fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Kári svarar Ole og kallar hann ringlaðan og aldraðan kaupsýslumann

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 14. september 2020 20:48

Samsett mynd DV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) svarar í Facebook-pistli í dag nokkuð ítarlega gagnrýni sem Ole Anton Bieltvedt, kaupsýslumaður og þekktur þjóðfélagsrýnir, hefur sett fram á Kára og ÍE í greinum á Vísir.is, fyrst í maímánuði og síðan aftur fyrir nokkrum dögum.

Inntak gagnrýni Ole er að Kári ýki stórlega kostnað ÍE af skimun fyrir kórónuveirunni og að skimunarstarfið og rannsóknir ÍE á kórónuveirunni séu drifin af hagnaðarsjónarmiðum.

Í pistli sínum tekur Kári fyrir nokkrar fullyrðingar Ole og svarar þeim. Kári fullyrðir að það kostaði einn milljarð á mánuði að reka ÍE en allt starfslið ÍE hafi verið bundið við skimunarstarfið í þrjá mánuði. Ole dregur þetta í efa og telur að kostnaðurinn hafi ekki verið nema 136 milljónir. Kári segir um þetta:

„Hjá ÍE vinna um 280 starfsmenn og voru í kringum 40 við vinnu í Vatnsmýrinni að greina sýnin og vinna úr gögnum og 40 að taka sýni í Turninum í Kópavogi. Aðrir voru sendir heim til þess að minnka líkur á því að þeir sem ynnu við skimunina sýktust. Það hefði ekki þurft nema einn að sýkjast til þess að við hefðum þurft að setja alla á staðnum í sóttkví. Þeir starfsmenn sem voru sendir heim gátu ekki sinnt vinnu sinni vegna þess að hún snýst að mestu um að vinna úr gögnum sem mega ekki vera aðgengileg á netinu vegna persónuverndar. Þar af leiðandi var skimunin það eina sem fyrirtækið sinnti í þessa þrjá mánuði og það kostaði einn milljarð á mánuði. Það er hins vegar rétt sem Ole gefur í skyn að þetta er óheyrilega há upphæð fyrir þessa vinnu en það er bara það sem það er og það var enginn annar kostur í stöðunni. Beinn kostnaður ÍE af vinnu við veiruna ef frá er dreginn kostnaður af því að loka fyrir aðra starfsemi er 872 milljónir króna.“

Um meint gróðasjónarmið segir Kári meðal annars:

„Beinn þáttur ÍE í þessu verkefni varð aldrei neinn og allt sem við höfum gert til þess að varpa ljósi á eðli veirunnar og faraldursins sem hún veldur hefur annað hvort verið birt í vísindatímariti eins hratt og auðið er eða verið deilt með öllum heiminum í gegnum alþjóðlega gagnabanka. Þetta var gert til þess að allir þeir sem eru að berjast gegn veirunni geti nýtt sér það ekki bara Amgen og íslenskt samfélag. Ef markmiðið hefði verið að auka líkur á því að Amgen gæti grætt peninga hefði verið eðlilegt að reyna að fela það sem við bárum umsvifalaust á torg út. Það er svo alröng ályktun hjá Ole að þessi starfsemi snúist mest um tekjur og gróða í formi fjár. Það sem við hjá Í.E. og Amgen höfum fengið fyrir þetta er fyrst og fremst sú tilfinning að við séum að gera eitthvað gott, að þjóna okkar samfélagi sem ef vel gengur væri samfélag manna um allan heim. Það er góð tilfinning og í henni felst mikill gróði sem vel má vera að skili sér að lokum í eitthvað sem hönd á festir. Hver veit? En eitt er víst að við erum þakklát fyrir að fá tækifæri til þess að leggja að mörkum.“

Ole heldur því fram í skrifum sínum að ÍE og samstarfsfyrirtækið Amgen virðist hafa hagsmuni af því að skimanir séu sem víðtækastar og hagsmunir þessara fyrirtækja og ferðaþjónustunnar virðist því ekki fara saman. Þessu svarar Kári svona:

„Ég viðurkenni að ÍE hefur staðið fyrir öflun meiri gagna um veiruna og faraldurinn en nokkur annar aðili í íslensku samfélagi og að öllum líkindum í öllum heiminum. Þessi gögn höfum við afhent sóttvarnaryfirvöldum og þau hafa notað þau ásamt öðru til þess að byggja á ráðleggingar til ríkisstjórnarinnar. Það er síðan ríkisstjórnin sem tekur ákvörðun um hvað gera skuli, ekki sóttvarnaryfirvöld og svo sannarlega ekki ÍE. Ég sem einstaklingur styð ríkisstjórnina í þessu máli og held að hún sé að gera rétt og sé með þessu að vernda heildarhagsmuni samfélagsins. Ég er líka á þeirri skoðun að það séu langtíma hagsmunir ferðaþjónstunar að við tökum á faraldrinum á þennan máta þótt honum fylgi töluverðar fórnir.“

Kári segir enn fremur:

„Ole klikkir svo út með þessu: „Þegar tjaldið lyftist, blasir leiksviðið við.“
Svar: Og á því miðju stendur aldraður alþjóðlegur kaupsýslumaður og stjórnmálarýnir og horfir í kringum sig, svolítið ringlaður en vel meinandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi