Leigubílstjóri óskaði aðstoðar í gærkvöldi þar sem tveir farþegar neituðu að greiða fyrir aksturinn. Síðar í gærkvöldi óskaði annar leigubílstjóri eftir aðstoð vegna farþega sem neitaði að greiða fyrir aksturinn. Þar var um annan farþegann úr fyrra málinu að ræða. Hann var vistaður í fangageymslu.
Þrír ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt, grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis.
Umferðarslys varð í Vesturbænum í gær. Tveir bílar lentu saman og þurfti að flytja einn á slysadeild með sjúkrabifreið. Dráttarbifreið flutti báða bílana af vettvangi. Umferðaróhapp varð á gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar síðdegis en engin slys urðu á fólki. Fjarlægja þurfti báða bílana með dráttarbifreið.
Einn var handtekinn um miðnætti, grunaður um fíkniefnamisferli. Hann var vistaður í fangageymslu.
Um klukkan þrjú í nótt var maður handtekinn fyrir utan Slysadeild Landspítalans í Fossvogi þar sem hann lét ófriðlega. Hann er einnig grunaður um eignaspjöll. Hann var fluttur á lögreglustöð til viðræðna og var sleppt að þeim loknum.