fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Ósáttur deildarstjóri réttar- og öryggisgeðdeilda enn í leyfi – „Það virðast vera þakkirnar eftir 25 ár“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 3. október 2021 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Töluvert bar á fréttum í vor og snemma í sumar um illa meðferð sjúklinga á bráðageðdeildum Landspítalans annars vegar og réttar- og öryggisgeðdeildum spítalans á Kleppi hins vegar. Tilefnið var greinargerð Geðhjálpar sem send var til Landspítalans og byggði á frásögnum fyrrverandi starfsmanna deildanna. Var þar lýst illri meðferð á sjúklingum, vondum starfsanda, skipulagsleysi og ógnarstjórnun.

Greinargerðin var birt viðkomandi yfirvöldum í nóvember árið 2020 en í vor bárust viðbrögð frá Landspítalanum, Landlækni og Umboðsmanni Alþingis (sem fer með eftirlitshlutverk með deildunum á grundvelli samkomulags við Sameinuðu þjóðirnar um eftirlit með stofnunum af þessu tagi) við greinargerðinni. Engin þessara stofnana hefur staðfest að ill meðferð á sjúklingum hafi tíðkast á þessum deildum en ljáð er máls á því að starfsmanna- og stjórnunarvandi kunni að vera fyrir hendi.

Um mánaðamótin maí/júní var Guðmundur Sævar Sævarsson, deildarstjóri öryggis- og réttargeðdeildanna á Kleppi, settur í ótímabundið leyfi. Endurskipulagning deildanna er sögð standa yfir.

Núna eru liðnir fjórir mánuðir síðan deildarstjórinn var settur í  leyfi. Hann er afar ósáttur við stöðu mála, telur frásagnir fyrrverandi starfsmanna um sig og ástandið á deildunum vera ósannindi, knúin persónulegum hefndarhug og að hann hafi verið gerður að blóraböggli, verið fórnað til að lægja öldur almenningsálitsins og draga úr áhuga fjölmiðla á málinu.

Lýstu meintu ófremdarástandi í sjónvarpsviðtali

Greinargerð Geðhjálpar er tvískipt, annars vegar kvarta fimm fyrrverandi starfsmenn réttar- og öryggisgeðdeildar (RÖG) undan stjórnarháttum Guðmundar og ástandinu á deildunum, en hins vegar lýsir fyrrverandi starfsmaður geðdeilda Landspítalans illri meðferð á sjúklingum þar. Segir hann bráðageðdeild Landspítalans fremur líkjast fangelsi en sjúkrahúsi, þar sem veikt fólk sé læst inni svo mánuðum skipti og sæti nauðungarlyfjagjöfum.

Tekið skal fram að DV hefur greinargerðina undir höndum auk allra annarra gagna sem ber á góma síðar í greininni, t.d. álit Umboðsmanns Alþingis, umsagnir aðila, stuðningsyfirlýsingar og fleiri gögn.

Þá ber einnig að halda því til haga að þær ávirðingar í greinargerð Geðhjálpar sem snúa að bráðageðdeild Landspítalans hafa ekkert með störf Guðmundar að gera. Sá hluti inniheldur fyrst og fremst ásakanir um meinta óboðlega meðferð á sjúklingum á meðan sá hluti greinargerðarinnar sem snýr að RÖG inniheldur aðallega ásakanir um starfsmannamál í ólestri, vonda stjórnun og kuldalegt viðmót í garð starfsfólks.

Hins vegar stigu þrjár konur fram, fyrir hönd þessara starfsmanna, í viðtali við RÚV þann 13. maí og sögðu fullum fetum að þær hefðu orðið vitni að andlegu og líkamlegu ofbeldi gegn sjúklingum á RÖG. Ein þeirra sagði að hún myndi ekki óska óvinum sínum að þurfa að dvelja á deildunum. Allt hafi gengið út á hindranir á deildunum en ekki að gefa fólki tækifæri.

Ein konan sagði að líkamlegu og andlegu ofbeldi hafi verið beitt gegn sjúklingum og starfsfólki. Aðspurð hvort hún hefði séð það oft sagði hún: „Já, maður varð vitni að ýmsu og svo fékk maður þetta frá starfsfólkinu sem var á vakt í það og það skiptið. Það var engum reglum fylgt eða viðmiðum sem spítalinn eða siðareglur hjúkrunarfræðinga leggja til.“

Konurnar þrjár sem stigu fram í viðtali við RÚV voru Gyða Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur á öryggisgeðdeild frá 2004 til 2018 og fyrrverandi aðstoðardeildarstjóri þar, Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur á deildunum frá 2013 til 2020, og Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, öldrunarhjúkrunarfræðingur á réttargeðdeildinni 2015 til 2017.

Konurnar þrjár eru sammála um að umkvörtunum þeirra um ástandið á deildunum hafi verið fálega tekið af yfirboðurum á Landspítalanum og þeim stungið undir stól. Þær hafi jafnvel verið skammaðar fyrir að senda frá sér skriflegar kvartanir um ástandið.

Þær voru sammála um að meirihluti starfsmanna deildanna hefði talið ófremdarástand ríkja þar og svo væri raunar enn. Þessu andmælir Guðmundur Sævar  hins vegar harðlega og hefur sér til fulltingis stuðningsyfirlýsingu yfir 20 starfsmanna deildarinnar auk þess sem niðurstöður athugana Umboðsmanns Alþingis og Landspítalans leiða ekki í ljós að sjúklingar á deildunum séu beittir ofbeldi eða vanvirðandi meðferð.

Þá benti úttekt Landspítalans til þess að um 80% af 67 starfsmönnum væru ánægðir í starfi. „Starfsmönnum fannst meðferð deildarinnar fagleg og komið fram við sjúklinga af virðingu. Lang flestir, eða 80% starfsmanna sem rætt var við, voru ánægðir í starfi, leið vel í vinnunni, fannst stjórnendur koma fram við sig af virðingu og veita þeim góðan stuðning,“ segir í erindi forstöðumanns geðsþjónustu Landspítalans, Nönnu Briem, um þetta mál til Landlæknis.

Hér ber mikið í milli. Ljóst er að Geðhjálp telur ástandið á RÖG hafa verið óviðunandi og konurnar þrjár eru afdráttarlausar í fordæmingu sinni á ástandinu. En deildarstjórinn, Guðmundur Sævar Sævarsson, telur ummælin ærumeiðandi og óréttmæt.

Húsnæði og réttaróvissa

Guðmundur Sævar vildi ekki tjá sig um þá ákvörðun að láta hann hætta þegar hún var tekin í vor en kýs að stíga fram núna, nokkrum mánuðum síðar. Að sjálfsögðu hefur DV engar forsendur til að leggja mat á frammistöðu hans í starfi en taldi feng í að fá hans rödd inn í þá umræðu um málefni deildanna sem var hávær í vor en hefur þagnað síðan, ekki síst þar sem ýmislegt sem hann hefur fram að færa virðist stutt gögnum.

Þá þarf vart að taka fram að staða frelsissviptra sjúklinga innan geðsviðs, hvað þá ástand geðheilbrigðismála almennt, snýst um ekki um einn deildarstjóra sem horfinn er á braut. Þetta er málaflokkur sem margir telja að þurfi mun dýpri og víðtækari umræðu en raun ber vitni.

Til dæmis virðast ekki vera til staðar nægilegar réttarheimildir í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptu fólki á geðheilbrigðisstofnunum sem geta falið í sér inngrip í réttindi sem eru varin í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Telur Geðhjálp að brotið sé á réttindum þessara sjúklinga á Íslandi enda feli löggilt frelsissvipting einstaklings ekki í sér að starfsmönnum geðheilbrigðisstofnana sé heimilt að skerða stjórnarskrárbundin réttindi þeirra.

Ennfremur heyrist sú gagnrýni tíðum að húsnæði á Kleppi sé óaðlaðandi og ómanneskjulegt. Þröngir gangar, gluggalaus rými og æpandi gulir veggir hafa þar verið nefnd sem hluti af óaðlaðandi og úreltu umhverfi fyrir sjúklinga.

Friðþægingaraðgerð að losa sig við hann

Guðmundur segir að sú ákvörðun að senda hann í leyfi hafi verið friðþægindaraðgerð til að lægja óánægjuöldur sem risu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um RÖG og geðdeildir Landspítalans, hann sé látinn bera ábyrgð á bæði réttmætri og óréttmætri gagnrýni á geðdeildirnar.

„Enginn er hafinn yfir gagnrýni. Þrátt fyrir að hafa starfað í 25 ár við Landspítalann með flekklausan feril þá er nokkuð ljóst að ég hef örugglega gert minn skerf af mistökum í samskiptum, en að ég hafi haft ásetning um að vera vondur við einhvern er fjarstæða og ættu fagleg störf mín að geta vitnað um það,“ segir hann.

Guðmundur segir að einnig sé notað gegn honum hneykslismál frá árinu 2018, er hann var varaþingmaður Flokks fólksins og hegðaði sér ósæmilega í þingveislu. Hann sagði af sér varaþingmennskunni, baðst afsökunar og segist ekki hafa neytt áfengis síðan umrætt kvöld, eða frá 14. apríl 2018.

„Þarna gaf ég þeim höggstað á mér. Lítill hópur safnaðist saman gegn mér og reyndi að nota tækifærið til að hrekja mig burtu. En ég hef verið yfirmaður sem leggur áherslu á að við séum að vinna fyrir sjúklinga. Við séum eingöngu í starfi til að huga að velferð og öryggi, við séum ekki þarna til að þrýsta okkar gildum yfir á sjúklinga heldur til að mæta þeim og sýna þeim skilning. Ég og yfirlæknir höfum alltaf hugsað eins: Öllum er hægt að hjálpa og skylda okkar er að hjálpa en ekki dæma aðra.

Því er ekki hægt að neita að Öryggisgeðdeild sinnir eingöngu þeim erfiðustu og/eða hættulegustu í geðþjónustu Landspítalans og stundum eru störfin þarna gífurlega erfið. Það reynir á að bregðast við mjög erfiðum aðstæðum nákvæmlega rétt öllum stundum þegar fólk er hrætt, en það er á þeim tíma sem mistökin gerast, mín mistök jafnt sem annarra.“

Segir greinargerðina vera hugarfóstur fráfarandi starfsmanna

Megnið af þeim hluta greinargerðar Geðhjálpar sem lýtur að RÖG, en hún tekur tæplega átta A-4 blaðsíður, lýtur að starfsmannamálum. Í inngangi Geðhjálpar að greinargerðinni segir að mannauðsmál á deildum þar sem fólk er vistað til lengri tíma geti haft áhrif á líðan og meðferð sjúklinga.

Starfsmennirnir fyrrverandi kvarta undan framkomu Guðmundar í sinn garð, hún sé yfirlætisleg, yfirgangssöm og kuldaleg. Hann er sagður hygla sumum starfsmönnum en gera lítið úr öðrum. Kvartað er yfir skipulagsleysi hvað varðar vaktaskráningar og upplýsingar er lúta að meðferð sjúklinga. Einnig eru endurteknar kvartanir er varða viðleitni Guðmundar til að koma í veg fyrir að starfsmenn sofi á næturvöktum.

Guðmundur vísar greinargerðinni á bug og segir: „Þetta byrjaði allt saman eftir að við þurftum því miður að láta reynslumikinn starfsmann fara úr starfi. En þarna fóru þeir af stað sem hafa ekki getað sinnt starfi sínu af heilum hug og því þurft að kljást við mig. Ég mun aldrei biðja afsökunar á því. Landspítalinn er ekki verndaður vinnustaður og ber okkur öllum að huga að starfi okkar af heilindum. Ég ber þá ábyrgð að allir sinni sínu starfi, en starfið er að huga að velferð og öryggi sjúklinga. Það er ekki hægt að gera sofandi í starfi.“

Guðmundur gefur frásögnunum í greinargerðinni falleinkunn:

„Þetta er samansafn af árásum á alla og gengur út á að reyna að sýna fram á hvað starfið á deildinni hafi verið lélegt, sem er víðsfjarri raunveruleikanum. Er þetta byggt á mismiklum sannleika, tekið úr samhengi eða hreint út sagt alfarið ósatt. Gögnin og tölfræðin segja annað: Starfsmannavelta hefur alltaf verið lág, nema flutningur starfsmanna á milli eininga sem hefur ekki alltaf verið vinsæll. Þjónustukannanir sjúklinga hafa verið starfseminni til hróss sem er sérstakt út af fyrir sig þar sem allir eru sjálfræðissviptir hjá okkur eða dæmdir samkvæmt hegningarlögum.

Þarna var ráðist á allar stéttir á mjög ljótan og andstyggilegan hátt með ásökunum sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum og einungis skaðaði starfsemina og það faglega starf sem þar er unnið, var þetta einungis þeim til minnkunar sem standa að baki þessu.“

Komi fram við sjúklinga eins og jafningja

Guðmundur segir ennfremur: „Starfsfólk hefur lagt mikið upp úr því að mæta  sjúklingum sem jafningjum. Við eru öll manneskjur og jöfn í mismunandi hlutverki á ákveðnum tímapunkti. Þessi nálgun dregur jafnframt úr árekstrum og ofbeldi. Að sama skapi hef ég gert kröfur um að deildirnar væru alltaf snyrtilegar – það dregur einnig úr ofbeldi.  Þegar við leyfðum sjúklingum að reykja frjálst í sérútbúnu herbergi og garði, starfsmenn öllum stundum með sjúklingum, þá fækkaði atvikum um 80%. Atvik urðu mjög fágæt á deildunum og má þakka vel unnu starfi ráðgjafa sem tengjast skjólstæðingum vel, sýna þeim virðingu og nærgætni.

Fræðsla er sameiginleg hjá starfsmönnum og sjúklingum, enda deildarnar fyrir sjúklinga og ekkert í okkar menntun sem þeir mega ekki vita eða læra. Starfsmenn fundu muninn og hvernig starfið á deildunum varð allt léttara. Í stað þess að það væru nánast daglega skráð atvik, urðu þau undantekningar. Hér eiga gögnin að fá að tala sínu máli.“

Starfsfólk sendi frá sér stuðningsyfirlýsingu

Starfsfólk RÖG hefur sent frá sér yfirlýsingu til stjórnenda Landspítalans þar sem uppsögnin,  kölluð svo þó að um ótímabundið leyfi sér að ræða, er hörmuð. Í yfirlýsingunni er Guðmundur sagður vera áhrifaríkur stjórnandi og sáttasemjari. Nærvera hans og stjórnunarhættir veiti starfsfólki stöðugleika, sem og þekking hans og færni á sviði réttargeðhjúkrunar. Er brotthvarf hans sagt hafa haft mjög slæm á áhrif og starfsanda og aðstæður á deildunum og nú séu margir ýmist búnir að segja upp eða hugleiði uppsögn vegna þreytu og álags. Hafi nú þegar 80% hjúkrunarfræðinga sagt upp störfum. Undir yfirlýsinguna setja rúmlega 20 starfsmenn nafn sitt.

Aðstoðardeildarstjóri Öryggisgeðdeildar hefur jafnframt sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún segir að sín upplifun sé sú að verið sé að refsa Guðmundi fyrir að vera góður stjórnandi og taka á erfiðum málum. Þar segir meðal annars:

„Hann gerði róttækar breytingar á deildunum m.a. ætlast hann til þess að starfsólk sé ekki inni á vakt[herbergi] nema að það sé að sinna vinnu og starfsfólk er því að mesu leyti frammi með sjúklingunum. Hefur það aukið samskiptaöryggi á deildinni. Þetta vakti ekki hrifningu hjá starfsfólki í upphafi en þetta ásamt öðrum breytingum á deildinni hefur gert það að verkum að atvikum hefur fækkað verulega á deildinni. Flestir eru nú ánægðir með þessar breytingar og vilja ekki snúa til baka. Hann sættir sig ekki við að starfsmenn sofi á nóttunni og sumir starfsmenn eru ósáttir við það.“

 Yfirlæknir ósammála uppsögninni

Yfirlæknir RÖG, Sigurður Páll Pálsson geðlæknir, segir í skriflegri umsögn, að nafnlaust bréf fyrrverandi starfsmanna deildarinnar, sem myndar uppistöðu í greinargerð Geðhjálpar, sé rógburður. Viðbrögðin við greinargerðinni, að senda Guðmund í frí, hafi síðan fengið almenning til að trúa rógburðinum.

Sigurður minnir á að Guðmundur sé eini hjúkrunarfræðingurinn á Íslandi með sérmenntun í réttargeðhjúkrun. Hann hafi þurft að gera nauðsynlegar mannabreytingar á starfseminni sem ekki hafi fallið öllum starfsmönnum í geð. Meðal þess sem kemur fram í umsögn yfirlæknisins er að allir sjúklingar sem hann hafi rætt við hafi talað vel um Guðmund og beri mikla virðingu fyrir honum.

Lýsingarnar í greinargerð Geðhjálpar eru einnig dregnar í efa í erindi forstöðumanns geðþjónustu Landspítalans, Nönnu Briem, til Landlæknis. Vinnuhópur innan Landspítalans tók út starfsemi RÖG með tilliti til greinargerðar Geðhjálpar og var niðurstaðan sú að lýsing á meðferð sjúklinga sem lýst er í greinargerðinni samrýmdist ekki raunveruleikanum.

Umboðsmaður segir samskiptavanda fyrir hendi

Umboðsmaður Alþingis annast svokallað OPCAT-eftirlit á Íslandi með stöðum þar sem frelsissviptir dveljast. OPCAT stendur fyrir valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. Íslenska ríkið hefur undirritað bókunina og í samræmi við það annast Umboðsmaður Alþingis annast OPCAT-eftirlitið.

Eftirlit Umboðsmanns Alþingis hefur hingað til ekki leitt í ljós vanvirðandi og ólöglega meðferð á sjúklingum RÖG en umboðsmaður telur engu að síður að samskiptavandi sé til staðar á deildunum á milli stjórnenda og starfsmanna. Eftirlitsheimsókn OPCAT-nefndar á deildirnar árið 2018 leiddi heldur ekki í ljós ofbeldi eða vanvirðandi meðferð á sjúklingum sem falli undir skilgreiningu SÞ um pyndingar eða aðra grimmilega, ómannlega eða vanvirðandi meðferð.

Geðhjálp ósátt með viðbrögð yfirvalda

Þess má geta að embætti Landlæknis skilgreindi stöðu RÖG sem starfsmannamál og því ætti að finna úrlausn á vegum Landspítalans. Fékk embættið tvær greinargerðir frá Landspítalanum um málið og segir í bréfi til Geðhjálpar að embættið muni fylgjast með endurskipulagningu Landspítalans á starfi deildanna.

Geðhjálp fór yfir stöðuna í tilkynningu sem samtökin birtu á heimasíðu sinni þann 7. júní. Þar segir meðal annars:

„Geðhjálp móttók bréf frá Embætti landlæknis þann 31. maí sl. þar sem farið var yfir viðbrögð embættisins gagnvart þeim ábendingum sem komu fram.  Það bréf vekur ekki bjartsýni um að málin séu í réttum farveg innan embættisins. Þar kemur m.a. þetta fram:

Landspítali hefur nú skilað tveimur greinagerðum til embættisins sem svar við þeim atriðum sem embættið beindi til hans. Að mati embættisins hafa stjórnendur geðþjónustu Landspítalans unnið vel úr þessum málum og lagt fram áætlun um úrbætur þar sem það á við. Deildarstjóri réttar- og öryggisgeðdeildar er núkominn í ótímabundið leyfi og annar tekinn við starfi hans. Embættið mun fylgja málinu frekar eftir gagnvart Landspítala og  fylgjast með framvindu mála á deildinni og umbótavinnu.

Það eru rúmir sex mánuðir liðnir frá því að ábendingarnar komu fyrst fram og viðbrögðin eftirlitsaðilans virðast vera sambærileg og ef um minniháttar mál væri að ræða.“

Mælist Geðhjálp til þess að gerð verði óháð úttekt á starfsemi allra deilda geðsviðs Landspítalans og sérstök úttekt verði gerð á starfsemi RÖG með hliðsjón af þeim ásökunum sem starfsmenn og notendur þjónustunnar hafa komið fram með. Leggur Geðhjálp enn fremur til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi til tilraunar í þrjú ár. Þessar ábendingar Geðhjálpar má lesa hér.

Geðhjálp er óánægð með viðbrögð yfirvalda við greinargerðinni og vill sjá aukinn vilja til að leggja af nauðungarvistanir og aðra þvingandi meðferð á stofnunum.

Ósáttur deildarstjóri á útleið

Ljóst er að hér ber mikið á milli um hvað raunverulega hefur gengið á á deildunum.

Guðmundur Sævar er afar ósáttur við stöðu mála og telur að sér hafi verið fórnað til að lægja öldur almenningsálits vegna frásagna fyrrverandi starfsmanna sem hann telur byggðar á sandi. Segir hann að stefnt sé að því að gera við hann starfslokasamning og hann sé ekki inn í framtíðaráætlunum Landspítalans um þróun starfsins á deildunum tveimur.

„Í rauninni var mér sagt að mæta ekki meira til starfa og hef lítið heyrt frá yfirstjórn Landspítalans síðan. Það virðast vera þakkirnar eftir 25 ár og samstarfsfólk veit gjörla hvað ég hef lagt mikið af mörkum fyrir hönd Landspítalans alls. Ég sakna þeirra gilda sem spítalinn gefur sig út fyrir að starfa eftir,“ segir Guðmundur Sævar Sævarsson, sem kveður nú starf sitt sem deildarstjóri Réttar- og öryggisdeilda Landspítalans. Honum hefur enn ekki verið formlega verið sagt upp störfum en hefur verið tjáð munnlega að hann eigi ekki afturkvæmt í starfið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi