Skiptum er lokið í þrotabúi Gauksmýri, ferðaþjónustufyrirtækis á Hvammstanga. Á Sveitasetrinu Gauksmýri var rekin ferðaþjónusta með áherslu á náttúruskoðun og hestamennsku. Gistipláss og veitingashús voru á staðnum.
Kröfur í búið námu 282 og hálfri milljón. Eignir fundust í búinu fyrir 150 milljónum. Að sögn Einars Sigurónssonar lögmanns, sem var skiptastjóri, leysti Íslandsbanki þar til sín fasteignir sem hann átti veð í.
Samkvæmt heimildum DV hófust rekstrarerfiðleikar Gauksmýri nokkru fyrir kórónuveirufaraldurinn en ljóst er að hann hefur ekki bætt úr skák.
Að sögn skiptastjóra eru rekstrar-, gisti- og veitingaleyfi enn til staðar. Því er spurning hvort reksturinn verði endurvakinn síðar en örlög hans eru í höndum Íslandsbanka sem á fasteignirnar á svæðinu.