Tólf greindust með kórónuveiruna á Íslandi síðastliðinn sólarhring. Sjö af þessum 12 voru í sóttkví. Heildarfjöldi smitaðra er kominn upp í 1739. Búið er að prófa 11% af þjóðinni.
Þrjátíu og þrír liggja á Landspítalanum með COVID-19 og tveir á Akureyri. Fimm eru í gjörgæslu á Landspítala og einn á Akureyri. Þrír eru í öndunarvél á Landspítala og enginn á Akureyri.
Álag á Landspítalann er að minnka, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi dagsins um COVID-19.
Vinna er í gangi um hvernig eigi að stýra komum ferðamanna hingað til lands. Von er á niðurstöðum starfshóps öðru hvorum megin við helgina. Sóttvarnalæknir mun útbúa minnisblað til ráðherra byggt á þeim niðurstöðum.
Þórólfur minnir á að allir sem koma hingað til lands, að frátöldum erlendum ferðamönnum, þurfi að fara í fjórtán daga sóttkví við komuna til landsins.