Ferðaþyrstir Íslendingar geta verið spenntir fyrir ferðalögum innanlands í sumar. Nóg er í boði af gistingu og afþreyingu. Facebook hópurinn „Landið mitt Ísland“ sem stofnaður var nýverið er hugsaður fyrir ferðaþjónustu til að deila sinni þjónustu með landsmönnum.
„Ég sá vin minn á Facebook tala um hversu litlar upplýsingar er að finna á netinu um ferðalög innanlands,“ segir Sigvaldi Kaldalóns sem nýverið flutti til landsins frá Tenerife og annar af stofnendum hópsins. „Ég fór að skoða þetta og lenti mikið inni á bókunarsíðum en átti erfitt með að fá góðar upplýsingar um hvað er hægt að gera. Mikill meirihluti ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi einblínir á útlendinga. Mér datt því í hug að stofna hóp þar sem ferðaþjónustufyrirtæki geta komið sér á framfæri og það er mjög hentugt að hafa þetta allt á einum stað.“
Færslur í hópnum eru flokkaðar eftir landshlutum og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Dæmi um þjónustu sem auglýst er í hópnum er fótboltagolf á Markavelli hjá Flúðum. Markavöllur er eini 18 holu fótboltagolfvöllur landsins. Sé stefnan tekin Vestur verður kaffihúsið Litlibær í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi opinn í sumar. Opnað verður í lok maí og verður meðal annars boðið upp á kaffi og vöfflu á 1.200 kr.
Margs konar gisting er í boði víðs vegar um landið. Camp Boutique bjóða upp á lúxus gistingu í innréttuðum og upphituðum tjöldum. Tjöldin eru staðsett við Stokkseyri á Suðurlandi og á Vaði í Þingeyjarsveit á Norðurlandi.
Gönguferðir og siglingar er dæmi um afþreyingu sem hægt er að finna á hópnum. Einnig er hægt að senda inn fyrirspurnir ef verið er að leita að einhverju ákveðnu.
Meðlimir hópsins sem var stofnaður 24. apríl síðastliðinn eru rúmlega 28.500 og fer þeim fjölgandi.