Ragnar Davíð Bjarnason, sem sakfelldur hefur verið fyrir líkamsárás gegn tveimur bræðrum í Garðabæ fyrir fjórum árum, þarf að sitja af sér fangelsisdóm þó að svo langt sé liðið frá brotinu og rannsókn þess og meðferð í dómskerfinu hafi dregist mikið. Þetta staðfesti Landsréttur í dag en lækkaði nokkuð skaðabætur til þolendanna.
Þess má geta að Ragnar var sjálfur stunginn með hnífi í Kaupmannahöfn árið 2008. Hann hefur verið dæmdur fyrir nokkur önnur afbrot og árið 2001 var hann dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir tilraun til manndráps.
Ragnar var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir árásina gegn bræðrunum seint í nóvember árið 2018. Annan bróðurinn skar hann með hnífi í andlit og í upphandlegg með þeim afleiðingum að hann hlaut þriggja sentimetra langan skurð á hægri kinn. Hinn bróðurinn skar hann með hnífi í framhandlegg og upphandlegg vinstra megin og beit hann í andlitið. Afleiðingar þessa voru að hann hlaut tíu sentimetra langan skurð á vinstri framhandlegg sem náði í gegnum vöðvafell og inn í vöðvabúk, sem sauma þurfti saman með sextán sporum. Hann hlaut jafnframt bitsár á kinn.
Í héraði var Ragnar dæmdur í 20 mánaða fangelsi og til að greiða hvorum bróðurnum fyrir sig 800 þúsund krónur, samtals 1,6 milljónir. Einnig þurfti hann að greiða háar upphæðir í málskostnað og í málsvarnarlaun til verjanda síns.
Málinu var áfrýjað til Landsréttar. Ríkissaksóknari krafðist þess að refsingin yfir Ragnari yrði þyngd. Ragnar krafðist sýknu en til vara að honum yrði gerð vægasta refsing sem lög leyfi og að refsing yrði skilorðsbundin að hluta eða að öllu leyti. Þá krafðist hann þess að að skaðabótakröfum yrði vísað frá dómi en til vara að þær yrðu stórlega lækkaðar.
Í málsvörn sinni bar Ragnar fyrir sig að hann hefði beitt neyðarvörn gegn öðrum bræðranna en ekki var fallist á það, hvorki í héraði né í Landsrétti. Meðal þess sem vann gegn honum í sönnunarfærslunni var framburður vitna, tveggja kvenna, sem sögðu að hann hafði virst agressífur og í annarlegu ástandi í aðdraganda atburðarins.
Sem fyrr segir hefur málið dregist í kerfinu og segir Landsréttur að tafirnar séu ámælisverðar. Brotið sé hins vegar þess eðlis að hvorki sé hægt að milda fangelsisdóminn né skilorðsbinda fangelsisrefsinguna:
„Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir var framið 15. maí 2016. Rannsókn málsins lauk 23. júní 2016 en ákæra var ekki gefin út fyrr en 24. nóvember 2017 eða um 17 mánuðum frá því að rannsókn lauk. Áfrýjunaryfirlýsing ákærða barst ríkissaksóknara 20. desember 2018. Dómsgerðir héraðsdóms bárust ekki ríkissaksóknara fyrr en 25. júní 2019, eða um sex mánuðum síðar, auk þess sem þá liðu enn um fjórir mánuðir þar til málsgögn voru afhent Landsrétti 21. október sama ár. Sá dráttur sem orðið hefur á málinu af þessum sökum og ákærða verður ekki um kennt er ámælisverður. Verður til þess litið við refsiákvörðun en eins og atvikum máls er háttað kemur hvorki til greina að skilorðsbinda refsingu ákærða né að milda refsingu hans frá því sem ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi. Að því athuguðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verða ákvæði hans um refsingu ákærða og frádrátt gæsluvarðhaldsvistar staðfest.“
Niðurstaða Landsréttar var því 20 mánaða fangelsi og ekkert af þeim tíma skilorðsbundið. Skaðabætur Ragnars til bræðranna voru hins vegar lækkaðar niður í 600.000 krónur á hvorn bróður. Auk þess þarf hann að greiða allan áfrýjunarkostnað, tæplega 1,2 milljónir.