Átján innanlandssmit af COVID-19 greindust í gær, eða átta færri en daginn áður. Af þeim voru fjórir utan sóttkvíar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi dagsins að smitin væru á hægri niðurleið og fáir utan sóttkvíar væru helstu merki um það.
900 sýni voru tekin innanlands í gær, sem er svipað og undanfarna daga.
61 eru nú á sjúkrahúsi, þar af 3 á gjörgæslu.
Einn einstaklingur lést á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka í gær.
Þórólfur segir ánægjulegt að innanlandssmitum fari fækkandi en augljós merki eru um það.
Þórólfur segir enn fremur að fréttir undanfarna daga um árangur við þróun bólulyfs séu ánægjulegar, sem og fréttir þess efnis að tekist hafi að tryggja kauprétt Íslendinga á bóluefnum. Segir Þórólfur að fréttirnar veki vonir um að við sjáum fyrir endalok faraldursins.
Þórólfur hefur skilað tillögum til heilbrigðisráðherra um afléttingar á sóttvarnahömlum frá og með 18. nóvember og eru tillögurnar til athugunar í heilbrigðisráðuneytinu. Vildi Þórólfur ekki upplýsa um innihald tillagnanna.