Davíð Þorláksson, bakþankahöfundur Fréttablaðsins, segir að nauðsynlegt að gefa lífvænlegum fyrirtækjum kost á því að leggjast í híði um tíma. Hann segir það vera mun ódýrari leið en gjaldþrot.
Davíð ritar:
„Þótt það stefni í að Íslendingar verði duglegir að ferðast innanlands í sumar þá er ljóst að það er langur vegur í að það geti komið í stað tekna af ferðamönnum. Ekkert annað land á Vesturlöndum er hlutfallslega jafn háð ferðamennsku eins og Ísland.“
Davíð segir að mun kostnaðarsamara sé að stofna ný fyrirtæki til að taka við af þeim sem gætu farið í þrot í kórónuveirukreppunni en að leyfa sem sem fyrir fyrir eru að lifa af tekjuleysi og fara í gang aftur þegar ástandið verður betra. Ekkert gerist af sjálfu sér í viðskiptum eins og dæmin sanni:
„Það er lítið annað hægt að gera en að gefa þeim fyrirtækjum, sem eru lífvænleg til lengri tíma, kost á því að leggjast í híði. Með því er best tryggt að auðvelt verði að setja í gang aftur og fara í öflugt markaðsátak þegar ferðalög hefjast í okkar heimshluta. Dæmin sanna að ef fyrirtæki fara í þrot þá getur tekið langan tíma að koma sambærilegri starfsemi af stað aftur. Þannig voru arftakar Wow air t.d. ekki komnir af stað áður en kórónakreppan skall á þótt það væri tæpt ár liðið frá gjaldþroti Wow.
Það gerist nefnilega ekkert af sjálfu sér í viðskiptum. Það þarf að standa vörð um fjárfestingar, hugvit og önnur verðmæti svo við getum fengið vorboðann til að koma hingað, og tekið vel á móti honum, næst þegar færi gefst.“