Hilmar Haukur Friðriksson póstburðarmaður á Vogum í Vatnsleysuströnd grætti ófáa íbúa í bænum í síðusut viku þegar hann tilkynnti um starfslok sín. Hilmar hefur unnið hugi og hjörtu margra eftir að hann byrjaði að bera út póstinn í bænum og er einstaklega vel liðinn. Margir tóku fregnunum því óstinnt upp.
Á vef Víkurfrétta kemur fram að Hilmar hefði tilkynnt þessar sorgarfregnir inn á facebooksíðu fyrir íbúa í Vogunum. Miðvikudagurinn 29.apríl var seinasti vinnudagurinn hans í Vogum á Vatnsleysuströnd en hann mun taka við sem póstburðarmaður í Grindavík.
„Ég reynt allt til að stöðva þetta og fá að vera áfram í Vogum, en því miður gat ég það ekki, þetta er ekki eitthvað sem ég vildi,“ ritaði póstburðarmaðurinn ástsæli og þakkaði íbúum bæjarins um leið fyrir fallegar móttökur. „Þið hafið tekið mér ótrúlega vel hérna í Vogunum og vil ég þakka kærlega fyrir það.“
Fjölmargir íbúar hafa skrifað athugasemdir undir færslu Hilmars þar sem þeir harma brotthvarf hans.
„Við höfum aldrei upplifað eins góða þjónustu með þig í fararbroddi, það verður mikil missir að missa þig elsku vinur. Ég mótmæli þessu hér með og krefst þess að þú verðir hér áfram,“ ritar einn.
Annar skrifar: „Takk fyrir frábæra þjónustu við okkur bæjarbúa. Þú átt heiður skilinn fyrir traustan og ábyrgan póstburð í öllum veðrum og alla daga. Gangi þér vel á nýja staðnum og vonandi gera yfirmenn þínir sér grein fyrir því hversu dýrmætur starfsmaður þú ert“.
Þá er einn í hópnum sem spyr mikilvægrar spurningar:
„Hver á þá að koma með allt aliexpress draslið mitt til mín?“