fbpx
Mánudagur 23.nóvember 2020
Fréttir

Kári um ástandið og Þórólf: „Við höfum ekki fortíðina í höndum okkar“

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 28. október 2020 19:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Titringur er í þjóðinni með næstu skref almannavarna og sóttvarnalæknis. Kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis að honum litist ekki á blikuna og hafði Vísir.is eftir honum fyrr í dag að stutt væri í að við værum „á brúninni með að missa tökin á faraldrinum.“ Þá sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum við DV fyrr í dag, að nýjustu smittölur og ástandið almennt væri litið „alvarlegum augum.“

Blaðamaður DV tók Kára Stefánsson á tal um ástandið og framtíðarhorfur. „Þetta lítur ekki vel út,“ sagði hann, „það er alveg ljóst að við höfum fulla þörf á því að herða á aðgerðum töluvert. Við hefðum átt að gera það fyrr. Það hefði þjónað okkur vel að herða aðgerðir til muna 18. september þegar tvö hópsmit greindust á öldurhúsum í Reykjavík.“

Þó segir Kári til lítils að horfa um öxl: „Við höfum ekki fortíðina í höndum okkar. Við getum og verðum að bregðast við því sem koma skal.“

Vill sjá aðgerðir eins og í vor

Kári hefur, eins og við var að búast, ekki legið á skoðunum sínum á viðbrögðum hins opinbera við Covid-19 faraldrinum, og var ötull talsmaður þess að lengra yrði gengið þegar hinnar svokölluðu þriðju bylgju varð fyrst vart í samfélaginu um miðjan september. Nú segir Kári að tilefni sé til þess að fara í samskonar aðgerðir og í vor. „Við ættum að loka öllum búðum nema matvöruverslunum, veitingastöðum, hópaskipta í skóla og svo framvegis,“ segir Kári, og bætir við að hann yrði ekki hissa ef eitthvað slíkt yrði raunin.

Fram kom í gær að Þórólfur ynni nú að nýju minnisblaði sem yrði væntanlega klárt í dag og afhent heilbrigðisráðherra á morgun. Kári segist vona að það taki ekki marga daga í að ákveða næstu skref. „Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að það þarf að ráðast í hertar aðgerðir, þá vona ég að það þurfi ekki að taka marga daga að ráðast í þær aðgerðir.“

Þórólfur staðið sig „andskoti“ vel

Kári vildi ekki gera mikið úr því að hann hafi verið ósammála Þórólfi um einstaka útfærslu sóttvarnayfirvalda, og af orðum hans að dæma þykir Kára mikið til Þórólfs og íslenskra heilbrigðiskerfisins koma: „Íslenskt samfélag er búið að standa sig vel, Þórólfur er búinn að standa sig vel, þó ég hafi verið ósammála sóttvarnalækni, þá hefur hann staðið sig andskoti vel. Mér finnst íslenskt samfélag hafa staðið sig vel. Landspítalinn auðvitað staðið sig ævintýralega vel.“

Covid göngudeildin „fjöður í hatt“ Landspítalans

Eins og margoft hefur komið fram er Kára annt um Landspítalann. Hann réðst til dæmis í söfnun undirskrifta um áskorun á hendur stjórnvalda til að fjármagna heilbrigðiskerfið og er sú söfnun enn í dag einn lengsti undirskriftalisti Íslandssögunnar, ef ekki sá lengsti. Nú hefur Landspítalinn setið undir gagnrýni eftir að nokkuð útbreitt hópsmit kom upp á Landakot, einni deild Landspítalans. Kári er ekki tilbúinn að taka undir það. „Menn gleyma því í deilunni um Landakot, að hann [spítalinn] hefur unnið frábært starf. Á svo marga máta. Dánartíðni hefur verið mjög lítil, árangur af gjörgæslu verið mjög góður, og svo er það þessi fjöður í hatti spítalans, Covid göngudeildin,“ sagði Kári.

Kári segir Covid göngudeildina einstaka á heimsmælikvarða. „Ég þori að fullyrða að hvergi annars staðar í heiminum hafi þetta tekist.“ Vísar hann þar til þess hvernig Covid deildin sé upp sett, að hún fylgist með öllum virkum smitum í samfélaginu og veiti þannig þeim veiku „móralskan stuðning,“ eins og Kári orðaði það, í bland við læknisfræðilega eftirfylgni.

„Ef einhvern lærdóm má draga af síðustu tveimur mánuðum, þá er það að við verðum að bregðast hraðar við þegar upp koma hópsmit,“ segir Kári. Aðspurður hvort sjáanleg Covid þreyta verði ekki að lokum til þess að pólitískur ómöguleiki verði að framfylgja frekari takmörkunum á daglegu lífi fólks, svarar Kári: „Það þarf engan Einstein til að komast að þeirri niðurstöðu! Það er bara spurning um hversu lengi við eigum að sætta okkur við þessar ráðstafanir. Ég held að við eigum að sætta okkur við þetta þangað til við erum komin með bóluefni,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fimmtán innanlandssmit í gær

Fimmtán innanlandssmit í gær
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Félagsráðgjafi segir venjulega krakka vera að ströggla – „Það spyr enginn, hvernig líður þér?“

Félagsráðgjafi segir venjulega krakka vera að ströggla – „Það spyr enginn, hvernig líður þér?“