fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Frambjóðandi til formanns SÁÁ: Hann vill ráða einn en ég vil dreifa valdinu

Erla Hlynsdóttir
Þriðjudaginn 30. júní 2020 07:30

Einar Hermannsson býður sig fram til formanns SÁÁ. Aðalfundur samtakanna er þriðjudaginn 30. júní. Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Hermannsson býður sig fram til formanns SÁÁ á móti Þórarni Tyrfingssyni. Einar byrjaði í neyslu aðeins 11 ára gamall en fór ekki í meðferð fyrir en hann var orðinn 27 ára og hefur verið edrú síðan. Hann hefur tveggja áratuga stjórnunarreynslu, hefur ástríðu fyrir félagsmálum og leggur áherslu á samstarf.

Ég hef alltaf haft áhuga á félagsmálum og byrjaði að taka virkan þátt í félagsstarfi SÁÁ fyrir tæpum áratug,“ segir Einar Hermannsson, sem býður sig fram til formanns SÁÁ. Einar etur kappi við Þórarin Tyrfingsson, sem bæði er fyrrverandi formaður SÁÁ og fyrrverandi yfirlæknir á Vogi, en nýr formaður verður kjörinn á aðalfundi samtakanna þriðjudaginn 30. júní. Mikil ólga hefur verið innan samtakanna að undanförnu. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, sagði upp störfum í marsmánuði vegna djúpstæðs ágreinings við sitjandi formann, Arnþór Jónsson, og í kjölfarið sögðu þrír sig úr framkvæmdastjórn félagsins, þeirra á meðal Einar.

Eftir að Valgerður sagði upp steig fjöldi fólks fram og lýsti yfir stuðningi við hana og það starf sem hafði verið byggt upp. Starfsfólki misbauð og lýsti yfir vantrausti á formann og það sem eftir var af framkvæmdastjórn. Nokkru síðar ákvað Valgerður að draga uppsögnina til baka í von um að ró kæmist á starfsemi spítalans. Ljóst þótti að Þórarinn myndi bjóða sig fram til formanns en áður en það var tilkynnt formlega tilkynnti Einar um sitt framboð. Valgerður hefur síðan lýst yfir stuðningi við Einar.

Starfsfólk er óöruggt og hrætt

Einar segist hafa tekið endanlega ákvörðun um framboð á fundi þar sem átti að kjósa nýtt fólk inn í staðinn fyrir þá sem höfðu sagt sig úr framkvæmdastjórninni. „Þetta var afskaplega undarlegur fundur og þegar spurningum var beint að þeim sem voru eftir í framkvæmdastjórninni svaraði ekkert þeirra heldur stóð Þórarinn upp og svaraði fyrir hópinn. Þá sá ég hvar vandinn lá.“

Hann vill taka skýrt fram að honum finnst þessi kosningabarátta ekki sú skemmtilegasta, leiðinlegt sé að lesa óhróður um bæði sjálfan sig og Þórarin, og leiðinlegt hvernig ýmsum rangfærslum sé haldið fram. „Ég ber mikla virðingu fyrir Þórarni Tyrfingssyni. Sá maður þarf ekki að sanna eitt eða neitt fyrir neinum. Hann helgaði SÁÁ megnið af starfsframa sínum og skilaði góðu starfi,“ segir Einar. Þrjú ár eru síðan Þórarinn sagði skilið við yfirstjórn samtakanna, þá sjötugur, og var kvaddur með virktum. Hann er þó sagður hafa haldið áfram sem skuggastjórnandi og staðið að baki Arnþóri í hans formannstíð.

„Auðvitað þykir Þórarni vænt um SÁÁ og vill sjá hag þeirra sem bestan út frá sínum forsendum. Við sem sitjum hinum megin við borðið höfum aðra sýn og viljum sjá starfið vaxa. Ég er alls ekki einn. Við erum yfir fimmtíu manns sem höfum hist reglulega og mótað saman hvernig við viljum sjá framtíð SÁÁ. Frá því ég bauð mig fram hef ég fengið alls konar símtöl, frá stjórnmálamönnum bæði til hægri og vinstri, frá prestum og frá fólki utan af landi sem ætlar að koma sérstaklega í bæinn til að kjósa. Við finnum fyrir miklum meðbyr. Það verður að höggva á þann hnút sem upp er kominn í stöðunni. Starfsfólk er óöruggt og hrætt, stjórnin hefur verið klofin í tvennt og fimm af þeim átta sem áttu sæti í framkvæmdastjórn hættu á þessu ári. Þetta er ekki staða sem hægt er að bjóða veikum alkóhólistum upp á.“ Spurður hver sé helsti munurinn á honum og Þórarni segir Einar: „Hann vill ráða einn en ég vil dreifa valdinu.“

Talar sex tungumál

Einar er 52 ára gamall, býr í Grafarvogi ásamt eiginkonu sinni og eiga þau hvort um sig tvö börn úr fyrri samböndum. Þau eiga þrjú barnabörn og það fjórða er á leiðinni. Síðustu tuttugu ár hefur Einar verið framkvæmdastjóri AFA JCDecaux á Íslandi, sem meðal annars sá um rekstur á strætóskýlum og auglýsingasölu. Þetta er alþjóðlegt fyrirtæki sem veltir 350–400 milljörðum króna á ári en Einar keypti reksturinn hér á landi fyrir tveimur árum og hefur síðan verið í eigin rekstri.

Hann segist alinn upp hjá Icelandair þar sem hann byrjaði ungur á varahlutalagernum en vann sig fljótt upp og hafði undir lokin verið í flestum deildum, þar á meðal tekjustýringardeild. Auglýsingamarkaðurinn heillaði alltaf og hann kveðst einfaldlega hafa verið réttur maður á réttum stað þegar honum bauðst að verða framkvæmdastjóri hjá AFA JCDecaux. „Þegar ég var sex ára flutti fjölskyldan til Lúxemborgar því pabbi var að vinna hjá Cargolux eins og fjöldi annarra Íslendinga. Ég bjó úti til fimmtán ára aldurs og eitt af því sem ég græddi á því er að nú tala ég sex tungumál,“ segir Einar, en tungumálin eru þýska, franska, lúxemborgska, enska, danska og auðvitað íslenska.

Einar var aðeins 25 ára gamall þegar hann var orðinn formaður starfsmannafélags Flugleiða. Frönskukunnáttan kom sér vel þegar hann varð forseti Alliance francais og hann hefur einnig verið mjög virkur í starfi Fjölnis, meðal annars setið í stjórn og meistaraflokksráði. „Það sem heillar mig mest við félagsstörfin er að vinna með öðru fólki og sjá eitthvað skapandi gerast,“ segir hann. Einar er óvirkur alkóhólisti en það er þó engin skylda til að vera í SÁÁ enda stendur skammstöfunin fyrir: Samtök áhugafólks um áfengis­ og vímuefnavandann.

Fjölskyldusjúkdómurinn alkóhólismi

„Í október á þessu ári hef ég verið edrú í 25 ár. Ég var 27 ára gamall þegar ég fór í meðferð á Vog og hef verið edrú síðan. Ég fór þó á minn fyrsta AA­fund 17 ára gamall. Þá hafði ég vitað í minnst tvö ár að ég ætti við vandamál að stríða. Það var ekki eðlilegt hvernig ég hagaði mér drukkinn og ekki heldur hvernig ég hagaði mér ódrukkinn út af afleiðingum þess hvernig ég lét undir áhrifum. Það tók mig tíu ár til viðbótar þar til ég áttaði mig á að ég gæti ekki ráðið við þetta í eigin mætti. Það er mikill alkóhólismi í fjölskyldunni. Við erum fjögur systkinin, og svo mamma og pabbi. Fimm af okkur sex hafa nýtt sér þjónustu SÁÁ.“

Hann byrjaði ungur að nota vímuefni. „Ég byrjaði rosalega snemma, ellefu ára gamall. Ég var bara týndur krakki í lífinu. Ég byrjaði á því að sniffa. Ég sniffaði þynninn sem var notaður í leiðréttingarborða á ritvélum. Ég notaði þetta mjög mikið, fór oft að sniffa í frímínútum í skólanum. Ég byrjaði síðan í hassneyslu og áfengi. Ég flutti einn heim frá Lúxemborg þegar ég var að verða sextán ára gamall. Í rauninni var ég sendur heim og þótti með góða fjarveru. Ég átti að búa hjá bróður pabba og ætlaði að taka mig á en hann var fljótur að henda mér út því það var ekki hægt að umgangast mig á þessum tíma.“

Drakk flösku af  vodka eftir vinnu

Einar segist fljótt hafa byrjað að vinna við að steikja hamborgara langt fram á nótt á veitingastaðnum Smiðjukaffi sem var í Kópavogi. „Ég fór oft ekki heim fyrr en fjögur, fimm á morgnana. Þá tók ég oft með mér eina flösku af Tindavodka og drakk þar til ég sofnaði. Það er ekki eins og ég hafi verið að fara í partí. Þetta var bara neysla.“ Þegar hann kynntist fyrri konunni sinni hætti hann í öllu nema áfenginu en drakk mjög illa. „Ég drakk alltaf tvo, þrjá daga í röð því ég þoldi ekki þynnkuna. Ég segi stundum að ég hafi á tímabili átt minn eigin klefa á lögreglustöðinni á Hverfisgötu því ég var alltaf í einhverju rugli.“ Pabbi Einars er í dag óvirkur alkóhólisti og sama má segja um son hans, Orra, sem er einn stofnenda Áttunnar. „Orri hefur talað opinberlega um þessi mál. Hann hefur nú verið edrú í rúm þrjú ár. Þetta er fjölskyldusjúkdómur. Pabbi hætti þegar hann var tæplega fertugur, ég hætti 27 ára og Orri hætti 23 ára. Það jákvæða er hér að það er alltaf gripið inn í fyrr og meðgöngutími sjúkdómsins styttri áður en farið er í meðferð. Þetta er eitt af því mikilvæga sem SÁÁ getur gert fyrir fjölskyldur.“

„Ógnarstjórn“ Þórarins

Vogur er í raun hryggjarstykkið í starfsemi SÁÁ og vakti mikla athygli á dögunum þegar mikill meirihluti starfsfólks meðferðarsviðs sendi frá sér yfirlýsingu í tengslum við formannskjörið. „Við starfsfólk meðferðarsviðs SÁÁ viljum ekki Þórarin Tyrfingsson sem formann SÁÁ. Okkur þarf ekki að bjarga, starfsandinn er almennt góður og það eitt að fyrrverandi formaður haldi öðru fram er dæmigert fyrir hans stjórnunarstíl, viðhorf og sjónarmið,“ sagði í yfirlýsingunni. Undir hana rituðu 57 starfsmenn en vegna „ótta við viðbrögð Þórarins Tyrfingssonar, sem sýnir kannski í einföldustu myndinni þá ógnarstjórn sem var við lýði þegar hann var við stjórn“, komu einhverjir starfsmenn fram undir nafnleynd.

Spurður út í yfirlýsinguna segir Einar hana ríma vel við það sem hann hafi heyrt frá starfsmönnum, að þeir séu einfaldlega hræddir. En hræddir við hvað? „Ég þori ekki að fara nákvæmlega með það en þeir eru hræddir við afleiðingar þess að koma fram undir nafni ef hann kemst síðan til valda.“ Einar viðurkennir að hann átti sig ekki alveg á framboði Þórarins þegar þessi mikla andstaða er við hann hjá starfsfólkinu. „Ef ég vissi af partíi en heyrði að enginn þar vildi fá mig þá myndi ég ekkert mæta. Ég nota líka oft líkingar úr knattspyrnunni. Í klefanum fyrir leikinn verða allir að vera sammála um hvernig eigi að sækja fram, og allir þurfa að vera á sömu línu um hvernig á að verjast. Þannig vinna liðsheildir. Ef þjálfarinn er hins vegar búinn að missa klefann getur hann ekkert gert. Mér finnst eins og Þórarinn sé að koma inn eins og þjálfari sem er búinn að missa klefann.“

Stutt í léttleikann

Aðspurður hvaða kostum hann hafi yfir að búa sem nýtist í starfi formanns SÁÁ segir hann: „Ég er fylgjandi valddreifingu, teymisvinnu og ég tel mig geta tekið gagnrýni. Fólk segir oft við mig að það sé stutt í léttleikann hjá mér, sem ég tel að skipti líka máli þegar maður er að eiga við svona alvarlega hluti.“ Hann grípur aftur til líkingamáls. „Þegar þú ferð í hjartaaðgerð þá viltu fá hjartalækni sem er með góða menntun, nýtir sér nýjustu tækni og vinnur með teyminu sem kemur að aðgerðinni. Það er aldrei bara einhver einn hjartalæknir sem kemur og sker þig upp. Þetta er teymisvinna. Þannig er það líka með SÁÁ.“

Einar ítrekar mikilvægi þess að hæft fagfólk sinni því veika fólki sem leitar á Vog. „Sjúkrahúsið Vogur er í samskiptum við bráðadeildir, heilsugæsluna, fangelsismálayfirvöld, félagsmálaráðuneytið, heilbrigðismálaráðuneytið, landlækni og fleiri aðila. Það þarf að viðhafa vönduð vinnubrögð til að geta á árangursríkan hátt unnið með öllum þessum aðilum, svo við tölum nú ekki um til að afeitra veika alkóhólista.“

Hann segir að eitt af því sem hingað til hafi ekki mátt ræða innan samtakanna sé nauðsyn félagslegra úrræða, heilbrigðisþjónusta sé ekki nóg ein og sér. „Ef við tökum dæmi af einstæðri ungri konu með lítið barn og á erfitt með að sækja fundi þegar hún kemur úr meðferð er aukin hætta á að hún falli aftur í sama farið. Eins líka með unga krakka sem hafa ánetj ast hassneyslu og eru eftir á í þroska og félagsfærni. Þeim þarf að sinna félagslega eftir meðferðina. Mér finnst mikilvægt að auka þessa hlið og vera ófeiminn við að starfa með fagfólki utan samtakanna. Samvinna er af hinu góða og mun meira af fólki með menntun í fíknifræðum en áður sem hægt er að leita til.“

Einar bendir á að þegar hann kom inn í félagsstarfið, í tíð Gunnars Smára Egilssonar sem formanns, var öflugt félagsstarf í grasrótinni. „Það voru tónleikar, bíósýningar og alls konar klúbbar starfræktir. Ungt fólk í SÁÁ hafði vettvang til að hittast og gera eitthvað skemmtilegt með edrú jafnöldrum. Allt þetta er farið og verður að endurvekja.“

Vill hætta rekstri spilakassa

Spilafíkn hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur en tveir aðilar hafa leyfi til að reka spilakassa, Happdrætti Háskóla Íslands og Íslandsspil. Íslandsspil er í eigu Rauða krossins, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og SÁÁ, sem á minnsta hlutinn, eða 9,5%. Einar hefur verið varamaður í stjórn Íslandsspila fyrir hönd SÁÁ, aldrei setið stjórnarfund en þó sótt tvo aðalfundi. „Frá því ég tók sæti í framkvæmdastjórn SÁÁ hef ég alltaf verið á móti því að samtökin taki þátt í rekstri spilakassa en hef kannski ekki verið nógu harður í því að við ættum að ganga út. Í seinni tíð hef ég kynnt mér þetta betur, rætt við spilafíkla og fólk í bata. Þetta er grimmur sjúkdómur sem, eins og alkóhólisminn, fer ekki í manngreinarálit. Það kom að þeim tímapunkti sem mér fannst nóg komið og nái ég kjöri sem formaður mun ég beita mér í þá veru að við drögum okkur út. Ég geri það þó ekki einn heldur þarf 48 manna aðalstjórn samtakanna að samþykkja það. Ég vil byrja þá vegferð að við gefum þennan hlut frá okkur og séum ekki að stuðla að því að búa til spilafíkla. Ég legg þetta að jöfnu við ef við  myndum fá hluta af hagnaði áfengissölu. Mín afstaða er að við eigum ekki að taka þátt í rekstri spilakassa.“

Ein af þeim rangfærslum sem upp hafa komið að undanförnu er að Valgerður yfirlæknir vilji láta loka legudeild á Vogi í sumar en ekkert er til í því, og raunar sendu Sjúkratryggingar Íslands frá sér yfirlýsingu í vikunni til að árétta þetta. Þá hefur því verið haldið fram að Einar og hans fólk vilji færa SÁÁ til ríkisins. „Það er algjörlega út í hött. Við viljum faglega stjórn og að sjálfsögðu þykir okkur eðlilegt að vera í samstarfi við annað fagfólk.“

Einar telur að sú neikvæðni og það niðurrif sem hefur einkennt umræðuna um SÁÁ að undanförnu muni sannarlega hafa skaðleg áhrif til skamms tíma. „Um leið og ró kemst á og hægt verður að vinna að uppbyggingu tel ég að til lengri tíma hafi þetta ekki skaðleg áhrif. En ef átökin halda áfram verður þetta önnur saga. Ef við gefum okkur að Þórarinn komist til valda má reikna með miklum árekstrum á milli meðferðarsviðs og formanns, sem síðan hefði gríðarleg áhrif á þetta mikilvæga meðferðarúrræði fyrir alkóhólista á Íslandi.“

Hann bendir á að SÁÁ séu ekki bara mikilvæg samtök fyrir fíkla heldur líka aðstandendur. „Það er enginn fegnari en aðstandandi þegar alkóhólisti fer í meðferð. Mæður sofa betur á nóttunni og fá hugarró yfir því að sonur þeirra eða dóttir sé á spítala þar sem er vel hugsað um þau í staðinn fyrir að þau séu á götunni. Samfélagið allt vill vegferð SÁÁ sem mesta enda skipta samtökin allar fjölskyldur máli. Það er oft talað um að þeir sem leggi okkur mest lið séu ömmurnar. Hversu fallegt er það? Þær eru ekki að leggja inn milljónir en hver fimmhundruðkall skiptir máli. Það eru ömmurnar sem þykir vænt um SÁÁ því þær vita hvernig við getum hjálpað.“

Spurður hvort hann sé vongóður um sigur í formannskjörinu segir Einar: „Já, ég er vongóður. Ég tel mig hafa raunhæfan möguleika. Ég held að ég sé hluti af breiðfylkingu sem er fær um að taka SÁÁ áfram sem bæði öflugt grasrótarfélag og öfluga heilbrigðisstofnun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri
Fréttir
Í gær

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Í gær

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
Fréttir
Í gær

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Í gær

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“
Fréttir
Í gær

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“