Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 2.739 milljónum króna í mars, samkvæmt tilkynningu frrá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta er fjórði stærsti mánuður frá upphafi hvað varðar útflutningsverðmæti, hvort sem mælt er í krónum eða erlendri mynt. Þetta er um 27% aukning í krónum talið frá mars í fyrra. Aukningin er ívið minni í erlendri mynt út af veikingu krónunnar en engu að síðu myndarleg, eða rúm 17%. Magnaukningin er svipuð, eða tæp 18%.
Sé tekið mið af fyrstu þremur mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 8,2 milljarða króna. Það er 26% aukning í krónum talið á milli ára en rúm 21% í erlendri mynt. Þyngst vegur útflutningsverðmæti á eldislaxi en það er komið í rúma 6,4 milljarða króna samanborið við 5,1 milljarð á sama tímabili og í fyrra.
Þetta eru góð tíðindi á sama tíma og tekjur af ferðaþjónustu hafa nánast þurrkast út og tekjur af útflutningi á ferskfiski hafa dregist mjög saman.