fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Jólagjöf Landspítalans færir lítilli verslun við Laugaveg tugi milljóna króna

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 24. janúar 2020 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Búsáhaldaversluninn Kokka, Laugavegi 47, datt í lukkupottinn fyrir síðustu jól þegar Landspítalinn ákvað að gefa starfsfólki sínu 8.500 kr. gjafabréf í versluninni í jólagjöf. Starfsmenn Landspítalans eru um 6.000 talsins, samkvæmt upplýsingum frá mannauðssviði stofnunarinnar, og má því leiða líkur að því að Kokka hafi fengið yfir 50 milljónir króna frá spítalanum, þó að þær tölur liggi ekki fyrir.

Málið er komið í nokkra umræðu á samfélagsmiðlum og meðal annars vekur borgarfulltrúinn Baldur Borgþórsson athygli á því. Má segja að hann fangi kjarnann í þeirri óánægju sem ákvörðunin vekur:

50 milljón króna forskot?

Fékk nýverið upplýsingar um að Landspítalinn hafi gefið starfsfólki sínu gjafakort að upphæð kr.8,500,- í Kokku, verslun á Laugavegi, í jólagjöf nýliðin jól.

Starfsmannafjöldi Landsspítalans er samkvæmt heimasíðu rétt um 5,700 manns.

Séu þetta réttar upplýsingar og við gefum okkur að ekki sé farið í manngreinarálit innan Landsspítalans er um verulega upphæð að ræða, eða tæpar 50 milljónir króna.

Væri ekki nær og sanngjarnara gagnvart verslunareigendum að fyrirtæki í eigu hins opinbera, hvort heldur er ríkis eða sveitafélaga gefi starfsfólki sínu gjafakort sem nota má í hvaða verslun sem er?

Það munar um 50 milljón krónu forskot í öllum rekstri, en sérstaklega þó á Laugavegi, þar sem kaupmenn róa lífróður vegna hindrana sem meirihluti borgarstjórnar leggur í götu þeirra.

Ég ítreka að ég hef ekki fengið téðar upplýsingar staðfestar heildstætt.

Leitt er ef satt er.

DV hafði samband við Guðrúnu Jóhannesdóttur, eiganda Kokku. Hún er ánægð með viðskiptin við Landspítalann og sér ekkert rangt við að gjafabréfin séu einskorðuð við þessa einu verslun: „Rétt eins og gjafabréfin hafa áður verið einskorðuð við 66°N eða Cintamani,“ segir hún og tilgreinir aðila sem Landspítalinn mun hafa keypt gjafabréf af áður. „Við höfum aldrei gert svona samninga við þau áður og þau fá afslátt hjá okkur.“ Segir Guðrún að gjafakortin gildi í fjögur ár. „Landspítalinn hefur gert þetta í mörg ár og leitar tilboða hjá fyrirækjum.“

Afslátturinn ræður úrslitum

Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu mannauðsmála hjá Landspítalanum, staðfestir þessar upplýsingar og svar hennar við fyrirspurn DV um málið er eftirfarandi:

„Við leitum eftir tilboðum frá fyrirtækjum og aðilum, s.s. leikhúsum og fleirum og hefjum þá vinnu alltaf snemma sumars. Ákvörðunin byggist síðan meðal annars á því hversu mikinn afslátt fyrirtækið er tilbúið að bjóða, og einnig er leitast við að hafa fjölbreytni á milli ára, þannig að allir starfsmenn geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  Slíkur afsláttur er ekki í boði ef keypt er almennt bankakort eða gjafakort sem gildir t.d. í allar verslanir í tiltekinni verslunarmiðstöð.  Aðilar sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu árlega verkefni okkar geta haft samband við skrifstofu mannauðsmála.“

Samkvæmt svari Ástu eru afsláttarkjörin lykilatriði en þau myndu ekki bjóðast ef keypt væri gjafakort sem gilti á marga staði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt