Ökumaður, sem er grunaður um ölvun við akstur, var handtekinn í miðborginni eftir að hann ók á tvær bifreiðar og á brott. Hann var vistaður í fangageymslu.
Maður datt á andlitið í miðborginni og var fluttur á slysadeild en hann var með áverka í andliti. Maður var handtekinn í miðborginni eftir að hann reyndi að stela vörum úr verslun. Hann réðst á öryggisvörð sem hugðist stöðva hann. Maðurinn var yfirbugaður og vistaður í fangageymslu í framhaldinu.
Lögreglumenn höfðu afskipti af akstri 14 ára pilts í Hlíðahverfi í gær. Hann hafði tekið bíl ófrjálsri hendi og var á rúntinum með fjórum jafnöldrum sínum.
Ekið var á 13 ára pilt á vespu í Garðabæ. Hann meiddist ekki en vespan skemmdist lítillega.
Í Kópavogi var ekið á ljósastaur og kom í ljós að ökumaðurinn var ekki með ökuréttindi. Engin slys urðu á fólki en bæði bifreiðin og ljósastaurinn skemmdust.
Í Kópavogi aðstoðuðu lögreglumenn ofurölvi konu, sem lá á bifreiðastæði, við að komast til aðstandanda sem kom henni í húsaskjól.
Tvö börn klifruðu upp á þak skóla í Kópavogi en svo illa vildi til að þegar þau voru komin upp datt stiginn, sem þau höfðu notað, og komust þau ekki niður. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var móðir annars barnsins komin á vettvang til að hjálpa þeim út úr þessum hremmingum.
Í Árbæ var tilkynnt um mann, í annarlegu ástandi, sem svæfi í rútu. Hann var vakinn og kom þá í ljós að hann var eftirlýstur. Hann var því handtekinn og fluttur í fangageymslu.