Lúxus rafmagnsbílar frá bandaríska framleiðandanum Tesla mokseljast hérlendis en almenn bílasala hefur dregist gífurlega saman og ekki síst eftir að kórónuveiran fór að láta til sín taka.
Bílaleigur hafa jafnan verið að endurnýja bílaflota sína um þetta leyti en nú hafa afbókanir á bílapöntunum verið miklar enda stefnir í mikinn samdrátt í ferðaþjónustu.
3-4 mánaða bið eftir bíl
Forsvarsmenn Tesla á Íslandi segja lítið vera um afbókanir hjá þeim og að enn sé biðlisti. „Ég held að ég hafi aldrei séð áður dæmi um að sala á nýju markaðssvæði hafi rokið svo hratt upp í að vera mest selda vörumerkið,“ segir Even Sandvold Rolans, samskiptastjóri hjá Tesla. Það sem af er ári, hafa 403 Tesla-bifreiðar verið nýskráðar hérlendis. Tesla opnaði ekki fyrir sölu fyrr en í febrúar. Enn bætist á biðlistann en sá sem pantar sér raffákinn eftirsótta þarf að sætta sig við að bíða fram í júní eða jafnvel júlí eftir að fá hann afhentan. Sérpöntun á almennum bílum frá Evrópu er almennt tveir til þrír mánuðir en jafnvel lengra sé bíllinn frá öðrum heimsálfum.
Til að byrja með voru bílarnir dýrir en með nýjum og einfaldari útgáfum er verðið komið niður í rúmlega 5,1 milljón og er ódýrasta týpan sú mest selda hérlendis en sú dýrasta er á 12,2 milljónir. Tesla á Íslandi er alfarið í eigu bandaríska móðurfyrirtækisins Tesla Inc en ekki er um útibú að ræða í eigu íslenskra aðila líkt og Toyota eða Hekla sem eru sjálfstæð fyrirtæki og innflytjendur vörumerkja hérlendis. Því situr lítið sem ekkert eftir af fjármunum í landinu þegar verslað er við Tesla að frádregnum kostnaði við sölu, svo sem vegna starfsmannahalds og húsakynna. Rafmagnsbílar eru án bifreiða- og innflutningsgjalda og bera mun lægri virðisaukaskatt.
Endurgreiða að fullu
En hvað er svona merkilegt við þennan bíl? Skyldi það vera að forstjóri fyrirtækisins þykir einn mesti hugsuður okkar tíma eða er bíllinn sjálfur svona stórkostlegur? Elon Musk, forstjóri Tesla, hefur ítrekað komið sér vel fyrir á listum Forbes yfir valdamestu og ríkustu einstaklinga heims auk þess að vera ötull talsmaður endurnýjanlegrar orku. Bíllinn sjálfur er nokkuð mínímalískur og einfaldur í útliti. Straumlínulagaður og laglegur en í raun engin glæsikerra en þykir ákaflega lipur og auðvitað umhverfisvænn. Hrein samviska í bland við skilafrest er einnig sterkur sölupunktur sem fangar kaupglaða Íslendinga en viðskiptavinir mega skila bifreiðinni innan sjö daga að því gefnu að hún hafi ekki verið ekin meira en 1.600 km og fá endurgreitt að fullu.