Árni Steinn Viggósson rekur lítinn veitingastað á þessum erfiðu tímum sem nú eru. Hann leitar allra leiða til að halda staðnum í rekstri og borga starfsfólkinu sínu laun. Heimsendingar eru stór hluti af starfseminni en þar rekur Árni sig á misræmi. Hann getur selt fólki mat og áfengi á staðnum en hann getur aðeins heimsent mat – ekki áfengi.
Árni fer yfir málið í grein á Vísir.is í dag. Áslaug Arna Sigurjörnsdóttir dómsmálaráðherra er með í undirbúningi frumvarp sem gerir löglegt fyrir veitingastaði að heimsenda áfengi. Árni telur að þessi breyting gæti orðið mörgum til bjargar. Hann hvetur þingmenn til að taka frumvarpinu vel. Við gefum Árna orðið:
Nýlega kastaði dómsmálaráðherra út kærkomnum björgunarhring til veitingageirans þegar hún lagði til jafnræði í netverslun með áfengi. Með því að heimila íslenska netverslun, eins og lagt er til, gæti velta margra staða aukist nægilega til að þeir geti að minnsta kosti haldið baráttunni áfram næstu mánuði og haldið fólki í vinnu.
Veitingarekstur gerir fáa að milljónamæringum. Hins vegar dregur geirinn að sér skapandi fólk úr öllum áttum, auðgar menningu landsins, veitir fólki gleði og býr til ótal störf. Þegar ég opnaði staðinn minn fyrir tæpu ári síðan var mér efst í huga að skapa eitthvað nýtt og þjóna fólki sem átti ekki úr mörgum stöðum við sitt hæfi að velja.
Ég vona að ég geti haldið því áfram.
Ég vona því að þingmenn og almenningur taki tillögunum fagnandi. Þannig getum við gripið björgunarhringinn og haldið áfram að gera það sem við elskum. Það er nefnilega ekki bara minn staður og mitt starfsfólk undir, heldur allur veitingageirinn.