fbpx
Mánudagur 21.september 2020
Fréttir

Birna segir Ara leita allra leiða til að sverta mannorð sitt: „Það er algjör heigulsháttur að beita ofbeldi“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 21. maí 2019 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ari Matthíasson, Þjóðleikhússtjóri sendi bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytis í síðustu viku þar sem hann sakar Birnu Hafstein, formann Félags íslenskra leikara (FÍL), um ósannindi. Birna hafnar þeim ásökunum og segir Þjóðleikhússtjóra í persónulegri svívirðingarherferð gegn henni, meðal annars fyrir það vera í hagsmunagæslu fyrir listamenn.

Fjölmennur fundur var haldinn hjá FÍL á dögunum þar sem framkoma Þjóðleikhússtjóra var til umræðu. Fundurinn fól stjórn FÍL að koma kvörtunum á framfæri við Þjóðleikhúsráð og stjórnsýsluna, um að ekkert hafi verið aðhafst vegna þeirra kvartana sem fyrir liggja vegna háttsemi Þjóðleikhússtjóra. Fundurinn krafðist þess einnig að fagaðila í vinnuvernd eða mannauði yrði falið að taka út samskiptin. Þá hefur lögmaður FÍL óskað eftir því að tekið verði tillit til kvartanna á hendur Þjóðleikhússtjóra þegar ráðið verður í stöðuna á næsta ári, en Ari var skipaður til fimm ára árið 2015 og hyggst sækja um starfið að nýju. Í bréfi sem Ari sendi mennta- og menningarmálaráðuneyti hafnar hann framkomnum ásökunum og sakar Birnu um ósannindi þetta kemur fram í frétt Vísis sem hefur umrætt bréf undir höndum, en upplýsir þó ekki hvaðan bréfið er fengið.

Margir kvartað yfir framkomu Ara

Birna segir í samtali við blaðamann DV að margir félagsmenn FÍL hafi leitað til félagsins á síðustu árum vegna framkomu Ara í þeirra garð.

„Margir félagsmenn hafa á liðnum árum leitað til félagsins, einnig áður en ég kom til starfa, vegna framkomu Þjóðleikhússtjóra en þora ekki að koma fram opinberlega með sínar sögur vegna atvinnu sinnar – enginn formlegur farvegur er innan Þjóðleikhússins til að koma slíkum umkvörtunum á framfæri, enginn mannauðsstjóri starfandi og ef þú ert skekinn eftir meðferð æðsta yfirmanns á vinnustaðnum þínum hvað gerir þú þá?

Það má eiginlega segja að Félag Íslenskra leikara sé búið að vera að sinna mannauðsmálum fyrir Þjóðleikhúsið í mörg ár. Listamenn eins og aðrir eiga auðvitað rétt á að vinna í heilbrigðu og góðu starfsumhverfi

Þetta snýst í rauninni um það og viðbrögð Þjóðleikhússtjóra, að mínu mati, sýna klárlega að komi þú umkvörtunum þínum á framfæri þá áttu ekki von á góðu. Enda er ég búin að sitja undir árásum frá honum síðan ég opnaði á mér munninn í fyrra eftir að hann hrinti mér.“

Stjakaði hranalega við Birnu eftir undirritun kjarasamnings

Atvikið sem Birna vísar til átti sér stað í kjölfar undirritunar nýs kjarasamnings í febrúar. Hart var tekist á og eftir undirritun bauð Birna fram sáttarhönd og faðmlag til Ara sem hafi þá stjakað við henni með þeim afleiðingum að hún hrasaði. Ari hefur haldið því fram að hann hafi aðeins ætlað að koma í veg fyrir faðmlag og hafi ekki ýtt við neinum.

„Það er ekkert bannað að neita að faðma mig, það er alveg sjálfsagt að neita því. Ég rétti út sáttarhönd og hann brást við með þessum hætti, missti greinilega stjórn á skapi sínu og stjakaði hranalega við mér þannig ég hrasaði.

Ég bar þetta upp á fundi Þjóðleikhúsráðs þar sem ég sit fyrir hönd Félags íslenskra leikara og það sorglega við þetta allt saman er að í stað þess að gangast við þeim vandamálum sem blasa við og Þjóðleikhússtjóra hafa ítrekað verið bent á af fleiri en einum aðila velur hann þá leið að leita allra leiða til að sverta mannorð mitt af því ég hef komið fram opinberlega og vitnað um framkomu hans.“

Ekkert umburðarlyndi gagnvart ofbeldi

Birna hefur ekkert umburðarlyndi gagnvart ofbeldi eða þeim sem beita því, hvorki í garð hennar né annarra.

„Ég mun alltaf taka mér stöðu gegn ofbeldi og ég verð að segja að það er algjör heigulsháttur að beita ofbeldi og það er heigulsháttur að styðja við ofbeldi. Ég ætla ekki að skipa  mér á bekk með slíkum einstaklingum. Þjóðleikhússtjóri hefur ítrekað reynt að þagga niður í mér með ýmum ráðum, ósannindum og bréfaskriftum út um allan bæ. Slík hegðun gengur bara ekki upp í dag.“

Þó svo kvartanir félagsmanna séu trúnaðarmál og því getur verið erfitt að taka á málunum, þá er önnur saga með ofangreint atvik. Það snerti Birnu sjálfa og átti sér auk þess stað þegar hún var við skyldustörf. Ber hún og stjórn FÍL því einnig ábyrgð á þeim viðbrögðum.

„Ég get stjórnað því hvernig ég bregst við því og mitt viðbragð og stjórnar FÍL er að tala um þetta opinskátt því þetta rímar við þær kvartanir sem hafa borist til félagsins um þennan skapofsa. Þannig við vorum í rauninni bara máluð út í horn með það að það var ekkert annað í boði, það var bara tekin stjórnarákvörðun hér, að tala um þetta opinskátt og kvarta yfir þessu. Þjóðleikhússtjóri hefði bara getað sýnt þann manndóm að gangast við því á sínum tíma og gera eitthvað í sínum málum en hann fór algjörlega í þveröfuga átt.“

Marklaus könnun

Ari hefur í málflutningi sínum vísað til könnunar sem var gerð meðal starfsmanna Þjóðleikhússins sem sýndi fram á mikla ánægju starfsmanna og almenna ánægju með samskipti við yfirmenn. Samkvæmt heimildum blaðamanns voru ýmsir ágallar á þeirri könnun. Meðal annars hafi tölvupóstföng allra viðtakenda verið sýnileg, spurningarnar samdar meðal annars af yfirmönnum Þjóðleikhússins, þrátt fyrir að utanaðkomandi fyrirtæki hafi formlega annast könnunina. Einnig hafi verið ágallar á úrtaki starfsmanna sem spurningarnar voru lagðar fyrir. Heimildarmaður DV gengur svo langt að segja að Þjóðleikhúsið hafi rannsakað sjálft sig. Slíkt háttsemi sem og háttsemi Þjóðleikhússtjóra sé engan vegin sæmandi.

Í samtali við blaðamann segir Birna að embætti Þjóðleikhússtjóra sé virðingarverð staða og afar áhrifamikil.  Sá aðili sem gegni þeirri stöðu þurfi því að sýna gott fordæmi, vanda samskipti og vera til fyrirmyndar.

Persónuleg svívirðingarherferð

FÍL þarf í starfsemi sinni að eiga í miklum samskiptum við leikhúsin og þar með Þjóðleikhúsið. Einkum hvað varðar samningaviðræður og við hagsmunagæslu félagsmanna. Því er það hagsmunamál að samskiptin séu opin og góð. Því virðist ekki fyrir að fara í tilviki FÍL og Þjóðleikhússtjóra. FÍL hafi bent á vandamál innan Þjóðleikhússins, en í stað þess að það leiði til úrbóta hafi það leitt til þess að Þjóðleikhússtjóri sjálfur sé farinn í persónulega ófrægingarherferð gegn formanni FÍl, gott dæmi um það sé áðurnefnt bréf sem Þjóðleikhússtjóri hefur sent mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Slík herferð geri engum gott.

Birna bendir að upphaf máls þessa megi rekja til framkomu Ara í kjaraviðræðum sem Fréttablaðið fjallaði um, en þar bar blaðamaður undir Ara þá háttsemi að hafa stjakað við Birnu og neitaði hann því ekki.

„Upphaf þessa máls má rekja til ófaglegrar framkomu hans í kjaraviðræðum sem snerist upp persónulega óvild af hans hálfu þegar ég óskaði eftir að framkoma hans væri tekin fyrir í Þjóðleikhúsráði. Ég er fulltrúi í Þjóðleikhúsráði og þetta mál og önnur er varða framkomu Þjóðleikhússtjóra skipta máli þegar horft er til starfsemi Þjóðleikhússins. Við getum ekki bara horft á jákvæða fjárhagslega afkomu leikhússins þó það séu góðar fréttir, það þarf líka að hafa hugrekki til að benda á og reyna að lagfæra það sem betur má fara. Það hef ég gert og uppsker nú persónulega svívirðingarherferð.

Þetta reynist félagsmönnum í Félagi íslenskra leikara mjög erfitt. En í kjarnanum snýst þetta um mannréttindi og réttlæti og heilbrigt starfsumhverfi sem við eigum öll rétt á.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Í gær

113 smit á tveimur dögum – Víðir kominn í sóttkví

113 smit á tveimur dögum – Víðir kominn í sóttkví
Fréttir
Í gær

„Er virkilega ekki hægt að gera betur?“ spyr Lára – „Líklega ein versta tilfinningin“

„Er virkilega ekki hægt að gera betur?“ spyr Lára – „Líklega ein versta tilfinningin“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Metamfetamín, kannabis og hvítar töflur fundust í íbúðarhúsnæði í Keflavík

Metamfetamín, kannabis og hvítar töflur fundust í íbúðarhúsnæði í Keflavík
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Í kringum 70 þúsund byssur í einkaeign á Íslandi – Ekki þörf á byssuskáp fyrr en á fjórðu byssu

Í kringum 70 þúsund byssur í einkaeign á Íslandi – Ekki þörf á byssuskáp fyrr en á fjórðu byssu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Jón Bjarni segir að hægt sé að bjarga rekstri baranna og skemmtistaðanna með einfaldri aðgerð

Jón Bjarni segir að hægt sé að bjarga rekstri baranna og skemmtistaðanna með einfaldri aðgerð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Jón Ívar kærir Jón Magnús til Siðanefndar lækna

Jón Ívar kærir Jón Magnús til Siðanefndar lækna