Víðir sagði að ef grípa þurfi til rýminga verði farið eftir grunnskipulagi rýmingar almannavarnaskipulagsins sem sé ekki mjög flókið í framkvæmd. Hann sagði að Vegagerðin hafi gert hermilíkan fyrir rýmingu Reykjanesbæjar. „Aðalmálið er að stýra rýmingunni þannig að umferðarmannvirkin ráði við hana og það skapist ekki stífla,“ er haft eftir honum. Hann sagðist telja líklegt að hægt sé að rýma svæðið á einum degi. Væri þá miðað við að nota bæði norður- og suðurleiðirnar frá nesinu en ekki yrði notast við báta og skip nema sem algjört neyðarúrræði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“