Ragnar Rúnar Þorgeirsson, sjómaður er í sjokki en hann lenti í óþægilegu atviki um hádegisleytið þegar hann var að keyra niður Reykjavíkurveginn.
Ragnar lýsir því í færslu sem hann setti á Facebook-síðu sína hvernig ung stúlka á hjóli sem var á aldrinum 6 til 7 ára sveigði óvænt fyrir hann. Sem betur fer tókst Ragnari að stöðva bílinn. Hann telur að ekki hafi verið meira en tveir metrar í stelpuna þegar bifreiðin nam staðar.
„Ég er í svo miklu sjokki að ég er gráti nær, þetta hefði getað endað alveg hræðilega, hefði ég keyrt á barnið,“ sagði Ragnar í samtali við DV.
Ragnar legur mikið upp úr því að vera öruggur í umferðinni en hann segist alltaf keyra löglega og hægja sérstaklega á sér þegar hann sér börn þar sem þau geta tekið óvæntar ákvarðanir, líkt og stúlkan gerði í dag.
„Ég hægi alltaf á mér þegar ég sé börn á gangstéttinni, ég tek enga sénsa þau er svo snögg að hlaupa og þetta bjargaði barninu í dag, hvað ég hægi á mér,“
Ragnar segist þó ekki vita hvernig best hefði verið að bregðast við, hvort betra hefði verið að skamma barnið eða að koma sér í samband við foreldra, hann vonast eftir svörum við því.
„Mér líður illa að hafa ekki gert neitt, ég þorði því bara ekki. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera, hvað átti ég að gera?“
Hann vonast til að fólk læri af þessari reynslu sinni og keyri varlega, þar að auki minnir Ragnar foreldra á að brýna umferðarreglurnar fyrir börnunum sínum.