fbpx
Þriðjudagur 07.apríl 2020
Fréttir

Vinsælustu fegrunaraðgerðir á Íslandi: „Þú sprautar ekki bótox í enni sem er alveg slétt“

Auður Ösp
Laugardaginn 25. janúar 2020 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bótox trónir á toppnum sem vinsælasta fegrunaraðgerðin hér á landi, líkt og síðustu ár. Sérfræðingar erlendis spá áframhaldandi vinsældum bótoxmeðferða og sama gildir um aðgerðir með fyllingarefnum. Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir segir í samtali við DV að öfgakennt útlit, í anda stjarna á borð við Kim Kardashian, sé ekki komið til að vera, heldur hafi það færst í aukana að konur vilji hafa útlitið sem náttúrulegast.

35 ára og upp úr

Bótoxmeðferðir hafa verið framkvæmdar hér á landi síðan árið 2009 og tekur Þórdís undir með þeim sem segja að það sé ein allra vinsælasta fegrunaraðgerðin í dag. Algengasti aldurshópurinn, bæði meðal karla og kvenna, er 35–55 ára. Vitað er að sumar ungar konur á Vesturlöndum fara í sína fyrstu bótoxsprautun snemma á þrítugsaldri. Þórdís segist ekki kannast við að hér á landi leiti svo ungar konur í bótoxmeðferðir. „Enda eru engar hrukkur komnar á þessum aldri, og bótox er notað til að slétta úr hrukkum, það virkar ekki beint sem fyrirbyggjandi. Þú sprautar ekki bótox í enni sem er alveg slétt.“

Kim Kardashian á Met Gala 2019.

Þá segir Þórdís að meðferðir með fyllingarefnum hafi komið sífellt sterkari inn undanfarin ár. „Það er nóg að gera í bæði bótox og fyllingarefnum og margir koma í þetta saman, það er algengt að fólki geri það.“

Í apríl síðastliðnum greindi DV frá því að varafyllingar væru orðnar afar algengar hjá fólki á öllum aldri, í öllum þjóðfélagshópum. Fram kom að nokkrir þjóðþekktir Íslendingar hefðu tekið virkan þátt í að skapa þennan sterka tískustraum, til að mynda Ásdís Rán Gunnarsdóttir og Manuela Ósk, auk samfélagsmiðlastjarna á borð við Tönju Ýri, Öldu Coco og Sunnevu Einars. Ágúst Birgisson lýtalæknir sagði í samtali við DV að „líklega væri þetta „aðal trendið“ í dag. Fram kom að það væru aðallega tveir hópar að sækja í varafyllingar: ungar konur og svo aðeins eldri konur þar sem varirnar væru farnar að þynnast og þær vildu fá aftur hið fyllta útlit.

Aðspurð segist Þórdís þó ekki telja að hér sé á ferð „lúkk“ sem sé komið til að vera. „Ég held að þetta sé afmarkaður hópur, ég held að þetta sé ekki eitthvert „trend,“ þó að þetta sé áberandi á einhverjum manneskjum sem við sjáum til dæmis í fjölmiðlum. Þetta er mjög ýkt. Ég upplifi það frekar að konur séu farnar að sækja meira en áður í þetta náttúrulega útlit, til dæmis þegar kemur að brjóstum. Það koma alltaf einhverjar bylgjur, stórir brjóstapúðar, minni púðar, en núna finnst mér þetta vera farið að færast í áttina að því að hafa þetta sem náttúrulegast, hvort sem það eru til dæmis minni púðar eða þá brjóstaupplyfting án þess að nota púða.“

Augnlokaaðgerðir algengar

Þegar komi að skurðaðgerðum segir Þórdís augnlokaaðgerðir vinsælastar, en svo virðist sem slíkar aðgerðir séu almennt „samþykktar“ í samfélaginu. Sú aðgerð miðar að því að opna augnsvæðið, þar sem húðin á því svæði verður slappari og þyngri eftir því sem fólk eldist. Ketó, lágkolvetnamataræði og föstur hafa tröllriðið landanum undanfarin misseri. Þá hefur orðið sprenging í svokölluðum magaminnkunaraðgerðum. Þórdís segir sífellt fleiri sækja í svokallaðar svuntuaðgerðir í dag og telur ekki ólíklegt að einhver tenging sé þarna á milli. Þegar fólk missi mörg kíló myndist fellingar, en með svuntuaðgerð er verið að fjarlægja slappa og hangandi húðfellingu framan á  kviðnum. Konur sem hafa gengist undir keisaraskurð sækja einnig mikið í slíkar aðgerðir.

Ekkert eftirlit

Undanfarin misseri hafa auglýsingar um ýmsar fegrunaraðgerðir orðið afar áberandi á samfélagsmiðlum, þá ekki síst aðgerðir þar sem verið er að fylla í í varir, kinnbein, höku, og kjálkalínu eða undir augu. „Þetta er bara sprenging,“ sagði Björn Geir Leifsson, yfirlæknir hjá Landlæknisembættinu, í samtali við RÚV í nóvember síðastliðnum. „Þetta er orðið svo vinsælt og svo mikill markaður að erlendir læknar eru byrjaðir að hafa samband til að spyrjast fyrir um hvað þeir þurfi að gera til að sprauta í fólk.“ Greint var frá því að fegrunaraðgerðum þar sem hyaluron-sýru er sprautað í varir og hrukkur hafi fjölgað mjög. Um er að ræða eftirlitslausar aðgerðir sem framkvæmdar eru af ófaglærðum aðilum. Fylliefnaaðgerðir flokkast ekki sem heilbrigðisþjónusta og falla því ekki undir eftirlit Landlæknis, öfugt við bótox.

Þá kom fram að Landlæknir væri að vinna að tillögum til heilbrigðisráðuneytisins að úrbótum, en brýn þörf væri á því að endurskoða lagaumhverfið. „Þarna er farið inn í líkama fólks með efnum. Það þarf að hafa eftirlit með því hverjir gera það og hvernig og með hvaða efnum,“ sagði Björn Geir jafnframt.

Þórdís segist fagna þessari umræðu, enda sé hún löngu tímabær. „Ég hef fengið á stofuna til mín fólk sem hefur lent í hrellingum eftir að hafa gengist undir meðferð hjá ófaglærðu fólki. Mér finnst það vera með ólíkindum hversu lítið eftirlit hefur verið með þessari starfsemi; þú þarft ekki að uppfylla ákveðin skilyrði, þú ferð á námskeið og opnar svo stofu þar sem þú situr og sprautar í fólk. Ég fagna þessari umræðu hjá landlæknisembættinu. Ég vona að það verði loksins farið að taka til hendinni í þessum málum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Goðsögn féll frá
Fréttir
Í gær

Kona fannst látin í Hafnarfirði – Tveir handteknir vegna málsins

Kona fannst látin í Hafnarfirði – Tveir handteknir vegna málsins
Fréttir
Í gær

Risaköngulær á Íslandi

Risaköngulær á Íslandi
Fréttir
Í gær

Enn vantar hjúkrunarfræðinga á Vestfirði

Enn vantar hjúkrunarfræðinga á Vestfirði
Fréttir
Í gær

Þórólfur ánægður: „Við erum undir bestu kúrvu sem er bara mjög ánægjulegt“

Þórólfur ánægður: „Við erum undir bestu kúrvu sem er bara mjög ánægjulegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi COVID-sjúklingur opnar sig um veikindin: „Mér brá verulega“

Fyrrverandi COVID-sjúklingur opnar sig um veikindin: „Mér brá verulega“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Staðfest smit 1417 og tæplega 12 þúsund hafa lokið sóttkví

Staðfest smit 1417 og tæplega 12 þúsund hafa lokið sóttkví