fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Söru var rúllað inn á bráðamóttökuna og pabbi hennar kallaði hana spítalamat – „Nokkrir dagar í viðbót hefðu getað verið mjög hættulegir fyrir mig“

Bjarki Sigurðsson
Fimmtudaginn 29. apríl 2021 18:30

Skjáskot/Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sara Oskarsson, listakona og varaþingmaður Pírata, veiktist hastarlega í síðustu viku og endaði inni á Landspítalanum með vökva í æð. Hún ræðir veikindi sín í færslu á Facebook-síðu sinni.

Sara vaknaði einn morguninn með mikinn kuldahroll sem hún hafði ekki upplifað áður. Í gegnum daginn hækkaði líkamshiti hennar og hún pantaði sér tíma í Covid-einkennasýnatöku. Hún fékk hinsvegar neikvætt úr sýnatökunni.

„En ég varð bara slappari og slappari og veikari og veikari og á nokkrum dögum var ég orðin svo þrælslöpp að ég hreinlega gat ekki setið uppi. Kuldahrollirnir léku mig grátt og beinverkirnir alveg óskaplegir. Eins virtist glænýr og hvellsár verkur í hægri síðunni vilja fá að vera með í „einkennapartýinu“,“ skrifar Sara en unnusti hennar hóf þá að reyna að koma henni til læknis.

Sara ætlaði sér að taka þetta á ævafornu íslensku hörkunni og þverneitaði að fara til læknis. Hún segist hafa verið alveg viss um að læknirinn myndi einungis greina hana með algenga víruspest eða annað svipað.

„Á sunnudagsmorguninn þegar að tilhugsunin um að fara fram úr og reyna kannski að skríða fram í sófa virtist óhugsandi þolraun braut ég odd á oflæti mínu og viðurkenndi að kannski – bara kannski væri ráð og tímabært að spjalla við einhvern læknismenntaðan,“ skrifar Sara en verkurinn í síðunni jókst alltaf, ásamt ógleðinni, og segir hún hitastig sitt hafa verið að nálgast efri mörkin í nuddpottinum í Vesturbæjarlauginni.

„Einni læknaheimsókn og símtali við föður minn sem er læknir síðar brunaði Andri dauðfeginn svo með mig niður á bráðamóttöku. Símtalið við pabba var eftirminnilegt: „Sara mín, þú ert nú bara spítalamatur heyrist mér á öllu“. Og að sjálfsögðu hafði hann rétt fyrir sér,“ skrifar Sara en þarna voru verkirnir orðnir svo miklir að henni var rúllað inn á hjólastól.

Sara var sett í hjartalínurit og blóð- og þvagprufu en úr þeim komu niðurstöður sem gáfu í skyn að hún þjáðist af alvarlegri sýkingu og fékk hún vökva og sýklalyf í æð.

„Venjuleg þvagfærasýking hafði fengið óáreitt að leiða til sýkingar upp í nýra en einhverra hluta vegna höfðu byrjunareinkenni þvagfærasýkingarinnar alveg farið framhjá mér. Nýrað var orðið sýkt, bakteríurnar geta farið út í blóðið, valdið eitrun og þá er voðinn vís og getur endað illa,“ segir Sara.

Sara fékk að fara heim eftir að búið var að dæla í hana sýklalyfjum, morfíni og vökva en þá var hitinn farinn að víkja.

Í samtali við DV segir Sara að þó hún sé komin heim þá er hún enn mjög slöpp.

„Ég er á hraðri uppleið en ég er enn með verki og smá hita. Sólarhringsmunurinn er mjög mikill, í gær hefði ekki verið möguleiki að ég gæti skrifað þessa færslu. Ég gat ekki setið við tölvu eða horft á skjá,“ segir Sara en hún þakkar fjölskyldu sinni fyrir aðstoð í gegnum veikindin.

Sara vill meina að ef hún hefði beðið lengur með að fara á spítala, þá hefðu hlutirnir geta farið öðruvísi.

„Nokkrir dagar í viðbót hefðu getað verið mjög hættulegir fyrir mig. Þetta getur farið í líffærabilun, hjartastopp og svona. Það er þessi þrjóska í manni sem getur verið stórhættuleg,“ segir Sara og bætir við að mórall sögunnar sé að fólk eigi að fara til læknis ef það er veikt.

Færslu Söru má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

https://www.facebook.com/saraelisa/posts/10224662931417121

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni