fbpx
Mánudagur 18.ágúst 2025
Fréttir

Nýjar upplýsingar í máli Stefáns sem er ákærður fyrir morð

Auður Ösp
Föstudaginn 8. maí 2020 17:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefán Phillip Gíslason, 28 ára Íslendingur í Pensacola Flórída, hefur verið ákærður fyrir morð af annarri gráðu. Verði hann fundinn sekur getur hann átt lífstíðardóm yfir höfði sér.

DV greindi frá málinu þann 22. apríl síðastliðinn. Stefán er ákærður fyrir að hafa orðið vini sínum, hinum 32 ára Dillon Shanks, að bana á heimili sínu aðfaranótt 20.apríl.

Stefán á íslenskan föður og bandaríska móður. Hann var kornabarn er hann fluttist með foreldrum sínum til Flórída og hefur búið þar alla ævi. Móðir Stefáns er fimmtug og faðir hans 55 ára og hefur fjölskyldan búið í Pensacola allar götur síðan árið 1991. Faðir Stefáns er hagfræðingur og háskólakennari.

Meirihluti stórfjölskyldunnar býr hins vegar á Íslandi. Ættingjar Stefáns hafa viljað láta hafa sáralítið eftir sér um málið en segja að það sé hræðilegt fyrir alla í fjölskyldunni og hafi komið öllum í opna skjöldu.

Atburðurinn átti sér stað aðfaranótt mánudagsins 20. apríl síðastliðins. Vitni heyrðu skotið af byssu. Í lögregluskýrslum sem DV hefur undir höndum kemur fram að Stefán hafi haft samband við lögreglu aðfaranótt mánudags og tilkynnt að vinur hans hefði framið sjálfsvíg. Fram kemur að Stefán hafi verið „ölvaður“.

Lögregla kom á vettvang. Fram kemur að lögregluþjónar hafi komið að Dillon Shanks látnum inni í svefnherbergi sem hafi verið innan af bílskúr í húsinu. Tjáði Stefán lögreglunni að Dillon hefði gist í herberginu. Fram kemur í skýrslunni að hinn látni hefði „legið í blóðpolli og verið með skotsár á hnakkanum.“

Fyrir utan húsið voru þrjár bifreiðar, ein af þeim í eigu Stefáns, ein í eigu hins látna og ein í eigu konu sem einnig varð vitni að atburðunum. Sú kona tjáði lögreglu að hún hefði fyrr um kvöldið séð Stefán og Dillon rífast fyrir utan húsið. Stefán hefði skyndilega dregið upp skotvopn og síðan elt Dillon inn í húsið. Því næst heyrðist skothvellur innan úr húsinu. Sagðist konan hafa farið inn í húsið og þá komið að Dillon látnum inni í svefnherberginu. Segir hún Stefán hafa sagt við sig að hann hefði skotið Dillon.

Þá kemur fram í lögregluskýrslu að rætt hafi verið við annað vitni. Sá maður var einnig gestur í húsi Stefáns þetta kvöld og sagðist hafa orðið vitni að rifrildi þeirra Dillon og Stefáns. Maðurinn sagðist hafa verið á leiðinni út úr húsinu þegar hann heyrði byssuhvell. Þá tjáði hann lögreglu að tæpri klukkustund áður hefði hann séð til Stefáns í bakgarðinum við húsið. Þar hefði Stefán skotið úr byssunni í jörðina.

Maðurinn staðfesti að Stefán og Dillon hefðu rifist og Stefán hefði dregið upp skotvopn. Sama vitni sagðist einnig hafa heyrt hleypt af byssu inni í húsinu skömmu síðar.

Fram kemur að Stefán hafi verið fluttur á lögreglustöðina í Pensacola. Við yfirheyrslu játaði hann að hafa skotið Dillon Shanks. Nokkrar byssur fundust í húsinu. Í dómsskýrslu héraðsdóms í Escambia, sem DV hefur einnig undir höndum, kemur fram að Stefán hafi mætt fyrir dóm þann 21. apríl síðastliðinn. Neitaði hann sök í málinu og fór fram á réttarhöld með kviðdómi, en sakborningar í Bandaríkjunum eiga stjórnarskrárbundinn rétt á því að setja fram slíka kröfu. Var honum gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðahaldi, ella greiða eina milljón dollara í tryggingargjald.

Þá var honum gert að afhenda bandarískum yfirvöldum vegabréfið sitt. Þann 24. apríl síðastlinn lagði lögregla fram beiðni um húsleitarheimild hjá Stefáni. Meðal annars kemur fram í beiðninni að sönnunargögn á vettvangi geti gefið vísbendingar um hvar fórnarlambið var skotið og úr hvaða átt. Þá er talið að rannsókn á byssuskotum geti hugsanlega stutt við fullyrðingu fyrrnefnds vitnis um að Stefán hafi skotið úr byssunni í bakgarðinum fyrr um nóttina.

Þann 25.apríl lagði lögregla hald á tvær byssukúlur sem fundust á heimili Stefáns. Þá kemur fram í skýrslu lögreglu frá 20. apríl síðastliðnum að meðal annars lagt hafi verið hald á sex byssur, bæði riffla og haglabyssur, byssukúlur og skothylki.

Stefán er ákærður fyrir morð af annarri gráðu sem samkvæmt lögum í Flórída er morð sem framið er vísvitandi en ekki af yfirlögðu ráði. Næsta fyrirtaka í málinu fer fram þann 14. maí næstkomandi.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Íslensk kona kynntist draumaprinsinum á stefnumótaforriti – ChatGPT staðfesti að svik voru í tafli

Íslensk kona kynntist draumaprinsinum á stefnumótaforriti – ChatGPT staðfesti að svik voru í tafli
Fréttir
Í gær

Meintur níðingur á Múlaborg vel liðinn og sagður blíður við börn

Meintur níðingur á Múlaborg vel liðinn og sagður blíður við börn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pris fagnar ársafmæli – Segja fjölskyldur spara tugi eða hundruði þúsunda árlega

Pris fagnar ársafmæli – Segja fjölskyldur spara tugi eða hundruði þúsunda árlega
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leikskólastarfsmaður grunaður um kynferðisbrot gegn barni

Leikskólastarfsmaður grunaður um kynferðisbrot gegn barni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Starfsmaður fiskvinnslufyrirtækis lagði fram kæru eftir að hafa verið sagt að mæta í vinnuna í vinnslustöðvun

Starfsmaður fiskvinnslufyrirtækis lagði fram kæru eftir að hafa verið sagt að mæta í vinnuna í vinnslustöðvun
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Stefán segir skemmdarfýsn hafa ráðið för í Tjarnargarðinum – „Það hefur þurft að hafa ansi mikið fyrir þessu“

Stefán segir skemmdarfýsn hafa ráðið för í Tjarnargarðinum – „Það hefur þurft að hafa ansi mikið fyrir þessu“