Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Hefur blaðið eftir Ómari Valdimarssyni, lögmanni, að hann myndi reka svona mál ókeypis fyrir dómi upp á von og óvon um að dómurinn myndi dæma málskostnað þegar fyrirtækið yrði sakfellt.
Eins og fram hefur komið í fréttum þurftu björgunarsveitir að selflytja hópinn niður af Langjökli og niður að Gullfossi. Margir voru mjög kaldir og höfðu óttast að sleppa ekki á lífi úr þessari svaðilför.
„Það er ótrúlegt að þessu fyrirtæki skuli detta það í hug að þvælast með allan þennan hóp af fólki upp á jökul þegar það er búið að spá meiriháttar vestanhvelli.“
Hefur Fréttablaðið eftir Ómari sem bætti við:
„Í einhverri græðgi þá drattast þeir með fullt af fólki þarna upp og geta þakkað fyrir að hafa ekki drepið það. Ég held að það sé klár miskabótaskylda hjá þessu fyrirtæki.“
Sagði hann og benti á ekki séu nema þrjú ár síðan þetta sama fyrirtæki var dæmt til að greiða hjónum miskabætur eftir svipaða ævintýraferð.
Fréttablaðið segir að nokkrir ferðamannanna hafi leitað til Lilju Margrétar Olsen, lögmanns hjá Kötlu lögmönnum, vegna málsins. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði hún að fólki muni gera kröfu á hendur Mountaineers of Iceland.