„Það er kominn annar andi í landann og innkaupin fylgja því,“ segir Sigurður Reynaldsson Framkvæmdastjóri Hagkaups. „Það hefur verið athyglisverð þróun síðustu vikur. Þetta byrjaði eins og við séum að fara í stríð. Menn fara að kaupa sér niðursuðumat, pasta og klósettpappír og hætta að kaupa snyrtivörur. Það verður breytt neyslumynstur við þessar aðstæður, við erum bara að fara í stríð,“ segir Sigurður en síðustu tvær vikur hafa innkaup breyst mikið.
„Eftir að sólin fór á loft þá er alveg ljóst að það er verið að grilla. Við erum búnir að vera sveitt við að fylla á grillmat og svo seljast grillin upp líka. Við höfum verið að kalla út menn til að útvega okkur grill og láta opna kjötvinnslurnar til að tryggja meira grillkjöt. Þessi gamli frasi með beljurnar á vel við núna. Við ætlum að njóta lífsins.“
Einhverjar vörur þola ekki hækkun
Aðspurður um hvort innflutning og vöruframboð segir Sigurður að það sé engin ástæða til að hamstra. „Það er enginn skortur eða slíkt. Almennt er þetta í lagi varðandi innflutning og flest er til. Það sem mun aðalega breytast er að gengið er að breytast líkt og við sáum í hruninu. Það getur verið að einhverjar vörur verði of dýrar og þoli ekki verðhækkunina. Til dæmis er innflutt sósa sem þú ert tilbúin að borga 800 krónur fyrir kannski að fara að detta út ef hún er komin í 1100 krónur. Innfluttar vörur þola misvel 10-12% hækkun líkt og sást í hruninu. Heilt yfir eins og ástandið var slæmt á Ítalíu þá lokuðu engar verksmiðjur, það var framleitt pasta áfram svo það er enginn vöruskortur,“ segir Sigurður og segir gengið vera það sem muni hafa mest áhrif í bland við erfiðari stöðu hjá heimilunum sökum atvinnuleysis.
Grillaður kjúklingur og nammibarinn
Að grípa með sér tilbúinn kjúkling eru lífsgæði sem margir sakna en nú geta kjúklingaunnendur tekið gleði sína á ný. „Við munum byrja að grilla kjúklinga á morgun. Hann verður pakkaður, við seljum ekki franskar eða sósu til að byrja með. Nær mánaðarmótum opnum við svo salatbarinn og sælgætisbarinn. Við breytum nammibarnum eitthvað en hann mun opna.“
Sigurður segir að eftirvæntingin eftir salatbarnum sé þó mun meiri að nammibarnum. „Okkur var í raun aldrei sagt að loka nammi- og salatbarnum. Við í raun sáum bara að fólk var hætt að versla. Við opnum bara hluta þessara eininga í völdum verslunum og sjá hvort að landinn sé tilbúin í það. Það er spenningur fyrir salatbarnum. Eflaust einhverjir sem hafa bætt á sig nokkrum kílóum í þessu ástandi.“
Netverslunin komin til að vera
„Við ætlum að halda áfram með netverslunina og í raun flýttum ferlinu sem við ætluðum í. Við erum að skoða framtíðarplön fyrir netverslun Hagkaups sem þýðir snyrtivörur, matvara og leikföng. Við styttum okkur í raun bara leið til að bregðast við aðstæðum. Þetta er því ekki útlitið sem við ætlum að vera með. Við munum keyra þessa verslun þar til að við opnum nýja og stærri netverslun en það er alveg eitt og hálft ár í hana,“ segir Sigurður sem er bjartsýnn á framhaldið. Reiðhjól sem áttu að endast til áramóta eru að verða uppseld og mikil eftirvænting er eftir uppblásnum pottum sem koma á næstum vikum. Það er því ljóst að sumarið verður tekið alla leið í mörgum görðum.