Það verður áfram leiðinlegt veður víða um land og eru ýmist gular eða appelsínugular veðurviðvaranir í gildi en þó einna helst á vesturhluta landsins.
Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu til klukkan 17 í dag, en í viðvörun Veðurstofunnar segir að hríðarveður verði á svæðinu:
„Suðvestan 15 til 23 m/s með éljagangi. Búast má við takmörkuðu eða lélegu skyggni í éljum, versnandi akstursskilyrðum og samgöngutruflunum, einkum í efribyggðum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“
Gul viðvörun er einnig í gildi á Suðurlandi, Faxaflóa, Ströndum og Norðurlandi vestra og á Miðhálendinu. Þar er ýmist búist við snjókomu, éljagangi eða skafrenningi og lélegu skyggni. Ferðaveður á þessum slóðum verður slæmt og er fólki bent á að sýna varkárni.
Appelsínugular viðvaranir eru í gildi á Breiðafirði og á Vestfjörðum. Þar má búast við hríðarveðri fram á kvöld og verður vindur á bilinu 20 til 28 metrar á sekúndu.
„Lélegt skyggni, einkum í éljum, og áfram slæm akstursskilyrði. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi,“ segir í viðvörun Veðurstofunnar.