fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

„Þessir menn ættu aldrei að fá að búa nálægt börnum“

Auður Ösp
Þriðjudaginn 8. október 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þú ert foreldri. Einn daginn kemstu að því að barnið þitt hefur verið misnotað kynferðislega. Kæruferli fer í gang, gerandinn er ákærður og sakfelldur, fer í fangelsi. Eftir nokkra mánuði, kannski ár, er níðingurinn laus. Sá sem braut á barninu þínu er einhvers staðar þarna úti í samfélaginu og þú veist aldrei nema þú rekist á hann í röðinni í Bónus, á bensínstöðinni, á biðstofunni hjá lækninum. Upp vaknar sú eðlishvöt sem innbyggð er í flestallar lífverur; að vernda afkvæmi sitt með kjafti og klóm. En á það ekki að vera hlutverk yfirvalda að vernda almenning fyrir mönnum sem taldir eru hættulegir umhverfi sínu?

DV hefur undanfarnar vikur kortlagt búsetu dæmdra barnaníðinga á Íslandi. Líkt og fram hefur komið þá hafa margdæmdir barnaníðingar hér á landi fullan rétt á því að búa nálægt börnum. Margir þeirra grípa til þess ráðs að breyta um nafn til að forðast ofsóknir. Víða erlendis eru í gildi lög um tilkynningarskyldu til almennings um dæmda kynferðisafbrotamenn sem hætta er talin stafa af, til að mynda í  Bretlandi þar sem lög heimila miðlun á upplýsingum um kynferðisbrotamenn í tilteknum tilvikum.

Í Bandaríkjunum eru dæmdir kynferðisbrotamenn lagalega skyldugir til þess að gefa sig fram við löggæsluyfirvöld í sinni borg eða bæjarfélagi eftir að afplánun refsingar lýkur. Í kjölfarið fara umræddir brotamenn á lista sem er aðgengilegur almenningi. Viðkomandi einstaklingur þarf að gefa yfirvöldum upplýsingar um heimilisfang sitt og persónulega hagi og gefa sig fram við lögreglu árlega, hafi hann fasta búsetu.

Engin slík tilkynningarskylda ríkir á Íslandi en frumvarp til lagabreytinga sem varðar eftirlit með dæmdum barnaníðingum var lagt fram í þriðja sinn nú á dögunum. Flutningsmaður frumvarpsins er Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Nái frumvarpið fram að ganga þurfa barnaníðingar sem beinlínis eru taldir eru hættulegir umhverfi sínu að gangast undir vissar kvaðir. Til að mynda yrði þeim bannað að búa nálægt börnum, eftirlit yrði með netnotkun þeirra og lögregla mundi hafa eftirlit með heimili þeirra. Þá er gert ráð fyrir í frumvarpinu að barnaverndarnefndir og aðrir viðkomandi aðilar verði upplýstir þegar dæmdur barnaníðingur flytur búferlum.

 Gerandinn býr á móti grunnskóla

„Mér finnst það klárlega varða almannahagsmuni að um þennan mann sé vitað. Hann býr í námunda við skóla og börn eiga alltaf að njóta vafans,“ segir ungur faðir á höfuðborgarsvæðinu en dóttir hans var sex ára gömul þegar einstaklingur innan fjölskyldunnar braut á henni kynferðislega. Brotin áttu sér stað á heimili gerandans, á rúmlega einu ári, en hann var einnig gripinn með töluvert magn af barnaklámi í fartölvu sinni. Fyrir dómi var það virt gerandanum til refsilækkunar að hann játaði brotin og hefði leitað sér aðstoðar. Hann hlaut að lokum 12 mánaða fangelsi, skilorðsbundið.

Faðirinn segir að hann og móðir stúlkunnar hafi lokað á öll samskipti við gerandann og vilja þau sem minnst af honum vita. Faðirinn veit þó af því að gerandinn býr í dag skammt frá grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Faðirinn segir að hann sé hreinlega ekki viss um hvort gerandinn sé líklegur til að brjóta kynferðislega á fleiri börnum. Hann útilokar það ekki.

Þegar dómur féll yfir gerandanum á sínum tíma var dómskjalið ekki birt á vefsíðu dómstólanna. Faðirinn segist hafa haft samband við fulltrúa héraðsdóms í kjölfarið og spurst fyrir um hvernig á þessu stæði. Benti faðirinn meðal annars á að dómurinn væri þannig orðaður að með engu móti væri hægt að rekja hver gerandinn væri. Þá mætti færa rök fyrir því að nafnleynd fyrir ákærða myndi ekki leiða til annars en þöggunar og einangrunar. Í kjölfarið var dómurinn birtur á vefnum, en nafn gerandans kom þó ekki fram.

Faðirinn gagnrýnir að það sé ekki hægt að ganga að því vísu að gerendur í kynferðisbrotamálum séu nafngreindir í opinberum dómsgögnum.

„Ég er á því að nafn hans hafi átt að birtast í dómnum. En það breytir svo sem engu um það að þessi maður hefur verið dæmdur og það er ekkert trúnaðarmál. Það mega og eiga allir að vita og því ekkert að því að tala um það né fjalla um það. Það sem angrar mig mest er að það skuli ekki vera fyrirsjáanlegt ferli þegar þessi mál rata fyrir dóm. Óhjákvæmilega vekur það upp samsæriskenningar. Er verið að þagga þetta niður? Hvern er verið að vernda með þessari nafnleynd? Mér finnst að í þessum málum eigi að ríkja gagnsæi. Það á ekki að vera á valdi einhvers eins dómara, sem gæti þess vegna verið gamall skólafélagi gerandans eða pólitískt tengdur honum.“

Talaði sjálfur við skólayfirvöld

Líkt og áður segir býr gerandinn í næsta nágrenni við grunnskóla. Faðirinn hafði  sjálfur samband við skólastjórnendur á sínum tíma og lét vita af manninum. Hann tekur undir að það eigi ekki að vera hlutverk almennra borgara að upplýsa skólayfirvöld um slíkt, en hann hafi séð sig knúinn til þess svo hægt væri að gera viðeigandi ráðstafanir.

„Ég myndi vilja sjá einhvers konar eftirlit, en það er auðvitað hægt að útfæra það á ýmsa vegu. En ég myndi vilja sjá það gert, sérstaklega þegar menn eru taldir líklegir til að brjóta af sér aftur. Markmiðið er alltaf að vernda börnin okkar.“

Braut gegn fimm stúlkum

Hér á eftir er rætt við tvær konur, mæður stúlkna sem voru beittar kynferðisofbeldi af sama manninum.

Sveinn Ríkharðsson, kallaður Dinni, var árið 2000 dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum á aldrinum fimm til átta ára. Ein þeirra er dóttir Halldóru og önnur er dóttir Sædísar.

Þetta var ekki fyrsta brot Sveins; árið 1984 hlaut hann átta mánaða fangelsisdóm fyrir að brjóta kynferðislega á tíu ára gamalli þroskaskertri stúlku. Sex mánuðir voru bundnir skilorði. Þess ber að geta að þegar dómur féll í seinna málinu var Sveinn grunaður um að hafa brotið gegn fleiri börnum, meðal annars syni sambýliskonu sinnar. Hins vegar voru ekki nægileg gögn til staðar til að sakfella hann.

Sveinn er í dag búsettur í Hafnarfirði, beint á móti sundlaug. Hann hefur undanfarin misseri unnið sem bílstjóri hjá hinum og þessum fyrirtækjum.

Hitti níðing dóttur sinnar á Reykjalundi

Sædís Hrönn Samúelsdóttir er móðir einnar stúlkunnar sem Sveinn var dæmdur fyrir að brjóta á kynferðislega, frá því hún var fjögurra ára þar til hún var sex ára. Sveinn var vinur og skipsfélagi þáverandi eiginmanns Sædísar og var um tíma inni á gafli hjá fjölskyldunni. Daginn fyrir sex ára afmæli dóttur sinnar voru Sædís og eiginmaður hennar boðuð á fund barnaverndarstarfsmanns. Í ljós kom að Sveinn hafði misnotað dóttur þeirra, og fleiri barnungar stúlkur.

„Ég held að ég muni alltaf koma til með að hafa áhyggjur af því að hann sé enn að,“ segir Sædís. Henni finnst skelfilegt að hugsa til þess að Sveinn sé eftirlitslaus úti í samfélaginu, og enginn skipti sér af því að hann fái að búa beint á móti sundlaug. „Þetta er mjög sjúkt því fjöldi barna sækja þessa sundlaug. Þar á meðal 10 ára gömul dóttir mín.“

Hún segist einu sinni hafa hitt Svein.

„Það var árið 2016, þegar ég átti að byrja í endurhæfingu á Reykjalundi eftir hjartaáfall. Þá var hann á sömu deild í endurhæfingu. Það var eins og ég hefði verið kýld í magann og öll reiðin, sem ég hélt að hefði eitthvað lægt, kom öll aftur til baka. Ég held að ég verði alltaf reið.“

Finnur ekki ró „Ég held að ég muni alltaf koma til með að hafa áhyggjur af því að hann sé enn að,“ segir Sædís. Mynd: Eyþór Árnason

Kerfið svifaseint

Þegar Sædís leitaði svara á sínum tíma var henni tjáð að hún „mætti vera fegin að maðurinn hefði verið dæmdur á annað borð“.

„Mér finnst dómar allt of stuttir, sérstaklega þegar um er að ræða síbrotamenn með mörg fórnarlömb. Það er sjaldan sem svona mál ná alla leiðina í kerfinu. Einhverra hluta vegna er eins og það sé ekki tekið eins hart á málunum þegar konur og börn eru fórnarlömbin. Mér hefur alltaf fundist að það þurfi að vera einhvers konar eftirlit með dæmdum níðingum, en ég veit þó ekki hvernig væri best að útfæra það. Það á að láta fólk vita ef það er talin hætta á að börn hljóti skaða af þeim. Ég geri greinarmun á hvort það sé eitt eða fleiri fórnarlömb og líka aðstæðum og fleira. Ég veit bara að hefði verið einhvers konar eftirlit með þessum mönnum eftir afplánun þá hefði dóttir mín og hugsanlega fjöldi annarra barna sloppið, því hann hafði áður hlotið dóm.“

Dóttirin fékk sent klámbréf

„Hann er pjúra ógeð og hvorki ég né dóttir mín erum að hlífa honum við neinu. Ég hef mætt honum, til dæmis í Kolaportinu. Ég kallaði upp hástöfum að þarna væri barnaperri á ferð. Ég hika ekki við að gera honum lífið leitt. Svona menn eiga einfaldlega ekkert gott skilið,“ segir Halldóra Eyfjörð.

Dóttir Halldóru var fimm ára gömul þegar hún var misnotuð kynferðislega af Sveini, sem þá var vinur fjölskyldunnar. Fyrra skiptið var á aðfangadag, þegar Sveinn kom með gjöf til hennar. Seinna skiptið var rúmlega tveimur mánuðum síðar, en þá tók Dinni að sér að gæta stúlkunnar á meðan Halldóra fór út. Í ákæru kemur meðal annars fram að hann hafi farið með stúlkunni í bað, þvegið og strokið á henni kynfærin og reynt að setja getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar. Einnig sendi hann stúlkunni handskrifað bréf þar sem hann  sagðist meðal annars „hlakka til að nauðga henni í rassinn og meiða hana.“

„Þessir menn ættu aldrei að fá að búa nálægt börnum“

Hana hryllir við að vita af manninum úti í samfélaginu, eftirlitslausum og með frelsi til að vera í samneyti við börn.

„Þetta er ömurlegt og erfitt því ég er alltaf hrædd um að hann misnoti önnur börn,“ segir hún og bætir við að þessar áhyggjur hverfi aldrei. Hún hefur því fylgst náið með ferðum Sveins undanfarin ár og veit hvar hann er að vinna hverju sinni. Hún hefur ekki hikað við að láta vinnuveitendur hans á hverjum stað vita af því að þeir séu með dæmdan barnaníðing á launaskrá.

„Ég hef líka fylgst með hvar hann býr. Einu sinni lét ég vita af því að hann byggi í herbergi í stigagangi, innan um mörg börn. Lögregla kom eftir að ég hafði samband við leigusalann. Þeir fóru inn í herbergi hans og fundu þar mikið magn af barnaklámi. Þessir menn halda áfram uppteknum hætti. Eftirlit þarf að vera mun meira og dómar eiga að vera margfalt þyngri,“ segir Halldóra jafnframt. Hún veit að Sveinn býr í dag á móti sundlaug, þar sem börn koma á hverjum degi. Það finnst henni hrikaleg tilhugsun.

„Þessir menn ættu aldrei að fá að búa nálægt börnum. Mér finnst að almenningur eigi fullan rétt á að vita hvar dæmdir níðingar búa svo fólk geti varið sín börn.“

Hrædd um fleiri brot Halldóra á barn sem var misnotað kynferðislega og óttast að níðingurinn brjóti af sér aftur. Mynd: Eyþór Árnason

Bjó í „paradís barnaníðinga“

DV hefur reglulega greint frá því að dæmdir barnaníðingar hafi flutt í hverfi þar sem mikið er um barnafjölskyldur.

„Við erum allar logandi hrædd um börnin okkar,“ sagði áhyggjufull móðir í samtali við DV í mars 2006. Greint var frá því að mikill ótti hefði gripið um sig meðal foreldra í Írabakka í Breiðholti eftir að dæmdur barnaníðingur, Sigurður Jónsson, flutti í hverfið. Sigurður hafði áður hlotið árs fangelsi fyrir að misnota tvo drengi. Rétt áður en hann átti að afplána dóminn nauðgaði hann 17 ára pilti, sem var andlega vanheill, ásamt öðrum manni. Félagsþjónusta Reykjavíkur úthlutaði Sigurði íbúðina í „paradís barnaníðinga“ eins og ein móðir orðaði það.

Sigurður Kr. Friðriksson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, sagði í samtali við DV á sínum tíma að barnaníðingar ættu ekki að búa í barnablokkum, en hann gæti engu að síður ekkert gert í málinu.

„Mín persónulega skoðun er sú að dæmdir barnaníðingar eiga ekki að vera í sama fjölbýlishúsi og börn,“ sagði Sigurður. Hann sagði að Félagsbústaðir vissu ekki um fortíð manna þegar þeir útvega þeim húsnæði heldur væri það velferðarsvið Reykjavíkur og því væri erfitt fyrir þá að koma í veg fyrir að svona vandamál kæmu upp.

„Strákurinn minn sem er nýbyrjaður í skóla, labbar í hann á hverjum degi. Þetta er þannig hverfi að börnin labba öll í skólann. Mér finnst svakalegt að skólinn hafi ekki látið okkur vita af þessu,“ sagði Kristján Grétar Kristánsson, áhyggjufullur faðir í Bakkahverfi í Reykjavík, í samtali við DV árið 2009. Þá hafði Ágúst Magnússon, dæmdur barnaníðingur, flutt í hverfið. Kristján sagði foreldra í nágrenninu uggandi og undraðist að þeir hefðu ekki fengið ábendingar um að Ágúst væri orðinn nágranni þeirra.

Níðingurinn bjó áfram í húsinu

Sonur Ólafar Jónsdóttur Pitts var misnotaður kynferðislega af nágranna þegar hann var sjö ára gamall. Hann beið þess aldrei bætur og leiddist út í drykkju og lyfjamisnotkun á unglingsárum. Hann lést árið 2009 eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af morfíni. Ólöf og sonur hennar, Einar Már Kristjánsson heitinn, bjuggu á sínum tíma í íbúð á vegum Félagsbústaða í Breiðholti. Dag einn sagði Einar móður sinni hvað maður í blokkinni hefði gert við hann.

„Hann sem sagt dobblar Einar inn til sín og lætur hann fá 100 krónur gegn því að fá að snerta hann. sig. Þessi maður lét sjö ára barn fróa sér. Hann lofaði honum síðan að hann mætti fá að horfa á bíómynd gegn því að fá að koma við typpið á honum. Ég fékk áfall.“

Ólöf tilkynnti málið til lögreglunnar og var maðurinn færður til yfirheyrslu hjá lögreglu. Honum var sleppt eftir það. Engin ákæra var gefin út og var málið látið niður falla. Maðurinn fékk að búa áfram í íbúð Félagsbústaða eftir og flutti aftur inn í húsið eftir að honum var sleppt en Ólöf hafði ekki tök á því að flytja með son sinn í burtu fyrr en tveimur árum síðar.

„Það var ekkert gert til að koma honum í burtu. Ég þurfti að mæta þessum manni í húsinu næstu tvö árin,“ segir Ólöf og bætir við að hún hafi hreinlega ekki haft tök á því að flytja úr húsinu. Henni var að lokum úthlutað nýrri íbúð annars staðar á vegum Félagsbústaða vestur í bæ.

„Við lentum oft í því að hitta manninn í strætó. Einar þrútnaði allur þegar hann sá hann. „Hvernig geturðu horft framan í hann mamma?“ spurði hann mig. Maðurinn reyndi aftur að nálgast Einar mörgum árum seinna. En þá var Einar orðinn fullorðinn maður. Hann lokaði á hann.“

Náði sér aldrei Sonur Ólafar beið þess aldrei bætur að hafa verið misnotaður og leiddist út í drykkkju og lyfjamisnotkun á unglingsárum. Hann lést árið 2009. Mynd: Eyþór Árnason

Elti hann heim

Ólöf komst að því fyrir nokkrum árum að maðurinn væri búsettur í úthverfi á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég var einu sinni ein í strætó þegar ég sá hann kom inn í vagninn. Ég ákvað að elta hann til að sjá hvar hann ætti heima. Hann tók vagninn alla leið upp í Grafarholt og ég elti hann út úr vagninum og alla leið heim til hans,“ segir hún. „En Einar varð aldrei samur eftir þetta. Hann náði sér aldrei á strik. Á seinni árunum vildi hann ekkert lifa,“ segir Ólöf.

Hún veit ekki hvort gerandinn, maðurinn sem braut á syni hennar, sé enn á lífi í dag. Líkt og áður segir barðist Einar við mikið þunglyndi í kjölfar misnotkunarinnar. Hann lést árið 2009, eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af morfíni.

Ólöf ræddi við DV árið 2010, en þá hafði hún komið af stað söfnun fyrir legsteini fyrir son sin með því að selja ljóðabækurnar hans. Einar fann huggun í ljóðaskrifum og tjáði tilfinningar sínar, bæði reiði og gleði, í gegnum ljóðin.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum
Fréttir
Í gær

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Slys við Dalveg: Bíl ekið inn í skrifstofu Útlendingastofnunnar

Slys við Dalveg: Bíl ekið inn í skrifstofu Útlendingastofnunnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun

Mætti tveimur rottum í Skeiðarvoginum í morgun