„Það er verið að opna smám saman aftur hér á Tenerife og mér finnst fólk farið að róast. Það er afslappaðra,“ segir Hannes Guðmundsson, Íslendingur sem búsettur er á Tenerife. Þar hefur ríkt útgöngubann en örlítið er byrjað að slaka á hömlum:
„Fólki verður leyft á morgun, mánudag, að mæta aftur til vinnu en þeir sem geta unnið að heiman eru hvattir til að gera það áfram. Útgöngubannið er enn í fullu gildi til 26. apríl. Fólk er hvatt til að nota grímur ef það notar almenningssamgöngur. Ekki er nauðsynlegt að nota grímur á almenningssvæðum. Passa bara að hafa fjarægð milli fólks 2 metra. Einnig er leyfilegt að fara út í búð með börn sem geta ekki verið ein heima,“ segir Hannes og gildir þetta um spænsk landsvæði, Spán, Tenerife og Kanaríeyjar.
Heildartala smitaðra á Tenerife og Kanaríeyjum er ekki ýkja há en tala látinna er það, miðað við Ísland, samkvæmt Hannesi:
„Heildartala smitaðra er 1918. Þar af eru 1216 á Tenerife en 80% af þeim eru á norðurhluta eyjarinnar. Á Kanarí eru 485 smit. Þeir sem hafa náð sér af kórónaveirunni eru 394. Dauðsföll eru 95, aðallega eldri borgarar yfir áttrætt og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Virk smit eru því 1524. Engin dauðsföll hafa orðið síðasta sólarhringinn.“
Fyrsta COVID-19 tilfellið á Tenerife greindist snemma í febrúar á eyjunni La Gomera.