fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

„Við erum vanmáttug“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir, Auður Ösp
Þriðjudaginn 24. mars 2020 17:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimsfaraldurinn COVID-19 hefur breiðst út um nær allan heim og haft áhrif á líf hundruð milljóna manna. Landamærum hefur verið lokað hverjum á fætur á öðrum og grunnþjónusta hefur skerst gríðarlega. DV tók nokkra Íslendinga í útlöndum tali, allt frá Hong Kong til Grænlands, og athugaði hvaða áhrif faraldurinn hefur haft á þeirra nærumhverfi.

Rekin heim úr sumarbústöðum

„Það er rosalega skrýtið ástand og stemning hér í Noregi, en frá og með síðasta föstudegi má segja að samfélagið hafi hægt og bítandi byrjað að lamast,“ segir fjölmiðlakonan og bóndinn Erla Gunnarsdóttir. Erla er búsett í smábænum Ålvik í Noregi, um hundrað kílómetra fjarlægð frá Bergen. Hún segir algjört samkomubann ríkja í landinu.

Erla Gunnarsdóttir.

„Tilkynning kom um lokun á skólum og leikskólum frá og með mánudeginum næstu tvær vikurnar og í kjölfarið var fleirum skylt að loka, eins og til dæmis tannlækna- og hárgreiðslustofum, ásamt því að algjört samkomubann var sett á. Við höfum sennilega sjaldan fylgst jafn vel með fréttum en það má segja að á hverjum klukkutíma komi eitthvað nýtt fram. Nú er fyrsti dagur barnanna með heimaskóla, sem hefur gengið nokkuð vel og sjálf er ég í sóttkví þar sem ég var í Danmörku fyrir tæpum tveimur vikum. Langflestir sem geta, vinna heima og tekur fólk ástandinu með jafnaðargeði og líkt og heima er fólk ábyrgt þegar kemur að samfélaginu og því að við séum í rauninni öll almannavarnir. Í gær [16. mars] hélt Erna Solberg blaðamannafund fyrir börn, sem mér fannst mjög vel gert en upplýsingagjöf hefur verið mjög góð í gegnum fjölmiðla og halda stjórnvöld reglulega blaðamannafundi,“ segir Erla. Líkt og hér á landi ríkir óvissa um afdrif ýmissa fyrirtækja mitt í COVID-19 faraldrinum.
„Miklar áhyggjur eru af efnahagslífinu hér í landi og ljóst að nú þegar eiga mörg fyrirtæki í erfiðleikum eins og til dæmis flugfélagið Norwegian sem rambar á barmi gjaldþrots og stóru hótelkeðjurnar hafa sagt upp þúsundum starfsmanna. Stjórnvöld hafa kynnt ákveðna aðgerðarpakka til að koma til móts við fyrirtæki, sem felst í frestun á greiðslu gjalda og í fyrradag var tilkynnt að 100 milljarðar norskra króna verði notaðir í björgunaraðgerðunum. Landamæraeftirlit hefur verið hert til muna og nýjustu fréttir herma að yfirvöld í Norður-Noregi sendi alla í 14 daga sóttkví sem þangað koma frá öðrum stöðum í Noregi.“ Erla bætir við að andrúmsloftið sé vissulega spennuþrungið. „Sum sveitarfélög eru að loka „landamærum“ sínum og mælt er með að fólk haldi sig innan síns sveitarfélags. Einnig er fólk beðið um að vera ekki í sumarbústöðum sínum og á sumum stöðum hefur herinn verið kallaður út til að reka fólk heim úr bústöðum.“

Hiti mældur alls staðar

Parið Ásgeir Helgi Magnússon og Garðar Þór Jónsson ákvað að fara í heimsreisu í byrjun árs. Þeir unnu báðir hjá WOW air þegar flugfélagið féll; Ásgeir sem flugmaður og Garðar á skrifstofunni. Þeir hafa fengist við aðra hluti frá gjaldþroti flugfélagsins en fannst tilvalið að hefja nýtt ár á heimsreisu. Reisan hefur hins vegar tekið mörgum skipulagsbreytingum í skugga COVID-19.

Ásgeir til vinstri og Garðar til hægri.

„Við höfum verið að ferðast síðan um miðjan janúar. Við vorum fyrst í tvær vikur í Kaliforníu, síðan í viku á Havaí. Fórum þá til Ástralíu og þaðan til Indónesíu. Þá hófst Suðaustur-Asíu hlutinn af reisunni,“ segir Ásgeir. Þeir Garðar komu til Balí þann 17. febrúar. „Þá fyrst vorum við farnir að heyra meira talað um COVID-19. Við vorum mjög hissa þegar við lentum á Balí því það var enginn sérstakur viðbúnaður á flugvellinum. Eina sem við þurftum að gera var að fylla út eitt blað þar sem við sögðumst vera hraustir. Við vorum í tvær vikur á Balí og urðum í raun ekki varir við margt. Eins og hefur komið fram í fréttum undanfarið þá fannst okkur líka eins og indónesísk yfirvöld væru ekki að segja frá öllu sem væri að gerast. Við tókum strax eftir því þegar við komum að það var lítið um ferðamenn og engir Kínverjar þar sem búið var að loka á farþega frá Kína. Kínverjar eru stærsti hópurinn sem heimsækir Balí og hafa allir ferðaþjónustuaðilar virkilega fundið fyrir því.“
Frá Balí ákváðu þeir Ásgeir og Garðar að fara á Komodo-eyjuna, sem er hluti af eyjaklasa sem tilheyrir Indónesíu. Þeir voru búnir að bóka skoðunarferð um eyjuna og nærliggjandi eyjur, en á flugvellinum tilkynnti ferðaþjónustuaðilinn þeim að þeir væru þeir tveir einu sem bókaðir væru í ferðina og því væri hætt við hana. Eftir smá vangaveltur létu þeir slag standa, flugu til eyjunnar og gistu þar í fjórar nætur. Þaðan lá leiðin til Singapúr.
„Þar var sérstaklega skrýtið að koma á einn af stærstu flugvöllum í heiminum og við gengum um hann einir. Sjúklega súrrealískt. Um leið og við komum út úr flugvélinni var líkamshiti okkar mældur og einnig þegar við tékkuðum okkur inn á hótelið, fórum í verslunarmiðstöðvar, bara alls staðar,“ segir Ásgeir. Upp frá því að þeir komu til Singapúr lokaðist meðal annars Ástralía og Filippseyjar, en síðarnefnda landið átti að vera næsti áfangastaður þeirra. Þá þurftu þeir að breyta ferðaplönum og tóku rútu til Kúala Lúmpúr. Þeir reyna nú að komast til Taílands þar sem Malasía hefur lokað sínum landamærum. „Þessi máltíð í kvöld [17. mars] var sem sagt síðasta máltíðin á veitingastað því öllum börum og veitingastöðum verður lokað á morgun,“ segir Ásgeir. „Í dag var krísufundur hjá okkur og við ætlum að reyna að fara til Taílands þar sem er ekki búið að loka,“ segir Ásgeir, en þeir Garðar eru furðu hressir þrátt fyrir þessar vendingar. „Lokanir virðast elta okkur,“ segir hann og hlær. „Við viljum samt meina að við höfum ekkert með þetta að gera. Þetta er auðvitað háalvarlegt ástand og ég held að við reynum að halda í gleðina eins lengi og við getum,“ segir Ásgeir og bætir við að fjölskyldan á Íslandi sé ekki í rónni með þetta allt saman. „Mamma segir alveg: Komið heim núna. Það er bara þannig.“

Dauðans alvara

„Kórónavírusinn hefur sett heiminn á annan endann og Bandaríkjamenn fara ekki varhluta af því,“ segir kvikmynda- og sjónvarpsframleiðandinn Margrét  Hrafnsdóttir. Margrét býr ásamt eiginmanni sínum, Jóni Óttari Ragnarssyni, í Palm Desert í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hún segir heimsfaraldurinn hafa haft víðtæk áhrif í Bandaríkjunum, sem og annars staðar í heiminum.

Margrét Hrafnsdóttir.

„Hver vika síðan vírusinn braust út hefur fært meira af vondum fréttum og breytingum á daglegum lífsháttum fólks enda vírusinn dauðans alvara. Nú hefur veitingastöðum, heilsuræktarstöðvum, klúbbum og börum verið lokað en skólum var lokað í síðustu viku. Það er hægt að fá heimsendan mat eða sækja og matvöruverslunum er nú lokað nú fyrr svo starfsfólk geti fyllt þær eftir hvern dag. Yfirvöld hamra á því að það sé ekki hætta á fæðuskorti og búðir séu fylltar daglega, en það dugir ekki til og það hverfur flest úr hillunum á nokkrum klukkutímum! Þeir segja þetta vera orðið á við tvöfalda jólavertíð!“
Þá segir Margrét að Bandaríkjamenn taki ástandinu með stóískri ró. „Ameríkanar og Kaliforníubúar taka þessu að mestu leyti með stillingu og auðmýkt eins og maður upplifir fólk gera alls staðar annars staðar. Við erum vanmáttug gagnvart slíkri ógn sem varla sést, því veiran er svo smá að hún varla sést í venjulegri smásjá. Lífið hér í eyðimörkinni er eflaust þægilegra en víða því hér er sól og gott veður og nóg pláss eins og á Íslandi. Það fer vel um okkur, en það er á svona tímum sem það er erfitt að vera fjarri fjölskyldunni. Það eru auðvitað margir óttaslegnir og óvissan í kringum þetta er mikil, en það birtir upp með vorinu og þetta mun ganga yfir og flestir lifa þetta af sem er mikilvægast. En við getum öll með sanni sagt að við lifum á sögulegum tímum.“

Föst heima

Guðlaug Ólöf Sigfúsdóttir, Lauga, er búsett á eyjunni Bahrain í Persaflóa ásamt eiginmanni sínum, Mikael Lykkegaard Laursen, og tveimur börnum þeirra, Þóru Snædísi, 22 ára, og Sebastian, sem er 10 ára. Þar í landi hafa hátt í 250 COVID-19 smit  verið staðfest og tilkynnt hefur verið um eitt dauðsfall vegna veirunnar. Samkomubann hefur tekið gildi í landinu og þurfa staðir að tryggja að ekki séu á sama tíma fleiri en 20 manns inni í sama rými. Að sögn Laugu eru veitingastaðir, líkamsræktarstöðvar og kvikmyndahús lokuð. Matvöruverslanir eru opnar en aðeins 20 manns fá að vera þar inni í einu.

Guðlaug Ólöf.

Lauga segir íbúa Bahrain almennt fara varlega þessa dagana. „Það er pínu ótti á meðal fólks, þá aðallega á meðal þeirra sem búa  í fjölbýlishúsum. Þetta hefur haft þónokkur áhrif. Mörgum flugferðum hefur verið aflýst, til dæmis frá Dúbaí, Kúveit og Sádi-Arabíu, og brúin á milli er einnig lokuð svo það kemst enginn til eða frá Bahrain,“ segir Lauga. „Margir af vinum okkar sem vinna í Sádi-Arabíu eru núna fastir þar. Það er heldur ekkert flogið til Íran. Verslunarmiðstöðvarnar eru meira og minna tómar alla daga og svo hefur skólahald legið niðri í þrjár vikur.“

Eiginmaður Laugu er flugstjóri hjá DHL, flugfélagi sem sér um fraktflutninga. COVID-19 faraldurinn hefur því ekki haft áhrif á hans störf. Á meðan grunnskólar í landinu eru lokaðir er nemendum boðið upp á fjarkennslu í gegnum netið „Við höfum því verið föst heima og það hefur svo sannarlega reynt á þolinmæðina. En annars þá  reynum við bara að halda okkur frá fjölförnum stöðum og stórum samkomum.“

Margir enn á vantrúarstiginu

„Þetta fór síðar af stað hér en á Íslandi. Hér er fólk beðið um að vera ekkert að teppa hjálparlínur eða heilsugæslustöðvar nema það fái alvarleg einkenni, NHS er ekkert að halda utan um hversu mörg séu í sjálfskipaðri sóttkví eða taka sýni hjá meðaljóninum,“ segir Ingibjörg Rósa Björnsdóttir uppistandari sem er búsett í Edinborg.

„Fólk er beðið um að einangra sig í 14 daga ef það telur hættu á að það hafi smitast. Eins eru þau sem eru viðkvæm fyrir beðin um að halda sig heima ef þau mögulega geta. Svo eru náttúrulega handsápur og handspritt alls staðar uppseld og óvenju lítið til af klósettpappír í búðum, öll fyrirtæki með handspritt uppi á borðum og tilmæli til allra að sýna varkárni. Í þessum töluðu orðum er 171 smit staðfest í Skotlandi og eitt dauðsfall, en enn sem komið er eru fleiri sýkt í Glasgow en í Edinborg. Þótt ekki sé búið að setja bann er samt verið að aflýsa viðburðum hægri vinstri. Til dæmis átti uppistandshátíð að hefjast í Glasgow um síðustu helgi og ég held að öllum sýningum hafi verið aflýst af hverjum og einum skemmtikrafti eða stöðunum sem ætluðu að hýsa sýningarnar.“

Ingibjörg Rósa

Ingibjörg segist skynja að margir íbúar borgarinnar séu hreinlega enn á vantrúastiginu. „Þau eru hreinlega ekki alveg að kaupa það að svona stórtækar aðgerðir þurfi til. Ég þekki líka óvenju marga uppistandara hér sem eru farnir að svitna yfir tekjumissi um óákveðinn tíma, enda gengur starf þeirra út á samkomur fólks. Svo það er helst þannig kvíði og pirringur sem er í fólki. Skotar eru annars ekki þannig að þeir æsi sig mikið eða séu fljótir að verða taugaveiklaðir, eiginlega eru þeir kannski heldur kærulausir í svona aðstæðum og finnst óþarfi að gera mikið mál úr hlutunum.“

Ingibjörg lauk krabbameinsmeðferð fyrir stuttu og er því talin vera í viðkvæmum hópi. „Ég hef reynt að fara varlega í margar vikur, ég hef eiginlega verið sýklahrædd frá því að ég byrjaði í meðferðinni. Ég er akkúrat í sjálfskipaðri einangrun og með kvefpest, sem gæti vissulega verið væg COVID-19 veiki. Ég bý hérna hjá Bylgju Babýlons uppistandara og hún kom heim af uppistandshátíð í Hollandi fyrir rúmri viku. Örfáum dögum síðar breiddist vírusinn út þar svo heimilislæknirinn ráðlagði henni og öðru heimilisfólki að loka sig af í sjö daga. Við fengum báðar smávegis hita og beinverki um helgina, en nú er hún að hressast á meðan ég tek hóstaköst við og við.“

Hún segir þær stöllur hafa það hreint ágætt í stofufangelsinu: „Við erum ekkert illa haldnar, höfum nóg að bíta og brenna og erum slakar, en tökum ástandinu auðvitað alvarlega.“

Faraldurinn ýtir undir framkvæmdagleði

„Það er mikil spenna, en fólk reynir að fela hræðsluna fyrir öðrum og varast að láta aðra finna fyrir henni. Öðrum finnst eins og það sé gert allt of mikið mál úr þessu,“ segir Eva Óskarsdóttir, leikkona og framleiðandi, sem búsett er í Breitenfurt bei Wien í Austurríki ásamt þarlendum eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra.

„Það er komið útgöngubann og ef þú tilheyrir ekki þeim hópi sem má fara út og keyra í vinnuna gætirðu þurft að greiða allt að 3.500 evrur í sekt,“ segir Eva. Fjölskyldan á hund sem þarf sína útiveru og hreyfingu og þess vegna fara þau reglulega í göngutúra. „Og við reynum þá öll að forðast að koma of nálægt hvert öðru. Nú eru bæði börnin mín heima því skólum þeirra var lokað, en mér þykir þetta vera frábært tækifæri til að breyta gömlu skólakerfi sem undirbýr börnin okkar ekkert fyrir framtíðina,“ segir Eva og bendir á að skólalokanir hafi þrýst á að kennarar tækju upp nútímalegri hætti en áður, til að mynda með því að senda nemendum heimaverkefni dagsins í tölvupósti. Það sé jákvæð þróun.

Eva Óskarsdóttir.

„Ég hef ekki áhyggjur af þeim sem eru yngri en 70 ára og með fulla heilsu, en ég er skíthrædd við að missa til dæmis ömmu mína og afa sem búa á Íslandi og eru mér allt. Enda er ég  búin að biðja þau að vera ekki að hitta of marga og halda sig inni ef þau geta.“

Eva er sjálf æðrulaus gagnvart ástandinu sem hefur skapast.

„Það þurfti að hætta við námskeið sem ég átti að halda, og það þurfti líka að blása af upptökur á kvikmynd, en ég veit að þetta mun allt reddast,“ segir hún og bætir við að ástandið þessa dagana hafi í raun haft jákvæð áhrif á hana persónulega. Hún sé afkastameiri en áður og framkvæmdagleðin sé í hámarki „Ég er til dæmis búin að stofna kvikmyndaframleiðslufyrirtæki með tveimur öðrum og fyrsta stuttmynd okkar er nú þegar í gangi. Svo er ég að vinna í„ preproduction“ fyrir heimildaþátt sem verður tekinn upp á Íslandi, vonandi núna í ár. En auðvitað verðum við að sjá hvernig þetta með COVID-19 þróast.“

Eva nálgast hlutina af jákvæðni og bendir á að ástandið í heiminum þessa dagana geti fengið fólk til að staldra við og leita aðeins inn á við. „Fyrir marga var það orðið nauðsynlegt að fá frí og hægja aðeins á lífinu. Ég vona að við stöndum öll saman og séum ekki of mikið á ferð og flugi ef það er ekki nauðsynlegt. Og komum þannig í veg fyrir að fleiri veikist.“

Evrópa var lengur að taka við sér

„Ég hef haft möguleika á að fylgjast með því í Sjanghaí, Suður-Kóreu og Noregi en ég of farið í gegnum flughafnir í Þýskalandi og Danmörku og það  er ótrúlegt að sjá hvað munurinn er mikill á öllum þessum löndum,“ segir Kjartan Pétur Sigurðsson sem hefur verið búsettur í Sjanghaí frá árinu 2009, ásamt þarlendri eiginkonu sinni og sjö ára dóttur þeirra. Hann er um þessar mundir fastur í Noregi í tveggja vikna einangrun.

Fjölskyldan fór fyrir nokkrum vikum í skíðaferð til Suður-Kóreu. Þetta var áður en faraldurinn hafði breiðst út um allan heim. „Þar var tekið á móti okkur og við mæld og þurftum að auki að fylla út skýrslur með nákvæmum upplýsingum um hvert verið væri að fara, koma og hvað gert og hvort einhver heilbrigðisvandamál hefðu gert vart við sig síðustu vikur.

Kjartan ferðast reglulega með ferju yfir ána sem skiptir Sjanghaí í tvennt Á myndinni er verið að úða sótthreinsandi efnum yfir sætin.

Á skíðahótelinu vorum við nánast í einangrun líka og ef farið var út þá var maður alltaf með hanska, gleraugu og grímu og sprittbrúsar úti um allt. Hótelstarfsmenn voru allir með grímur og hanska) og þrifu lyftur og alla snertifleti reglulega.  Í Seúl voru allir komnir með grímur og fólk þegar farið að hamstra þær. Einnig var hægt að fá gefins grímur á lestarstöðvum, en starfsmenn voru hvergi sjáanlegir. Við fórum með nánast tómri flugvél til baka til Sjanghaí og þar var nánast allt tómt á flugvellinum. Þar tók við önnur skýrslutaka.“

Hann segir faraldurinn ekki hafa haft mikil áhrif á hann persónulega.

„Ég vinn mikið heima við vöruþróun og fleira á ferðavélar, þannig að það er ekki mikil breyting hjá mér persónulega. Það eru miklar sviptingar hjá fólki í kringum mig. Skóla dóttur minnar var lokað og núna vinnur hún öll verkefni í fjartengingu og óhætt að segja að það sé töluvert aukið álag á foreldra. Konan mín var að vinna síðast hjá WeWork og var hönnunardeild hennar lögð niður hjá fyrirtækinu. Hún er núna á launum í einhverja mánuði og nýtir tímann vel til að taka mjög erfið arkitektapróf sem má taka 7 ár að ná. Afi og amma mega ekki að koma í heimsókn lengur. Við erum með nokkrar íbúðir í útleigu meðal annars á AirBnB í Sjanghaí og hefur sá rekstur gengið bærilega enn sem komið er.

Við vorum með heimahjálp, sem eldar og tekur til, og hún má ekki lengur koma inn á svæðið, en öllum utanaðkomandi er bannað að koma þar sem við búum. Þannig er það líka víða í Kína og mun strangara sums staðar. Við höfum því alfarið séð um alla eldamennsku, þrif og þvott heima og á íbúðunum okkar. Þar er allt sótthreinsað reglulega með klór, og rúmföt straujuð með gufu með meiru. Við erum líka með UV-C ljós sem býr til Ozone (O3) sem drepur alla gerla líka. Segja má að fjölskyldan sé búin að lifa í algjörri einangrun og verður það að teljast mikil tilbreyting frá því sem áður var, börn fá ekki einu sinni að leika sér saman úti. Ef maður þarf að fara út, til dæmis út í búð, þá er notuð gríma og hanskar í hvert einasta skipti, og svo er þvegið á eftir.“

 

Kýs frekar einangrun í sólinni

„Götunar voru áður fullar af lífi og ávallt eitthvert fólk á ferð. Núna eru allir heima hjá sér og fólk fer ekki út úr húsi nema nauðsynlegt sé. Fólk forðast hvert annað eins og heitan eldinn. Í búðum eru allir með grímur og hanska og passa bilið á milli sín alveg rosalega vel,“ segir Sól Ragnarsdóttir sem starfar sem au pair í Dueville, 13 þúsund manna smábæ á Norður-Ítalíu. Bærinn er í Vicenza-héraði þar sem hlutfall smitaðra er enn sem komið er nokkuð lágt, miðað við aðra landshluta á Ítalíu. Bærinn er þó ekki undanskilinn samkomubanni en að sögn Sólar er búið að loka öllum helstu stöðum, svo sem líkamsræktarstöðvum, veitingastöðum, börum og söfnum.

Sól Ragnarsdóttir.

Sól hefur eins og aðrir þurft að halda sig heima í rúma viku og mun halda því áfram í rúmlega tvær vikur í viðbót. Kærasti hennar býr í öðru fylki þar sem útgöngubann tók fyrr gildi. „Það er allt lokað og það má bara ein manneskja úr hverri fjölskyldu fara í búðina eða í apótek. Rétt í þessu heyrði ég lögregluna keyra um og skipa fólki sem var úti að fara heim til sín. Reglunar verða sífellt strangari.“

Hún segir andrúmsloftið í bænum vera afar þungt. Ástandið sé erfitt fyrir barnafjölskyldur sem hafa ekki lengur fasta, daglega rútínu. „Þetta er virkilega stressandi því krakkarnir fá auðvitað mikla heimavinnu, en þeir fá ekki að fara og stunda íþróttir eða leika við vini sína,“ segir Sól og bætir við að blessunarlega séu börnin sem hún gætir nálægt hvert öðru í aldri. Þau geti því „böggast“ hvert í öðru.

Sól viðurkennir að hafa tekið fréttum af veirunni af ákveðinni léttúð fyrst um sinn, en það hafi breyst eftir því sem ástandið fór versnandi með degi hverjum. „Ég fæ síðan reglulega spurningar um ástand mitt hér og ég byrjaði þess vegna að „öppdeita“ fjölskyldu og vini á Facebook reglulega. Þetta tekur svo sannarlega á taugarnar, ég ætla ekkert að ljúga um það. Mamma spurði mig í byrjun hvort ég vildi ekki bara koma heim, en ég tók þá ákvörðun að vera hér á Ítalíu og koma ekki heim. Ég vil frekar vera í einangrun og sleikja sólina en að vera í einangrun heima í kuldanum. Annars geri ég mitt besta í að vera bjartsýn. Ég er örugg og allir í minni fjölskyldu hér, svo fyrir það er ég ánægð.“

Margir á heimleið

„Fólk er frekar rólegt hérna, götur eru ennþá fullar af fólki. Ég hef ekki heyrt um að fólk sé að birgja sig upp af klósettpappír eins og virðist vera í öðrum löndum, en ég hef heyrt að „coffee shops“ hafi opnað fyrir „take away“ svo að fólk geti birgt sig upp af kannabis!“ segir Harpa Eir Þorleifsdóttir, sem er í skiptinámi í viðskiptafræði við Erasmus University of Rotterdam í Hollandi.

Harpa Eir Þorleifsdóttir

„Fyrsta tilfellið af COVID-19 gerði vart við sig 27. febrúar og hefur vírusinn breiðst mjög hratt út síðan. Það hefur verið sett á samkomubann og skólum, söfnum, veitingastöðum, kaffihúsum og íþróttamiðstöðvum var nýlega lokað og mun það gilda til 6. apríl. Verslunarmiðstöðvar halda sínum opnunartíma og mælt er með að fólk haldi 1,5 metra fjarlægð.“

Harpa segir faraldurinn hafa haft mikil áhrif á námið. „Það áttu að vera lokapróf núna, sem hefur verið frestað en ekki búið að gefa út hvenær þau verða. Annars reyni ég að lifa eðlilegu lífi, fer út og hitti vini mína og við höldum hvert öðru selskap. En margir samnemendur eru að fara heim, sem er erfitt. Það er skrítið að vera ekki með fjölskyldunni sem er heima á Íslandi, en ég heyri oftar í þeim núna en ég gerði fyrir COVID-19.“

Reiðir kúnnar og stressað afgreiðslufólk

„Ég talaði við póstburðarmanninn okkar í morgun þegar hann kom með póstinn og við vorum sammála um að ástandið væri slæmt, en við þyrftum að halda í vonina og reyna að vera bjartsýn,“ segir Hulda Björnsdóttir sem búsett er í smábænum Penela í Portúgal.

„Faraldurinn hefur haft mikil áhrif hér. Það eru öll einkarekin fyrirtæki lokuð, hárgreiðslustofur, litlir súpermarkaðir og yfirleitt öll fyrirtæki sem rekin eru af einkaaðilum. Það er kínversk verslun hér sem alla jafna er opin alla daga, frá morgni til kvölds, og hún er lokuð núna. Fólk er ekki á ferli og þegar ég fór í göngu í gær mætti ég nokkrum bílum, en ekki gangandi fólki, sem er óvenjulegt. Fólk heldur sig inni.“

Hulda Björnsdóttir

Hulda segir andrúmsloftið misjafnt, sumir séu óttaslegnir, aðrir reiðir. „Ég fór í súpermarkaðinn, stóran, Mini preso, hér í bænum, og þar er mjög einkennilegt andrúmsloft. Afgreiðslufólkið er að störfum, en með hanska. Hillur eru ekki tómar, en farið að minnka í þeim. Matsölustaðurinn er tómur, litlu búðirnar eru lokaðar, örfáir bílar á planinu og ég varð vitni að því að einn af örfáum kúnnum inni í markaðnum varð mjög reiður og rauk út án þess að taka með sér vörurnar. Afgreiðslufólkið er stressað, á því leikur ekki nokkur vafi. Allar litlu búðirnar í þessum markaði eru lokaðar.“

Hún segir faraldurinn hafa haft mikil áhrif á daglegt líf hennar, rétt eins og allra annara. „Dagleg rútína er fyrir bí. Ég fór reglulega í líkamsrækt, hún er lokuð. Ég get ekki heimsótt vini mína því allir eru hræddir, en við höfum samband í síma eða í gegnum miðlana. Facebook og Messenger eru lífæð sumra. Ég veit ekki hvernig fer til dæmis með mat ef þetta ástand varir lengi. Ég fer út að ganga og reyni að halda mér í líkamlegu formi þannig og svo leitast ég við að vera jákvæð og gera það sem ég get til þess að fólkið sem ég umgengst láti ekki hugfallast. Þetta er vont, og óvissan og hvernig allt snýst alls staðar um þetta mál er enn verra. Það er þó enn hrikalegra fyrir okkur sem búum erlendis hvernig gengið er að drepa okkur þessa dagana. Það er spurning hvort fólk sé áhyggjufyllra varðandi gengið en veiruna?“

Fólk er almennt rólegt

„Vissulega hefur þetta ástand mikil áhrif. Það snýst allt meira og minna um COVID-19 í okkar störfum. Óþægileg tilfinning, en við höldum ró okkar,“ segir Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands á Indlandi. Hann segir ástandið þar í landi vera þokkalegt miðað við aðstæður, og það eigi líka við umdæmislönd sendiráðsins, Nepal, Srí Lanka og Bangladess.

„Afar fá smit afa verið greind af COVID-19 hér í Indlandi, sem telur 1.300 milljónir íbúa. Í morgun voru smitin um 140 talsins, sem ýmsum fræðimönnum finnst „óþægilega“ lág tala og að miklu fleiri hljóti að vera smitaðir. Aðeins eru skimaðir þeir sem eru með sterk einkenni veirunnar og skimanir því aðeins um 9 þúsund. Indland hefur verið lokað fyrir útlendingum í meira en viku og reglur hafa verið settar um samkomubann.

Sendiráðið hefur staðið vaktina og aðstoðað íslenska ríkisborgara við að komast heim. Það getur þó verið snúið því flest flugfélög hafa lagt af ferðir til Evrópu. Blessunarlega eru þó ekki margir íslenskir ríkisborgarar á Indlandi,“ segir Guðmundur.

„Áhyggjur fólks eru þær helstar, að taki veiran við sér hér í þessu fjölmenna landi, þá verði illviðráðanlegt að eiga við ástandið. Heilbrigðiskerfið sé engan veginn undir slíkan faraldur búið. Mörg evrópsk sendiráð í Delí hafa þegar sent fjölda diplómata og fjölskyldur þeirra til síns heima af ótta við það sem koma skal. Indverskt starfsfólk sendiráðsins íslenska og flestra vestrænna sendiráða starfar að miklu leyti heima hjá sér til að forðast návígi við fólk.“

Þrátt fyrir að aðstæðurnar kalli á hræðslu og óöryggi segir Guðmundur að flestir séu nokkuð rólegir. „Það er ótti við það ef hræðsla grípur um sig – hvað þá gerist. Borgaralegur órói og óeirðir? En ennþá er  allt með kyrrum kjörum. Við höfum náð í alla Íslendinga á okkar svæði, sem við þekkjum til. Margir eru farnir, aðrir eru á leið heim og svo eru þeir sem halda hér heimili og verða kyrrir.“

Tíu metra röð til að kaupa maska

„Um daginn var maður sem ýtti á neyðarbjölluna í lestinni af því að einhver hóstaði. Maður heyrir margar sögur af fólki í lestinni, sem ræðst að þeim sem hósta án þess að vera með maska. En það hefur þó aðeins róast síðustu vikuna,“ segir Thelma Rún Heimisdóttir leikkona sem búsett er í Tókýó. Ólympíuleikar eiga að hefjast þar í borg þann 24. júlí næstkomandi.

Thelma Rún Heimisdóttir

„Vegna Ólympíuleikanna í sumar þá reyna stjórnvöld í Japan af fremsta megni að koma í veg fyrir að vírusinn breiðist út, þau byrjuðu fljótt á því að loka skólum, biðja fólk um að halda sig heima og settu á samkomubann, svo fleiri en 50 manns ættu ekki að koma saman. Þess vegna lokuðu þau Disneylandi, mörgum veitingastöðum, kirkjum og fleiru. Í bíó er ekki lengur hægt að kaupa miða með sæti hlið við hlið, til að forðast að fólk sitji of þétt saman. Hjá þeim veitingastöðum sem senda mat heim, til dæmis Domino’s, leggja sendlarnir frá matinn frá sér og standa í eins til tveggja metra fjarlægð frá viðskiptavininum. Í Hokkaido, í norðurhluta Japan, var öllu lokað í febrúar, nema matarbúðum og allir voru beðnir um að vera heima,“ segir Thelma jafnframt og bætir við að faraldurinn hafi verið mikið áfall fyrir ferðaþjónustuna. Tapið er upp á rúmlega 100 billjónir jena.

Hún segist finna fyrir hræðslu í samfélaginu, þá sérstaklega á meðal eldra fólks.

Lestirnar eru tómar þar sem margir halda sig heima eða ganga í vinnuna. Það vantar ennþá stundum vörur eins og  klósettpappír og ég hef ekki séð maska í búðum í fleiri, fleiri vikur. Um daginn, í búðinni, þá fengu þau sendingu af möskum og það var heljarinnar löng röð, tíu metrar, af fólki að bíða eftir að kaupa maska, en máttu aðeins fá einn pakka á mann.“

Thelma segir faraldurinn þó ekki hafa haft mikil áhrif á hennar daglega líf, enn sem komið er. „Ég var reyndar beðin um að ganga í vinnuna frekar en að taka lest, þannig að núna geng ég tíu kílómetra á dag, sem er nú bara hollt og gott! Reyndar forðast ég eins mikið og ég get að ferðast inn í miðborg Tókýó, þannig að ég er ekki að hitta vini mína jafnoft og ég myndi vilja.“

Mikill samhugur

„Það er mikið öryggi í að finna að maður býr í landi, þar sem yfirvöld beita öllum aðferðum, hvað sem það kostar, til að bjarga lífi eins margra og unnt er. Við björgum fólki núna og tökum fjármálin síðar,“ segir Hulda Sæfríður Jónsdóttir framhaldsskólakennari sem búsett er í Silkeborg í Danmörku ásamt fjölskyldu sinni. Þegar þetta er ritað hafa 129 manns verið lagðir inn á sjúkrahús með veiruna þar í landi. Þar af eru 24 á gjörgæslu. Fjórir eru látnir. Rétt eins og Íslandi er ekki vitað hvort skortur verði á öndunartækjum næstu vikurnar, ef allir veikjast samtímis. „Enginn veit hversu margir eru smitaðir, þar sem fyrir viku var hætt að skima og skrá fólk sem er bara með væg einkenni. Þeir eru beðnir um að halda sig í einangrun heima í 14 daga. Einungis alvarlega veikir eru skráðir núna og staðan þar er yfir 1.000 manns. Það eru því margir smitaðir, sem eru ekki skráðir. Að „skuggatölunum“ meðtöldum, eru einhverjar þúsundir Dana smitaðar núna,“ segir Hulda.

Hulda Sæfríður, ásamt yngri syni sínum, Hákoni.

Allir skólar og barnaheimili eiga að vera lokaðir í síðasta lagi frá 19. mars og næstu 14 daga þar eftir. Allir opinberir starfsmenn, sem ekki sinna lífsnauðsynlegu starfi, mega ekki mæta í vinnu í 14 daga frá föstudeginum. Fólk sem getur unnið að heiman, eigi að gera það og fyrirtæki eru beðin um að hugsa um starfsmenn sína og leyfa þeim að vinna að heiman ef hægt er, eða á vöktum eða dreift í fyrirtækinu. Þá er fólk beðið um að halda sig sem mest heima við, að sögn Huldu. Um helgina var öllum landamærum Danmerkur lokað, til að koma í veg fyrir að fólk sé að þvælast inn og út úr landinu og dreifa smiti. „Við erum vön ferðafrelsi, margir Danir skreppa yfir landamærin reglulega til að versla og margir búa í Svíþjóð en vinna í Kaupmannahöfn. Það var lítill fyrirvari og verðir eru settir við landamærin til að vísa fólki frá, nema fólk hafi sérstaka ástæðu til að koma inn í landið. Danir eru yfirleitt vanir að láta í sér heyra ef eitthvað er tekið frá þeim. Þýskaland fylgir eftir og lokar á umferð frá Danmörku. Því minni þvælingur, því hægari dreifing á smiti.“ Síðastliðinn miðvikudag, 18. mars, tóku svo í gildi enn strangari reglur. „Öllum verslunarmiðstöðvum er lokað, nema matvöruverslanir og apótek mega vera opin. Kúnnar verða að standa í minnst tveggja metra fjarlægð þegar þeir koma að kassanum og það á að vera spritt í búðinni. Einhverjar verslanir hafa sett upp plastskerm milli starfsmanns á kassa og viðskiptavinarins. Allir veitingastaðir, kaffihús, skemmtistaðir, líkamsræktarstöðvar, sólstofur, tattóveringarstofur og nuddstofur eiga að vera lokaðar. Veitingastaðir mega þó gjarnan selja „take away“, en fólk má ekki borða inni. Tannlæknar mega bara sinna verkefnum sem ekki er hægt að fresta. Það er bannað að halda samkomur, hvort sem það er úti eða inni, með yfir 10 manns. Guðsþjónustum er aflýst, fermingum verður frestað og fólk er beðið um að fresta skírn og brúðkaupum eða framkvæma slíkt í kyrrþey.“

Hulda segist finna að það ríki mikill samhugur á meðal Dana. Í stað þess að fólk hamstraði fyrir sjálft sig spruttu upp Facebook-grúppur, þar sem fólk bauðst til að hjálpa þeim, sem eru í áhættuhóp, við að kaupa inn. Innkaupapokinn er skilinn eftir á tröppunum og greiðslan send á símanum til þess sem keypti inn. Það er engin snerting. Það var opnuð heimasíða, þar sem hægt er að skrá sig ef maður hefur unnið í heilbrigðisgeiranum áður, og jafnvel námsmenn í heilbrigðisgeiranum eru beðnir um að skrá sig. Á tveimur sólarhringum buðu 1.000 manns fram aðstoð sína. Það er verið er að þjálfa fólk til að stýra öndunarvélum. Það hafa verið keyptar nýjar öndunarvélar og rykið er þurrkað af þeim gömlu. Danir eru að búa sig undir að taka allar 954 öndunarvélarnar í notkun.“

Hulda kennir í framhaldsskóla í Árósum og vinnur heima þessa dagana. „Við notum Skype með vefmyndavél þegar við höldum fundi og hittumst reglulega „online“. Maðurinn minn er líka í banni frá sínum vinnustað og vinnur heima í óákveðinn tíma,“ segir Hulda en synir hennar tveir eru á unglingsaldri og stunda fjarnám meðan á samkomubanni stendur. Fyrirhugað var að yngri sonurinn myndi fermast í vor, en öllum fermingum hefur verið frestað þar til eftir hvítasunnu, að minnsta kosti. „Eldri sonur minn er að fara að taka bílpróf og átti eftir einn ökutíma og verklega prófið, en ökuskólinn fellur undir kennslu, svo það verður ekkert úr bílprófi í bráð.“ Hulda segir að þrátt fyrir að eldri sonurinn geti ekki fengið ökuskírteini í bráð og sá yngri sjái ferminguna hverfa út í framtíðina þá kvarti þeir ekki. „Við verðum bara að gera það besta úr hlutunum og standa saman. Við berum mikla virðingu fyrir forsætisráðherranum fyrir að taka þetta svona alvarlega og að allir þingmenn ákveði að standa saman, sama úr hvaða flokki þeir koma, með það eitt að leiðarljósi að bjarga eins mörgum mannslífum og hægt er, hér og nú. Við erum vel upplýst og það ríkir mikill samhugur og hjálpsemi. Við hlustum og hlýðum af einni ástæðu: Engan langar að vera númer 955 í röðinni í öndunarvélarnar.“

Engin matarpanikk

Íslendingurinn Robert Lee Evensen vinnur sem flugmaður í innanlandsflugi á Grænlandi. Robert er búsettur í Danmörku og skiptir tíma sínum á milli landanna tveggja. Fyrsta smitið greindist á Grænlandi í gær, fimmtudaginn 18. mars.

„Það er komið innanlands smittilfelli frá einstaklingi sem ekki var á ferðalagi. Sá einstaklingur er tengdur háskólanum og búinn að umgangast aðra nemendur og starfsfólk undanfarið,“ segir Robert. „Þá var allur viðbúnaður settur í gang, öllum skólum, frístundastöðvum, veitingastöðum, börum og álíka lokað, öllum meinað að yfirgefa Nuuk, hvort sem er með flugi, sleða eða bát. Fólk má enn fljúga inn til Nuuk þangað til á morgun [20. mars], en þá verður öllu flugi hætt nema sjúkra- og björgunarflugi. Þá ríkir heimasóttkvíarskylda fyrir alla komufarþega. Markmiðið virðist vera að einangra tilfellin við Nuuk til að hlífa minni bæjum og þorpum, þar sem aðstoð er jafnvel minni,“ segir Robert. Afleiðingar COVID-19 fyrir hann núna eru þær að hann hættir í innlandsflugi og flýgur sjúkraflug milli Danmerkur og Grænlands í staðinn. Hann segir faraldurinn hafa valdið ákveðnum titringi í grænlenska samfélaginu. „Vitaskuld er fólk óöruggt um stöðu mála, bæði vegna þess að samfélagið er svo smátt og styrkur sjúkrahússins og annarra innviða takmarkaður. Kollegar mínir lýsa hálfgerðu ófremdarástandi, bæði á vinnustað og úti á götu, og flestir eru áhyggjufullir yfir takmörkuðu heilbrigðiskerfi. Fólk uppfærir fréttaveiturnar með reglulegu millibili, þannig að fréttir að innan sem utan, hafa mikil áhrif á svona samfélag,“ segir hann. Mesti óttinn er um minni byggðarlög í dreifbýli Grænlands. „Það búa margir eldri borgarar í smáum, fjarlægum og frumstæðum þorpum meðfram ströndinni og þar er erfitt að nálgast aðstoð í veikindum. Það er eitt af því sem ég sé að fólk er hrætt við.“ Matarskortur er hins vegar ekki það sem fólk hræðist. „Það góða við grænlenska menningu er að það er mjög vinsælt að veiða sér til matar, þannig að margir eru með fullar frystikistur af kjöti og fiski,  svo það virðist ekki vera mikil matarpanikk ennþá.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu