fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Háar aspir valda ólgu í Hamrahverfi – Dró nágranna sína fyrir dóm

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 13. október 2021 20:15

Þessar aspir eru við Austurbæjarskóla og tengjast fréttinni ekki. Mynd: Vilhelm

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í máli þar sem kona krafðist þess að nágrannar hennar felldu  aspartré í garði sínum að viðlögðum 30 þúsund króna dagsektum. Til vara gerði konan þá kröfu að apsirnar yrðu klipptar svo fjarlægð þeirra frá lóðamörkum yrði aukin.

Konan sagðist hafa gert samkomulag við fyrri eiganda húss nágrannana um að fella trén en því miður hefði hann fallið frá áður en af því varð. Núverandi eigendur, hjón, kannast ekki við slíkt samkomulag og neita að fella trén eða klippa þau.

Um ástæður þess að konan vill fá trén felld segir orðrétt í dómnum:

„Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að stefndu sé óheimilt, án samráðs við stefnanda, að rækta aspir á lóðamörkum sem valdi því að stórar og miklar greinar
trjánna slúti langt út fyrir lóðamörk og inn á lóð stefnanda. Það brjóti gegn ólögfestum reglum um grenndarrétt. Hæð og staðsetning trjánna valdi því að lóð
stefnanda fyllist af laufum á haustin, bæði framan og aftan við húsið. Það lendi á stefnanda að hreinsa laufin með tilheyrandi kostnaði. Á sumrin sé lóðin sömuleiðis
umlukin frjókornum sem berist einnig inn í húsið, bæði um glugga og dyr.“

Segir konan að óþægindin af trjágróðrinum séu mun meiri en eðlilegt geti talist og hagsmunir hennar af því að fá trén fjarlægð séu mun meiri en hagsmunir nágrannana af því að halda trjánum.

Konan vísar til ákvæða um grenndarrétt og til byggingarreglugerðar þar sem kveður á um að tré sem plantað er við lóðamörk samliggjandi lóða skuli ekki vera hærri en 1,80 m. Þá segir einnig:

„Í öðru lagi séu aspirnar nær lóðamörkum en fjórir metrar og í þriðja lagi teygi greinar aspanna sig langt inn á lóð stefnanda. Eins liggi fyrir ábending frá Veitum þar sem bent sé á hættu vegna þessara aspa á lagnakerfi húsanna, sem sýni fram á mikilvægi þess að trén séu fjarlægð.“

Telur konan hafið yfir allan vafa að krafa hennar byggi á traustum lagalegum grunni enda um viðvarandi og veruleg óþægindi að ræða, sem og hættu sem hún eigi ekki að þurfa að búa við.

Trjágróðurinn veiti skjól

Nágrannarnir hafna málatilbúnaði konunnar. Segja þau að trjágróðurinn veiti mikið skjól fyrir veðri og vindum og veiti næði á lóð þeirra. Auk þess séu trén glæsileg og eigi þátt í því að gera hverfið skjólsælt og fallegt.

Hjónin hafna ennfremur þeim málatilbúnaði að trén séu á lóðamörkum, þau séu á þeirra lóð, nokkrum metrum frá lóðamörkum. Þá telja þau með öllu ósannað að frjókorn sem valdi óþægindum berist fremur frá þessum trjám en öðrum gróðri í nágrenninu. Þá segir ennfremur orðrétt í málatilbúnaði hjónanna:

„Þá benda stefndu á að stefnandi hafi ekki sýnt fram á nein óþægindi af völdum greina sem hafi brotnað af trjám stefndu. Það eitt að stefnandi óttist að greinar brotni geti ekki talist nægilegt til þess að stefndu beri að fjarlægja trén. Þá er hættan af greinum væntanlega lítil og ekkert sem bendi til að greinar af trjám stefndu hafi valdið tjóni á fasteign stefnanda eða öðrum eigum hennar. Þá hafi stefndu látið snyrta greinar á trjánum og ræktað lóð sína.“

Hjónin vísa til dómafordæma um að fasteignareigendur verði alltaf að þola viss óþægindi vegna nábýlis við aðra fasteignareigendur. „Stefndu hafna því að óþægindi stefnanda af laufum sem kunni að falla af trjám stefndu og frjókornum, séu meiri en stefnandi hafi mátt búast við. Þá sé óverulegt skuggavarp af trjám stefndu og skuggavarp í garð stefnanda aðallega af húsi hennar sjálfrar. Ómögulegt sé að ætla að garðar í grónum hverfum skuli njóta óhindrað sólar alltaf og vera lausir við lauf frá trjám annarra lóða. Þá sé, eins og þessu máli sé háttað, ómögulegt að átta sig á því hvaðan lauf og annað sem stefnandi kvarti yfir séu komin,“ segir í dómnum.

Trén lifa

Það vann gegn konunni í niðurstöðu dómarans að ekki voru kallaðir fyrir dóminn til að gefa skýrslu þeir aðilar sem hún tefldi fram gögnum frá. Til dæmis lagði hún fram tölvupóst frá starfsmanni Veitna þess efnis að rætur aspartrjáa gætu valdið skemmdum á skólplögnum. En umræddur starfsmaður var ekki kvaddur fyrir dóm svo hægt væri að spyrja hann nánar út í þetta. Gilti þetta sama um önnur gögn sérfræðinga sem konan vísaði í.

Það var síðan niðurstaða dómsins að í heild væru meint óþægindi af trjánum ekki umfram það sem eðlilegt væri að fasteignareigendur þyrftu að þola af nábýli við nágranna sína. Ennfremur skorti nokkuð á sannanir fyrir máli konunnar. Einnig skorti matsgerð frá hlutlausum og óvilhöllum matsmanni um meint óþægindi af trjánum.

Var það niðurstaða dómsins að sýkna hjónin af kröfum konunnar og þurfa þau hvorki að fella né klippa aspartréin sín. Málskostnaður fellur niður.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar
Fréttir
Í gær

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work
Fréttir
Í gær

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“
Fréttir
Í gær

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“