fbpx
Föstudagur 07.ágúst 2020
Fréttir

Íslensk stúlka sem aldrei hefur neytt vímuefna grunuð um fíkniefnamisferli og boðuð í yfirheyrslu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 2. júlí 2020 11:48

Mynd úr safni og tengist frétt ekki

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stúlka sem var að klára menntaskóla og hafði aldrei neytt fíkniefna fékk símtal frá lögreglu þar sem henni var tjáð að hún væri grunuð um fíkniefnamisferli og var hún boðuð í skýrslutöku vegna málsins. Stúlkan vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og fékk hún engar frekari skýringar á þessu í símtali við lögregluna. Hún þurfti að bíða í nokkra daga eftir skýrslutökunni og svaf hún ekki um nætur vegna málsins. Í skýrslutökunni kom í ljós að lögreglan hafði gert mistök og farið mannavillt en stúlkan heitir algengu nafni.

Þetta kemur fram í nýrri grein eftir lögmanninn Jóhannes S. Ólafsson á Vísir.is í dag. Greinin er innlegg í umræðu um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta en frumvarp Pírata þess efnis var fellt rétt fyrir þingflokk. Afglæpavæðing er hins vegar á dagskrá ríkisstjórnarinnar og stjórnarfrumvarp þess efnis er boðað á næsta þingi.

Jóhannes þekkir þessi mál sem lögmaður og segir að miklum fjármunum sé eytt í tilgangslausan bófahasar gagnvart ungu fólki sem fiktar við fíkniefni:

„Margir gera sér enga grein fyrir því hversu miklum fjármunum er sóað í tilgangslausan löggu- og bófaleik við ungt fólk. Allt án nokkurs árangurs. Ef við leggjum um stund til hliðar öll mannslífin og allar þjáningarnar sem fíknistríðið óneitanlega hefur í för með sér og horfum í staðinn blákalt einungis á peningahliðina, þá birtist okkur ófögur sjón. Peningar skipta máli og eyðsla á almannafé á að skipta okkur öll máli. Í störfum mínum sem lögmaður hef ég fengið ágætis innsýn í þetta mál og ætla í þessu sambandi að leyfa mér að taka eitt dæmi.“

Ástæðan fyrir því að umrædd stúlka blandaðist inn í þetta mál var að stúlka sem handtekin var með lítið magn fíkniefna sagði að stúlkan hefði átt fíkniefnin. Hún tilgreindi nafn hennar sem er algengt en átti við aðra stúlku. Um minniháttar fíkniefnamál er að ræða en Jóhannes rekur feril þess í greininni og segir kostnaðinn við það hafa verið óverjandi, eða nálægt einni milljón króna. Síðan segir hann:

„Framangreind saga er einungis eitt af fjölmörgum dæmum sem ég hef orðið vitni að í þessum málaflokki. Þessi mál hafa misboðið mér eins og ég vona að þér kæri lesandi sé nú misboðið. Frumvarpið um afglæpavæðingu hefði skrúfað algjörlega fyrir svona eltingarleik um smávægilega neysluskammta. Eltingaleik sem tekur upp stóran hluta af tíma lögreglunnar ár hvert. Tíma sem óneitanlega væri betur varið í annað.

Þegar meirihlutinn á Alþingi kaus gegn frumvarpinu um afglæpavæðingu vísuðu þingmenn meirihlutans m.a. til þess að það væru nú þegar voða litlar refsingar við neysluskömmtum og því skipti þetta litlu máli. Þetta er rangt að svo mörgu leyti. Eins og staðan er í dag eru neytendur sektaðir fyrir vörslu neysluskammta og það er refsing. Neytendur geta rofið skilorð finnist neysluskammtur á þeim. Þá verða þvingunaraðgerðir lögreglu eins og leit, húsleit, handtaka og líkamsrannsókn (sem ella væru ólögmætar) sjálfkrafa lögmætar við það eitt að neysluskammtur finnst á viðkomandi við aðgerðirnar.“

Ein af ástæðum þess sem þingmenn meirihlutans gáfu upp fyrir því að styðja ekki frumvarp Pírata um afglæpavæðingu var að ekki hefði verið haft nægilegt samráð við lögregluna. Jóhannes segir þetta alrangt því margsinnis hafi verið leitað álits lögreglu í málinu. Hann telur hins vegar að rangt sé að leita samráðs lögreglu í þessu máli þar sem hennar hlutverk sé að framfylgja banni um vörslu neysluskammta.

Í lok greinar sinnar segir Jóhannes:

„Öll efnisleg rök með stefnunni eru dauð. Erlendis hafa ríki eins og Portúgal og Sviss fyrir löngu vikið frá stefnunni með hreint ótrúlega góðum árangri. Fjöldi ríkja hafa lögleitt kannabis s.s. Bandaríkin (sum fylki), Kanada, Uruguay o.fl. Í hvert einasta skipti sem ríki fara í þessa átt er þróunin svipuð. Þegar reynsla kemst á breytingarnar hefur andstaða almennings og hinna íhaldssömustu stjórnmálamanna dvínað jafnt og þétt eftir lögleiðingu. Yfirleitt finnst nánast enginn sem vill fara til baka áratug síðar. Þá er búið að margsanna að stefnan virkar ekki og hefur ekkert nema hryllilegar afleiðingar í för með sér. Þeim mun harðari refsingar þeim mun meiri dauði, þjáningar og fjárhagslegt tjón fyrir samfélagið. Rökin með refsistefnunni sem eftir standa eru í þessum gæðaflokki: Lögreglan vill þetta ekki og við verðum að hlusta á þá. Eru lögregluþjónar á Íslandi annars ekki örugglega sérfræðingar í því hvort að refsistefnan sé góð eða slæm? Eru þeir ekki best fallnir til að meta hvort aðrar leiðir hafi í öðrum löndum virkað betur?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Umferðarslys í Grafarvogi – Tillitslaus hávaðaseggur

Umferðarslys í Grafarvogi – Tillitslaus hávaðaseggur
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Níð gegn menntamálaráðherra í Facebook-hóp um íslenska tungu ofbýður prófessor

Níð gegn menntamálaráðherra í Facebook-hóp um íslenska tungu ofbýður prófessor
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Við virðumst ekki vera með útbreitt smit í samfélaginu“

„Við virðumst ekki vera með útbreitt smit í samfélaginu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan á Austurlandi rannsakar furðulegan listaverkaþjófnað

Lögreglan á Austurlandi rannsakar furðulegan listaverkaþjófnað