fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Segir að íslenskur leikhúsheimur hafi sniðgengið Gísla

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 1. ágúst 2020 09:27

Gísli Rúnar Jónsson. Mynd: Fréttablaðið/Gunnar V. Andrésson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér finnst tilveran tómleg án Gísla og ég harma að hann skyldi velja að kveðja okkur allt of snemma, bara 67 ára gamall, og mér finnst eins og hræðilegt slys hafi átt sér stað. Slys sem við öll og samfélagið berum nokkra ábyrgð á. Gísli glímdi við andleg veikindi allt lífið sem sennilega mögnuðust á stundum vegna þess hversu misskilinn hann var,“ segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og ritstjóri Kvennablaðsins, í minningarorðum um listamanninn þjóðkunna, Gísla Rúnar Jónsson, sem féll frá í vikunni.

Steinunn segir að Gísli hafi verið mjög kröfuharður leikhúsmaður, en með yfirburðahæfileika og þekkingu. Þetta hafi orðið til þess að hann hafi verið gerður hornreka úr íslensku leikhúsi:

„Gísli Rúnar var yfirburðamaður, vitrari, víðsýnni, stórfenglegri og öllum skemmtilegri, en ekkert þráði hann meira en að tilheyra og þjóna okkar samfélagi þar sem fáir komast með tærnar þar sem hann hafði hælana.  Fyrst og fremst þráði hann að njóta sannmælis. Sú ósk hans rættist því miður alltof sjaldan.

Miklu oftar hafnaði samfélagið þessum sérvitringi og ákafamanni sem hafði þó aldrei annan ásetning en þann að víkka sjóndeildarhringinn og gleðja okkur hin. Gísli gerði kröfur til fólks sem hann vann með innan leikhússins, miklar kröfur og hann hafði raunverulegt ofnæmi fyrir fúski.“

Steinunn segir að Gísli hafi verið sérlundaður og það hafi átt sinn þátt í jaðarsetningu hans innan leikhúsheimsins. Sumir leikhúsmenn hafi viljað nýta krafta hans sem leikstjóra en aðrir voru ekki á sama máli. Steinunn segir enn fremur:

„Það er því miður landlægur íslenskur plagsiður að úthýsa afburðarfólki. Það er þægilegra að hafa slíkt fólk utan sviðsins því þá eru þeir sem minna geta ekki sífellt minntir á, hvað þeir eiga langt í land. Á meðan valsa aðrir um listasviðið með óverðskuldaðar nafnbætur.“

Þrátt fyrir þetta hafi framlag Gísla til leiklistarinnar verið ómetanlegt í gegnum þýðingar og staðfæringar:

„En íslenskt leikhús gat samt ekki án hans verið, því honum var betur en öðrum gefið að þýða og staðfæra, mestan part gaman- og söngleiki og hafði hann af því atvinnu síðustu árin samhliða bókarskrifum sem geyma heimildir sem annars hefðu glatast. Ekki þarf að spyrja að því að hefði hans ekki notið við sem þýðanda og jafnvel enduryrkjanda hefði leikhúslistafólk haft úr talsvert minna að moða. Efnið hefði ekki orðið jafn aðgengilegt eða fallið jafn vel í kramið hjá íslenskum áhorfendum, sem hann þekkti betur en flestir. Hann fylgdist með líðandi stundu af brennandi áhuga, tungutaki og tíðaranda, og öll sú „aukavinna“ ástríðunnar sem fæstir bera skynbragð á skilaði sér í vinnu hans sem höfundur og þýðandi í leikhúsinu. Velgengni þeirra verka sem hann þýddi er ekki síst honum að þakka. Hann malaði gull – öðrum til handa.“

Náin vinátta var á milli Gísla og Steinunnar og lýsir hún honum sem einstökum afburðamanni og stórkostlegri persónu. Óhefðbundinn maður sem hafi gefið mikið af sér í samskiptum við aðra. Hún segir enn fremur um samband Gísla við sína nánustu ástvini:

„Gísli dáði fjölskylduna sína umfram allt, æskuástina Eddu mat hann mest og það áratugum eftir skilnað þeirra hjóna og oft stormasama sambúð. Vinátta þeirra og samvinna var ekki lík neinu öðru sem ég hef orðið vitni að. Sameiginleg afrek þeirra á listasviðinu þarf ekki að fjölyrða um en ástundun þeirra beggja við afkomendur sína og vini er einstök.

Gísli naut þess að sjá eldri soninn Björgvin Franz fara eigin leiðir og blómstra þrátt fyrir hafa eins og hann sjálfur mætt mótlæti innan leikhússins og slá svo eftirminnilega í gegn í sýningunni um Ellý Vilhjáms. Þar sýndi Björgvin Franz að hann eins og foreldrarnir hefur gáfur sem eru utan alfaraleiða.“ 

 

Minningarorð Steinunnar Ólínu um Gísla Rúnar Jónsson eru í heild sinni á Kvennablaðinu

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala