fbpx
Miðvikudagur 26.janúar 2022
Fréttir

Stefán lýsir skelfingarástandi á Hrafnistu – Forstjórinn segir það versta að baki – „Þvílík handarbakavinnubrögð“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 24. nóvember 2021 11:36

Stefán Hákonarson og Hrafnista í Hafnarfirði

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það grasserar nóróveira í húsinu og enginn veit um það. Hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk þarna hefur beðið mig um að stíga fram og rjúfa þögnina um ástandið,” segir Stefán Hákonarson, 68 ára gamall Hafnfirðingur, en tengdamóðir hans, sem er á 94. aldursári, dvelst á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Tiltölulega einfaldar framkvæmdir hafa dregist von úr viti og Stefán átelur mjög vinnubrögð verktaka sem hafa látið íbúa rýma herbergi sín án þess að hafa það efni í höndum sem átti að nota og án vitneskju um hvenær það kæmi til landsins. Þetta hefur meðal annars valdið því að eigur íbúa hafa verið geymdar úti á svölum í meira en mánuð, vegna minniháttar framkvæmda í herbergjum sem áttu að taka 4-5 daga.

Ennfremur segir Stefán að skortur á hreinlætisaðstöðu í kjölfar þess rasks sem framkvæmdirnar ollu hafi ýtt undir útbreiðslu nóróveirusýkingar á heimilinu.

Margrét Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna, segir gagnrýni Stefáns á framkvæmdatafir réttmætar og útskýrir jafnframt þann vanda sem Hrafnista hafi staðið frammi fyrir í þessu máli. Hún dregur hins vegar í efa fullyrðingar um tengsl þessa vanda við útbreiðslu nóvórveirusýkingar á heimilinu.

Tafirnar valda gamla fólkinu kvöl

„Þetta eru þvílík handabakavinnubrögð og ég veit um hvað ég er að tala því ég er lærður smiður og var verktaki í áratugi með um 40 manns í vinnu,” segir Stefán, en þann 15. október var haft samband við hann og eiginkonu hans af hálfu hjúkrunarheimilisins og þeim sagt að tæma herbergi gömlu konunnar og flytja eigur hennar út á yfirbyggðar svalir þá um helgina vegna framkvæmda sem áttu að hefjast mánudaginn 18. október en hófust ekki fyrr en fimm dögum síðar. Skipta átti um fataskáp í herberginu, endurnýja innréttingarstubb og skipta um salerni og vask á baðherberginu.

Eigur tengdamóður Stefáns voru loksins fluttar inn í herbergið aftur um síðustu helgi eftir meira en mánaðar geymslu á svölunum. Stefán var svo forsjáll að hann teppalagði svalirnar í þágu gömlu konunnar og telur hann eigurnar að mestu óskemmdar. Hann hefur áhyggjur af eigum annarra íbúa heimilisins sem lendi út á svölum í meira en mánaðar tíma og séu þar í rysjóttri íslenskri veðráttu þar sem skiptast á rigning, sól, frost og snjór.

Heimilisfólk á Hrafnistu í Hafnarfirði, sem staðsett er að Hraunvangi 7, er um 200, margir háaldraðir og lasburða. Konan í næsta herbergi við tengdamóður Stefáns er t.d. með Alzheimer-sjúkdóminn. Þegar framkvæmdir í herbergi sem áætlað er að taki 4-5 daga teygja sig yfir meira en mánuð er ljóst að það veldur þessum viðkvæma hópi miklum óþægindum.

Á meðan herbergin eru rýmd af eigum fólksins er bara rúmið skilið eftir til að sofa á yfir nóttina en fólkið heldur til í setustofunni. En inni í framkvæmdaáætluninni eru endurnýjun á gólfefni setustofunnar og hefur henni henni verið lokað svo fólkið hefur ekki lengur aðgang að henni.

„Á öllum hæðum eru þessir blessuðu verktakar að vinna. Þeir eru búnir að rífa og tæma hingað og þangað. Kona sem hefur starfað þarna í 20 ár segist aldrei áður hafa orðið vitni að slíkum vinnubrögðum,“ segir Stefán, sem skilur ekki hvers vegna það lá á að hefja framkvæmdir áður en ljóst var hvenær vörurnar sem þurfti að nota skiluðu sér til landsins.

„Allir gangar eru fullir af drasli svo það er erfitt fyrir fólk með göngugrindur að komast leiðar sinnar, hvað þá fólk í hjólastól.“ Stefán segir jafnframt að ástandið sé farið að hafa mjög slæm áhrif á líðan fólksins og það sé farið að pirrast mikið hvert út í annað.

 Nóróveira grasseri

„Ég get ekki annað en kallað það ástand sem ríkt hefur á Hrafnistu hörmulegt,“ segir Stefán og telur að stórfurðulegar ráðstafanir varðandi fjarlægingu á salernum og vöskum á herbergjum gamla fólksins hafi haft alvarlegar heilsufarsafleiðingar.

Taka þurfti salerni og vaska burtu svo málari gæti grunnað flísar undir þeim. Ný salerni og vaskar voru sett upp í staðinn.  „Setja átti upp ný salerni og vask, en ef gömlu salernin og vaskurinn hefðu verið sett aftur upp eftir málunina, þá hefði það ekki tekið nema 10 mínútur á salernið og 20 mínútur að setja vaskinn upp strax,“ segir Stefán, en þess í stað voru sett ný tæki sem ekki voru talin vera til staðar þegar hin voru fjarlægð. Veruleikinn varð sá að tengdamóðir hans var án salernis í að minnsta kosti fimm daga og án vasks í tíu daga. Hún þurfti að nota salernið á fyrstu hæð en býr á þeirri þriðju. Segir Stefán að gamla konan hafi þurft að staulast milli hæða nokkrum sinnum á hverri nóttu til að nota salerni.

Varðandi þvott segist tengdamóðir Stefáns hafa bjargað sér með rökum þvottastykkjum en Stefán segist hreinlega ekki vita hvernig Alzheimer-veika nágrannakonan hennar bjargaði sér varðandi salernisferðir og þrif og óttast það versta í þeim efnum.

Þann 9. nóvember var aðstandendum heimilisfólks á þessari tilteknu deild heimilisins tilkynnt um að nóróveirusmit væri komið upp og var deildin einangruð í þrjá daga. Stefán smitaðist sjálfur af veirunni sem er bráðsmitandi. Lesa má um nóróveiruna á vef Landlæknisembættisins en góður handþvottur er sagður vera árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir smit.

Stefán telur engan vafa leika á því að skortur á þvottaaðstöðu vegna tafanna við framkvæmdir hafi valdið sýkingunni. „Nóróveiran kemur upp út af óhreinlæti. Þetta fólk, sem borðar saman, hefur ekki í langan tíma aðgang að klósetti eða vatni til að þrífa sig, svo kemur nóróveiran ofan í þetta og fólkið getur ekki þrifið sig og kemst ekki á klósettið.“

Stefán segir að nóvóveiran sé komin upp á öðrum deildum og hreinlega grasseri á heimilinu.

Þetta dregur Margrét Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna, í efa en hún lýsir útbreiðslu nóróveirunnar á heimilinu í lok greinarinnar.

Verktökunum að kenna

Stefán segir að starfsfólkið á Hrafnistu sé yndislegt og umkvörtunum hans vegna ástandsins á heimilinu undanfarið hefur verið vel tekið af stjórnendum. Hefur honum verið þakkað fyrir að vekja athygli á ástandinu og hann hefur verið boðaður á fund með tengilið heimilisfólks og aðstandenda.

Hann varpar sök á ástandinu á undirverktaka sem annast hefur endurbæturnar á húsnæðinu og sakar hann um ófyrirgefanlegt fúsk og skipulagsleysi í umhverfi sem er sérstaklega viðkvæmt fyrir töfum. Núna hillir loks undir að framkvæmdum ljúki á deildinni þar sem tengdamóðir Stefáns býr en sambærilegar framkvæmdir standa yfir á öðrum deildum með tilheyrandi töfum, óttast Stefán. Margrét Fjóla telur hins vegar það versta vera afstaðið eins og betur kemur fram síðar í greininni.

„Þetta eru ekki flóknar breytingar. Nýir fataskápar í öllum herbergjum, nýir innréttingarstubbar í sumum herbergjum en ekki öllum. Málningarvinna. Það hefði verið í lagi að þetta hefði tekið sirka viku. Þetta eru svo fáránleg vinnubrögð að það hálfa væri miklu meira en nóg. Þetta er ófremdarástand og ekki boðlegt. Það er ekki hægt að fara svona með gamla fólkið okkar,“ segir Stefán sem sér sig nauðbeygðan til að stíga fram og láta fjölmiðla vita af ástandinu á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Gríðarlega flókið verkefni

Margrét Fjóla Harðardóttir brást hratt við skriflegum fyrirspurnum DV um málið og bauð upp á símaviðtal. Hún bað um að fá að rekja forsöguna að þeim umdeildu framkvæmdum sem hér eru til umfjöllunar:

„Við erum hér með Hrafnistu Hraunvang í Hafnarfirði, sem er næstelsta heimili Hrafnistu, 40 ára gamalt. Það er bara orðið barn síns tíma. Við fórum alla leið í Hæstarétt með dómsmál varðandi leigu og töpuðum því, en við erum ekki að fá neinar greiðslur frá ríkinu fyrir húsaleigu, ólíkt öðrum hjúkrunarheimilum. Ríkið er að borga leigu fyrir sum hjúkrunarheimili en önnur ekki. Sem þýðir það að húsið drabbast niður. Sem betur fer höfum við happdrætti DAS sem hefur hjálpað okkur að halda við. Það var ætlunin að taka Hraunvanginn algjörlega fyrir, loka deildum, hreinsa út og setja nýtt, svipað og við gerðum í Hrafnistu Laugarás. En við höfum ekki fengið fjármagn til þess, það kostar um þrjá milljarða ef við ætlum að gera þetta almennilega. En jafnframt sáum við fram á það að við gátum ekki boðið íbúum okkar upp á þessi rými eins og þau hafa verið. Þau hafa verið að drabbast niður, klósettin orðin léleg, gólfdúkarnir ógeðslegir.“

Margrét segir að þau hafi verið nauðbeygð til að ráðast í endurbætur án þess að flytja íbúana í burtu:

„Vegna þess að við höfum ekki tækifæri til að loka deildum án þess að þurfa að loka hjúkrunarrýmum og segja upp starfsfólki. Miðað við stöðuna eins og hún er í dag og verður á næstunni, vegna þess að Landspítalinn er fullur af fólki, þá erum við ekki að fara að loka hjúkrunarrýmum til þess að gera þetta, þannig að við vorum að reyna að gera það næstbesta í stöðunni, sem við vissum að yrði gífurlega flókið. Við erum að fara í herbergin þegar þau losna, þegar einstaklingur deyr þá tökum við herbergin og gerum þau upp. En svo eru bara þarna herbergi sem eru þannig að við getum ekki boðið íbúunum upp á óbreytt ástand. Þannig að við erum að fara út í það að breyta herbergi með aldraðan og hruman einstakling í því, sem er flókið.“

Gagnrýni Stefáns að hluta til rétt

„Við réðum inn verkefnastjóra, bara í þetta verkefni, inni í því eru allir stjórnendur Hrafnistu, svo þessi verktaki og fasteignadeild Sjómannaráðs. Þetta er hópurinn sem heldur utan um verkefnið,“ segir María. Hún viðurkennir að gagnrýni Stefáns hafi verið rétt, vandkvæði megi rekja til mistaka undirverktaka en búið sé að komast fyrir þau og tryggja að sambærileg staða komi ekki upp aftur.

Mistökin felast annars vegar í því að hefja framkvæmdir án þess að efni sem nota á sé til staðar og hins vegar í því að fjarlægja salerni og vaska og henda þeim án þess að til staðar séu ný tæki:

„Okkur þykir mjög leitt að fólk hafi verið salernislaust í nokkra daga. Þetta olli því að verkefnið var tekið aftur inn. Við erum að funda vikulega til að taka af svona snuðrur. Núna er búið að banna að taka út salerni án þess að annað sé komið í hús, bara pípari má annast þessi verk.“

María bendir á að núna sé allt efni komið í hús og því mun það vandamál ekki koma upp að efni sem nota á sé ekki til staðar.

„Af virðingu við íbúana ætlum svo síðan að hætta öllum framkvæmdum þann 20. desember, eftir það höldum við bara jól og svo höldum við áfram með þetta á nýju ári. Okkur þykir þetta rosalega leitt, við viljum ekki valda fólkinu okkar ama, en við erum samt að horfa til framtíðar fyrir þau með því að gera íbúðirnar vistlegri og notalegri. En þetta er vissulega rask.“

María segir ennfremur: „Við erum búin að komast fyrir vandann og þetta gengur mjög smurt núna. Allur búnaður er kominn í hús og við lærum af þessum mistökum.“

Nóróveiran berst með starfsfólki og gestum

María tekur síður undir þann málflutning Stefáns að þetta ástand hafi ýtt undir útbreiðslu nóróveirunnar á heimilinu. „Nóróveira kemur inn á einhver af heimilunum árlega, þetta er bara uppgangs- og niðurgangspest sem berst með aðstandendum og starfsfólki. Við einangrum slíkar pestir af því þær eru svo smitandi. Einstaklingur þarf að vera í einangrun á meðan hann er með einkenni og vera tvo daga á herbergi einkennalaus. Á Hrafnistu í Hafnarfirði eru 270 manns, þar af eru 200 íbúar og 70 einstaklingar í dagdvölum. Af þessum hópi voru það 20 manns sem veiktust af þessari bráðsmitandi pest, af þeim er einn veikur í dag. Þetta er að mínu mati – og ég er hjúkrunarfræðingur líka – vel gert. Þegar Covid-hömlur og heimsóknartakmarkanir voru meiri þá fengum við ekki nóróveiru í hús.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Lést vegna COVID á gjörgæslu

Lést vegna COVID á gjörgæslu
Fréttir
Í gær

Birta samskipti Einars við skjólstæðing SÁÁ sem var í vændi – „Sæl, býður þú upp á heimsóknir$“

Birta samskipti Einars við skjólstæðing SÁÁ sem var í vændi – „Sæl, býður þú upp á heimsóknir$“
Fréttir
Í gær

Þetta eru verstu fjárfestingar Reykjavíkurborgar að mati Kolbrúnar – „Ekki er að sjá að þessi rekstur gangi vel“

Þetta eru verstu fjárfestingar Reykjavíkurborgar að mati Kolbrúnar – „Ekki er að sjá að þessi rekstur gangi vel“
Fréttir
Í gær

Einar segir af sér sem formaður SÁÁ – „Fyrir nokkrum árum svaraði ég auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu“

Einar segir af sér sem formaður SÁÁ – „Fyrir nokkrum árum svaraði ég auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fingralangur gestur stal úlpu, bíllyklum og fartölvu

Fingralangur gestur stal úlpu, bíllyklum og fartölvu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ágústa Eva berst gegn Covid-bólusetningum barna – „Fólk er almennt ekki til í að útskúfanir og þvinganir og kúganir séu partur af þeirra tilveru“

Ágústa Eva berst gegn Covid-bólusetningum barna – „Fólk er almennt ekki til í að útskúfanir og þvinganir og kúganir séu partur af þeirra tilveru“