fbpx
Fimmtudagur 15.maí 2025
Fréttir

Jóhann var lagður í einelti – Segir það fáránlega hugmynd að láta foreldra greiða skaðabætur

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 4. nóvember 2020 16:25

Jóhann Arinbjarnarson. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhann F. K. Arinbjarnarson rithöfundur, sem hefur sent frá sér skáldsögurnar Skaðamaður og Leitin að engli dauðans, birtir áhugaverða grein um einelti á Vísir.is í dag. Jóhann lýsir áhrifum eineltis á sig og hafnar algjörlega hugmyndum kennarans Valgarðs Reynissonar um að foreldrar eineltisgerenda verði gerðir skaðabótaskyldir.

Jóhann segir að eineltið hafi gert sig að einmana, bitrum og drykkfelldum rithöfundi:

„Ég var lagður talsvert í einelti á mínum grunnskólaárum. Hefði ég verið spurður þá hefði ég óhikað svarað að fáir ættu jafn bágt og ég í þeim efnum. En það reyndist þó ekki satt. Fyrir nokkrum árum rataði gamli grunnskólinn minn t.d. í fréttirnar vegna þess nokkrir nemendur sem orðið höfðu fyrir afar slæmu einelti stigu fram og sögðu frá sinni reynslu og gagnrýndu skólastjórnendur og starfsfólk fyrir meint aðgerðarleysi. Margir hafa liðið mun verri kvalir yfir mun lengri tíma en ég og því get ég aðeins ímyndað mér hvernig líf mitt væri mögulega frábrugðið í dag ef eineltið sem ég varð fyrir hefði verið enn verra. En ég varð samt fyrir talsverðu einelti og hefur það eflaust haft mikil áhrif á hvers konar maður ég er í dag. Hver veit, kannski er til annar alheimur þar sem að ég varð ekki fyrir einelti og í þeim alheimi er ég kannski hamingjusamlega giftur, vinn á lögfræðistofu og keyri um á Cadillac. En hér í þessum heimi endaði ég sem bitur, drykkfeldur maður sem keyrir um á þrettán ára gömlum Hyundai Tuscon. En kannski er það þveröfugt. Kannski er hinn ég, í hinum alheiminum, vinafár, metnaðarlaus fíkill. Eða Guð má vita hvað.“

Einelti náttúrulegt og skaðabætur fáránleg hugmynd

Jóhann segir að einelti sé náttúrulegt fyrirbæri enda höfði það til hópsálarinnar í okkur. Hann lýsir sorglegum afleiðingum hefndar er hann lúbarði strák sem hafði falið skólatöskuna hans, en það var nokkuð sem skólafélagar hans höfðu gert að vana. Í ljós kom að drengurinn sem var að verki í þetta sinn var að gera þetta í fyrsta skipti til að friðmælast við eineltisgerendur. Að berja strákinn færði Jóhanni ekkert nema samviskubit.

Jóhann segir að það sé nægilegt áfall fyrir foreldra að börn þeirra séu eineltisgerendur. Að bæta við skaðabótum fyrir eitthvað sem foreldrarnir ráða ekki við auki bara á sársauka foreldranna, segir Jóhann, og tilfærir eigin sögu sem mótrök gegn hugmyndinni um að sekta foreldra eineltisgerenda:

„Einn af þeim sem að lagði mig talsvert í einelti þegar ég var í grunnskóla var sonur tveggja kennara við skólann. Móðir mín starfaði við bókasafn skólans og pabbi minn og faðir drengsins voru þar að auki góðir kunningjar vegna þess að báðir eru þeir virkir í hestamennsku. Foreldrar drengsins voru báðir einhver mestu ljúfmenni sem hægt er að hugsa sér. Það var aldrei nein fyrirstaða hjá þeim um að segja syni þeirra til og skamma hann eða reyna að fá hann ofan af því sem hann gerði. Það bara virkaði ekki. Hann vildi ekki hlusta eða tók sér reglulega pásur frá því að stríða mér svo að það leit út sem að hann væri að batna. Þar sem að foreldrar okkar okkar áttu öll í mjög góðu sambandi sín á milli get ég ekki ímyndað mér annað en að sú staðreynd að sonur annars parsins níddist að hinum hefði vegið afar þung á foreldrunum. M.ö.o. enginn vill að barnið sitt endi á að gerast gerandi í einelti. Ekki frekar en neinn vill að barnið sitt verði seinna glæpamaður eða fíkill. Sé ætlunin að refsa foreldrum fyrir það að eiga barn sem leggir önnur börn í einelti þá er það óþarft af þeirri ástæðu að þeim hefur þegar verið refsað. Refsing þeirra felst í að þau eiga barn sem er gerandi. Vissulega er nauðsynlegt að foreldrar slíkra barna séu höfð með í ráðum þegar reynt er að finna viðeigandi leið til þess að binda enda á eineltið. Eins er mikilvægt að foreldrar í þeirri stöðu átti sig á alvarleika ástandsins. En það að láta foreldra í þeirri aðstöðu t.d. greiða sektir myndi bara þýða að eymdin sem að barnið þeirra veldur breiðist út og hefur áhrif á fleiri en annars þyrfti.“

Í greininni, sem er löng, segir Jóhann sögur af eineltisgerendum sem sáu að sér og hvernig fyrrverandi óvinir urðu vinir er þeir uxu úr grasi.

Sjá grein Jóhanns á Vísir.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Brottrekstur Úlfars gagnrýndur – „Bendir til þess að stjórnvöld leggi meira upp úr því að fela vandann en að taka á honum“

Brottrekstur Úlfars gagnrýndur – „Bendir til þess að stjórnvöld leggi meira upp úr því að fela vandann en að taka á honum“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Þessir tveir hlutir eru á algjörum bannlista hjá Karli og Kamillu í bresku konungshöllinni

Þessir tveir hlutir eru á algjörum bannlista hjá Karli og Kamillu í bresku konungshöllinni
Fréttir
Í gær

Lík fannst í sjónum á milli Engeyjar og Viðeyjar

Lík fannst í sjónum á milli Engeyjar og Viðeyjar
Fréttir
Í gær

Ásgerður Jóna sár út í Ingu Sæland: „Í þriðja sam­tal­inu sagðist hún ekk­ert geta gert“

Ásgerður Jóna sár út í Ingu Sæland: „Í þriðja sam­tal­inu sagðist hún ekk­ert geta gert“