fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Samfélagið á Hvammstanga í sóttkví: „Við erum auðvitað bara að reyna að halda viti“

Erla Dóra Magnúsdóttir, Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 29. mars 2020 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allir íbúar Húnaþings vestra sæta nú úrvinnslusóttkví sökum COVID-19 faraldursins. Um er að ræða tímabundna ráðstöfun á meðan unnið er að smitrakningu, en grunur leikur á víðtæku smiti í sveitarfélaginu. Úrvinnslusóttkví felur í sér sömu reglur og gilda um hefðbundna sóttkví, nema með þeirri undantekningu að einn af hverju heimili má fara út og ná í nauðsynjar, sem er ekki heimilt í hefðbundinni sóttkví. Þó má fara út að ganga, viðra gæludýr og börn og þess háttar. Þó ber að gæta almennra sóttvarnarreglan og halda tveggja metra fjarlægð við næsta mann. DV tók stöðuna á nokkrum íbúum Húnaþings og forvitnaðist um lífið í sóttkvínni.

Skylda að fara eftir reglum

Ólafur E Rúnarsson, söngvari, kennari og kórstjóri.

Ólafur E. Rúnarsson tónlistarkennari segir veruna í sóttkví skrítna og hlakkar mest til að hitta aftur nemendur sína, kollega og kórfélaga.

„Það er óneitanlega hálfskrítið að vera fastur heima og geta ekki sinnt störfum sínum, en það er skylda okkar að fara eftir reglum sem settar eru af stjórnendum sveitarfélagsins. Ég hef verið að dunda mér í eldhúsinu, bæði að elda úr frystinum og síðan að baka brauð og prófa eitthvað nýtt í eldhúsfræðunum. Andinn er ágætur, allir taka þessu með æðruleysi og sérstaklega þegar tölur yfir smitaða lækka dag frá degi, þá vonandi lyftist brún okkar. Eftir svakalegan vetur með óveðrum, rafmagnsleysi og snjóþyngslum er skrítið að vera fastur inni í birtu og sól, svona inni á milli.“

Hvers hlakkarðu til þegar sóttkvíin er yfirstaðin?

„Mesta tilhlökkunin er að hitta nemendur sína, samkennara og kórana aftur.“

Einstök samheldni í samfélaginu

Eydís ásamt dóttur sinni.

„Þetta er nú ekkert það skemmtilegasta sem ég hef gert, en maður skilur alveg ástæðurnar fyrir því og gott að þetta var tekið svona föstum tökum strax. Þetta er allt samt frekar súrrealískt,“ segir Eydís Ósk Indriðadóttir. Hún segist hins vegar hafa nóg fyrir stafni heima fyrir.

„Ég er í masternámi þannig að ég hef nóg að gera í náminu og eins dóttir mín, sem er í 8. bekk, hún hefur nóg að gera í lærdómi. Annars erum við duglegar að fara út að ganga, og lesa, horfa á þætti og spjalla saman, allt samt með um tvo metra á milli okkar. Maðurinn minn fer í fjárhúsin tvisvar á dag, en annars erum við öll hvert á sínum staðnum í húsinu en köllum, hringjum eða sendum skilaboð á milli til að spjalla.“

Eydís segir að þrátt fyrir allt sé stemmingin í Húnaþingi góð.

„Andinn er ótrúlega góður miðað við aðstæður. Það er alveg einstök samheldni í þessu samfélagi og ef eitthvað bjátar á eru allir tilbúnir að aðstoða. Fólk er auðvitað orðið þreytt á þessum vetri sem er búinn að vera rosalegur; hamfaraveður, langtímarafmagnsleysi og núna víðtækt kórónuveirusmit, en samt standa allir saman og eru tilbúnir að berjast við allt mótlæti.“

Og eftir að sóttkvínni er aflétt er ýmislegt að hlakka til. Það stendur ekki á svörunum þegar að Eydís er spurð hvers hún hlakki mest til.

„Að geta knúsað fjölskylduna mína og vini og hitta krakkana mína í skólanum.“

En hefur eitthvað komið á óvart við það að vera í sóttkví?

„Það er þá helst það hvað það er rosalega erfitt að þurfa að vera kyrr heima. Mig hefur aldrei langað jafn mikið í heimsóknir og núna, er vanalega að tuða yfir því að geta aldrei verið BARA heima, en nú langar mig bara allt annað en að vera heima.“

Áfall þegar hún greindist

Þórey Edda Elísdóttir, Ólympíufari og Íslandsmethafi í stangarstökki, hefur fundið fyrir gífurlegri þreytu og fékk smá áfall þegar hún greindist með COVID-19.

Þórey segir í samtali við DV að hún reyni að láta tímann líða með reglulegri hvíld, en bæði hún og eiginmaður hennar eru smituð og finna fyrir smávægilegum einkennum. Þegar Þórey er spurð hvort hún verði vör við marga íbúa á Hvammstanga sem stunda göngutúra svarar hún játandi.

„Við reynum auðvitað bara öll að gera það sem við megum,“ segir Þórey. „Sem betur fer finnum við ekki fyrir þessum verri einkennum sem leggjast yfir suma. VIð hjónin finnum aðallega fyrir orkuleysi og höfuðverk.“

Þórey Edda Elísdóttir.

Hjón í sóttkví

Ingibjörg og Sigurður.

„Við erum auðvitað bara að reyna að halda viti. Það þýðir ekkert annað,“ segir Ingibjörg Pálsdóttir, en hún og eiginmaður hennar, Sigurður H. Eiríksson, – bæði á níræðisaldri – eru í einangrun en einkennalaus.

„Þetta er eiginlega skondið samfélag, því ef einhver fer út að ganga, þá er hann bara einn og vinkar þeim sem hann sér og talar ekki við einn eða neinn.“

Þá segir Ingibjörg að þau hjónin séu dugleg að þiggja hjálp frá syni sínum, hvað búðarferðir varðar og annað slíkt. Ingibjörg segist ekki mikið fara út fyrir dyr nema til að moka snjó.

„Ég held að þetta sé verst hjá heilsugæslufólkinu okkar, því þar er svo fámennt. Annar læknirinn var á skíðum úti í Svíþjóð og hinn var svo óheppinn að lenda í sóttkví. Þá komu afleysingalæknar, en kona annars þeirra lenti líka í sóttkví og svipað átti sér stað hjá tveimur hjúkrunarfræðingum. Þá er dálítið mikið að gera hjá því fólki sem eftir stendur.“

Starfsmenn vinna heima

Samheldni og baráttuandi Íbúar Hvammstanga láta COVID-19 ekki brjóta sig niður.

Opinber þjónusta sleppur ekki við áhrif COVID-19 faraldursins. Fæðingarorlofssjóður er með þjónustuskrifstofu á Hvammstanga. Henni hefur verið lokað tímabundið og eru flestir starfsmenn sjóðsins vinnandi heima. Í tilkynningu á vefsíðu sjóðsins segir:

„Í þeirri viðleitni að tryggja sem best starfsemi Fæðingarorlofssjóðs, s.s. símsvörun, vinnslu umsókna og greiðslur til foreldra, meðan COVID-19 faraldurinn varir hefur verið ákveðið að meginþorri starfsmanna sjóðsins vinni að heiman.

Með þessum hætti er vonast til þess að velferð starfsmanna sjóðsins verði betur tryggð sem er forsenda þess að hægt verði að halda uppi góðri þjónustu við verðandi foreldra og foreldra í fæðingarorlofi.

Þó mega foreldrar búast við örlítið lengri afgreiðslutíma en vanalega og jafnvel óvæntum hljóðum frá börnum eða gæludýrum starfsmanna í bakgrunni símtala.

Við færum foreldrum kærar þakkir fyrir þolinmæði og skilning.“

Það er ekki hægt að segja annað en fólk taki þessu af æðruleysi“

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, segir að úrvinnslusóttkvíin sé sambærileg hefðbundinni sóttkví, utan þess að einn af hverju heimili má sækja nauðsynjar fyrir heimilið. Íbúar samfélagsins fina sér þó ýmsilegt til dundurs.

Fólk sinnir störfum sínum eftir bestu getu, sumir heiman frá aðrir t.d. einyrkjar og bændur geta farið til vinnu. Sveitarfélagið leggur mikla áherslu á að sinna þeirri þjónustu sem ekki má rofna.  Skólahald er með óhefðbundnum hætti þar sem allur skólinn er í sóttkví. Kennsla fer því fram á netinu og hefur gengið ákaflega vel. Leikskólinn er opinn fyrir forgangshópa s.s. starfsmenn heilbrigðisstofnunar, matvöruverslunarinnar og fl. Allir fundir eru haldnir á netinu og jafnvel skemmtistundir eiga sér sinn stað þar.  Krakkarnir halda bekkjafjarfundi  og hafa mikil samskipti gegnum samfélagsmiðla.

Við höfum líka séð hvað íbúar Húnaþings vestra eru hugmyndaríkir og fjölmargt skapandi fer fram á samfélagsmiðlum. Sem dæmi situr myndlistakennarinn í skólanum heima og teiknar myndir sem hægt er að lita og er komin í samstarf við bókasafnið sem kallar eftir lituðum myndum frá íbúum sem tengjast ástandinu og samfélaginu og verða sýndar þegar hægt verður að opna bókasafnið aftur. Tónlistin blómstrar á netinu og sjáum við félaga spila „saman“ á sitt hvorum staðnum, hljóðblanda og deila á netinu fyrir okkur hin til að njóta.  Skáldin koma fram á facebook og kveðast á. Svo hefur verið bjart og gott veður síðustu daga og margir fara út til að hreifa sig en gæta þess vel að fylgja reglum sóttvarnalæknis varðandi fjarlægð og segja má að fólk forðist hvort annað þessa dagana.“

Hún segir íbúa taka ástandinu af æðruleysi.

Veturinn hefur verið okkur erfiður hér í Húnaþingi vestra  en það er ekki hægt að segja annað en fólk taki þessu af æðruleysi. Íbúarnir fara eftir þeim tilmælum sem okkur eru sett í úrvinnslusóttkvínni, því er hægt að segja að hér „hlýði allir Víði“.  En auðvitað tekur á að vera í úrvinnslusóttkvínni og íbúum er farið að lengja eftir að henni verði aflétt..  Þegar það verður getur fólk, sem ekki er í sóttkví eða einangrun, farið í heimsóknir, farið út úr sveitarfélagin og margir geta farið aftur til vinnu. Það léttir mikið á okkur þegar hún verður felld niður.“

Eftir að sóttkvíin verður felld niður hlakkar Ragnheiði til að sjá lífið færast nær eðlilegu horfi.

Að sjá lífið færast nær því sem eðlilegt getur talist. Vorið er á næsta leiti og eftir erfiðan vetur hér í Húnaþingi vestra bíða fjölmörg verkefni úrlausnar og ný taka við.  Það styttist í sauðburð sem er einn skemmtilegasti tíminn í sveitinni og það verður líka gott geta heimsótt sína nánustu.“

Kom eitthvað á óvart við það að vera í úrvinnslusóttkví ? 

Í raun ekki því strax í upphafi var ljóst hvað fælist í því að vera í úrvinnslusóttkví.  Íbúar hafa lagt sig fram að fylgja þeim leiðbeiningum sem við fengum en ugglaust kemur þetta misjafnlega við fólk.  En mér sýnist á öllu að fólk reyni að halda í gleðina sem sem finnur sér alltaf farveg sem mikilvægt á tímum sem þessum. Í því samhengi ganga nú vísur á milli manna og þegar slagorðið „hlýðum Víði“ fór að ganga þá gripu menn það á lofti og tengdu það Húnaþingi vestra.

Inn í landans orrahríð,
við ykkar minni tengi.
Í Vestur Hún er „Víðihlíð“
og verið þarna lengi.“

 

Greinin birtist í helgarblaði DV en frá útgáfu blaðsins hefur úrvinnslusóttkví í Húnaþingi verið aflétt

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“